Í hnotskurn
Álagspróf Seðlabanka Íslands bendir til þess að kerfislega mikilvægu viðskiptabankarnir þrír (KMB) hefðu nægan viðnámsþrótt til að viðhalda framboði lánsfjár og styðja við hagkerfið í alvarlegu áfalli. Áfall sem gert er ráð fyrir í álagsprófinu er byggt á mögulegri og alvarlegri framvindu sem að þessu sinni eru látin tengjast aukinni spennu í alþjóðaviðskiptum og vaxandi stríðsátökum og afleiðingum þeirra. Áfallið leiðir til samdráttar í landsframleiðslu, aukins atvinnuleysis og mikillar lækkunar eignaverðs.
Mat Seðlabankans er að útlánatap KMB yrði í heild 145 ma.kr. skv. sviðsmyndinni sem dregin er upp, eða sem nemur 3,3% af kröfuvirði útlánasafns KMB eins og það stendur við upphaf álagsprófsins. Sterkur grunnrekstur KMB vegur á móti útlánatapi svo samanlagt tap þeirra eftir skatta nemur 13 ma.kr. á því ári sem það verður mest skv. sviðsmyndinni.
Hlutfall almenns eigin fjár þáttar 1 af áhættugrunni lækkar um 1,3 prósentur frá upphafi sviðsmyndarinnar til lággildis þess. Heildarkröfu um eigið fé og almennt eigið fé þáttar 1 er fullnægt öll árin. Miðað við niðurstöður álagsprófsins eru ekki horfur á að KMB þyrftu að draga verulega úr lánsfjárframboði til að bregðast við áfallinu. Það er því með öðrum orðum ólíklegt að bankarnir þyrftu að draga úr lánveitingum til að styrkja eiginfjárhlutföll og valda með því enn dýpri samdrætti í efnahagslífinu.
Forsendur álagssviðsmyndar Seðlabankans eru nú í fyrsta skipti sambærilegar við þær sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin notar í álagsprófi á 64 evrópskar bankasamstæður. Samanburður leiðir í ljós að lækkun eiginfjár- og vogunarhlutfalla íslenskra banka er væg í samanburði við evrópsku bankana. Þessi niðurstaða skýrist meðal annars af hærra vogunarhlutfalli íslenskra banka og hlutfallslega minni markaðstengdri áhættu. Niðurstaðan er jákvæð, en hafa ber í huga að íslenskt hagkerfi er smærra og útsett fyrir margvíslegri áhættu.
Rammagreinar
Í ritinu Álagspróf 2025 má finna eftirfarandi tvær rammagreinar auk þess sem hægt er að skoða yfirlit yfir áður útgefnar rammagreinar.
Rammagrein | Bls. |
---|---|
Íslenskir bankar og álagspróf EBA árið 2025 | 13 |
Útlánavöxtur og víxlverkun | 16 |