Fara beint í Meginmál

Bein fjárfesting 202419. september 2025

Bein fjárfesting erlendra aðila innanlands

Í árslok 2024 var heildar bein fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi 1.598 ma.kr. Beint fjárfestingarflæði til Íslands nam 325 ma.kr. á árinu.

Flæði hlutafjárviðskipta erlendra aðila í innlendum félögum nam 352 ma.kr á árinu 2024. Á sama tíma voru áhrif endurfjárfestingar á heildarflæði 10 ma.kr til hækkunar.

Hlutfall eiginfjáreignar af heildar beinni fjármunaeign í lok ársins 2024 var 65% og restin í formi lánsfjármagns milli eignatengdra aðila.

Stærstu beinu fjárfestingarlöndin í árslok voru Lúxemborg, Bandaríkin, Sviss, Holland og Noregur.

Bein fjárfesting erlendra aðila innanlands er að stærstum hluta í félögum tengdum álframleiðslu og lyfjaiðnaði. Um 48% af beinni fjármunaeign er í eignarhaldsfélögum en stór hluti þeirra félaga tengjast áðurnefndum atvinnugreinum.

Bein fjárfesting innlendra aðila erlendis

Í árslok 2024 var bein fjármunaeign innlendra aðila erlendis 788 ma.kr. en beint fjárfestingarflæði var jákvætt um 18 ma.kr. á árinu.

Af heildar beinni fjármunaeign innlendra aðila erlendis var 87% í formi eiginfjár.

Um 51% beinnar fjármunaeignar er skráð í Hollandi en megnið af því fjármagni er í eignarhaldsfélögum.

Stærstu beinu fjárfestarnir eru félög sem tengjast lyfjaiðnaði, tækja- og vélaframleiðslu sem og sjávarútvegi. Af fjárfestingu innlendra aðila erlendis er tæpur helmingur í eignarhaldsfélögum sem að stærstum hluta tengjast áðurnefndum atvinnugreinum.  

Fyrirspurnir skal senda á netfangið adstod@sedlabanki.is