Fara beint í Meginmál

Greiðslujöfnuður þjóðarbúsins, ytri staða og áhættuþættir 16. október 2025

Seðlabanki Íslands gaf í dag út ritið Greiðslujöfnuður þjóðarbúsins, ytri staða og áhættuþættir 2025. Í ritinu er fjallað um þróun greiðslujafnaðar Íslands, ytri stöðu þjóðarbúsins og helstu áhættuþætti.

Undanfarin ár hafa einkennst af röð áfalla í heimsbúskapnum – heimsfaraldrinum, mikilli hækkun orku- og matvælaverðs í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og aukinni pólitískri óvissu. Meðal afleiðinga þessa var mesta verðbólga í þróuðum ríkjum í áratugi og háir vextir. Þá bættust víðtækar tollahækkanir í Bandaríkjunum við og aukin óvissa um alþjóðaviðskipti. Gengi krónunnar hefur hækkað þrátt fyrir óróleika á alþjóðlegum mörkuðum og gengisflökt krónunnar hefur verið hóflegt í alþjóðlegum samanburði.

Hér á landi hefur viðskiptahallinn mælst á bilinu 1-2½% af landsframleiðslu allt frá árinu 2021. Hann hefur heldur vaxið samhliða aukinni innlendri fjárfestingu og er fjárfestingarhlutfall á Íslandi nú hærra en í flestum helstu viðskiptalöndum. Áhrif aukins viðskiptahalla á gengi krónunnar hafa verið minni en ætla mætti þar sem hallinn skýrist að mestu af fjárfestingum sem fjármagnaðar eru með erlendu fé. Þá hefur hrein erlend staða þjóðarbúsins sjaldan verið betri en í ár og var jákvæð um 44% af landsframleiðslu í lok annars ársfjórðungs, studd af miklum erlendum eignum lífeyrissjóða. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 893 ma.kr., eða 19% af landsframleiðslu, og er rúmur miðað við alþjóðleg viðmið. Erlendar skuldir þjóðarbúsins námu 98% af landsframleiðslu og leita þarf aftur til síðustu aldamóta eftir jafn lágri skuldastöðu.

Í sviðsmynd greiðslujafnaðar sem birt er í ritinu er gert ráð fyrir viðskiptahalli við útlönd aukist á þessu ári en taki svo að minnka á næsta ári. Áætlað er að gjaldeyrisforði Seðlabankans verði um 930 ma.kr. í lok þessa árs, eða um 118% af viðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hrein erlend staða verður áfram sterk í sögulegu og alþjóðlegu samhengi, og þjóðarbúið er vel í stakk búið til að mæta ytri sveiflum og óvissu.

Ritið Greiðslujöfnuður þjóðarbúsins, ytri staða og áhættuþættir kom síðast út árið 2023 og er hluti af reglulegri upplýsingagjöf Seðlabanka Íslands um þróun greiðslujafnaðar, gengis- og gjaldeyrismála. Markmiðið er að veita ítarlegt yfirlit yfir stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum og varpa ljósi á þróun helstu efnahagslegra áhættuþátta.