Að gefnu tilefni vill Seðlabanki Íslands vekja athygli fjárfesta á að fjármálaeftirlitið hefur ekki eftirlit með útboðum á hlutum í einkahlutafélagi. Ástæðan fyrir því er sú að hlutaskírteini eru ekki framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum og teljast því ekki vera verðbréf.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með lögum nr. 14/2020 um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði. Almennt útboð og taka verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði er háð því að lýsing hafi verið gefin út í samræmi við framanrituð lög. Markmiðið með útgáfu lýsingar er að tryggja að fjárfestar geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji eiga viðskipti eða ekki með viðkomandi verðbréf og þá á hvaða kjörum. Þar sem engin lýsing er gefin út þegar um er að ræða boð á hlutum í einkahlutafélagi er mikilvægt að fjárfestar kynni sér vel fjárfestingarkostinn, s.s. hver útgefandinn er, hverjir sitja í stjórn og framkvæmdastjórn, hver vænt ávöxtun er og áhættuna sem tengist slíkum kaupum s.s. með tilliti til seljanleika.
Að lokum má benda á að umsjón með almennu útboði verðbréfa er starfsleyfisskyld starfsemi og einungis heimil lögaðilum sem hlotið hafa til þess leyfi frá fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar sem hlutaskírteini eru ekki verðbréf er ekki lagt mat á hæfi aðila sem hefur umsjón með áskriftarsöfnun í einkahlutafélagi. Það þýðir einnig að ákvæði laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga gilda ekki um slík útboð, en lögunum er m.a. ætlað að tryggja að umsjónaraðili viðhafi eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og uppfylli kröfur á sviði fjárfestaverndar, s.s. um samninga við viðskiptavini, upplýsingagjöf til viðskiptavina, flokkun viðskiptavina, öflun upplýsinga um viðskiptavini o.fl. sem stuðlar að réttarvernd þeirra.
Með vísan til alls framanritaðs ráðleggur fjármálaeftirlitið fjárfestum að kynna sér vel fjárfestingarkostinn áður en ákvörðun er tekin um að fjárfesta í hlutum í einkahlutafélögum.