Könnun á væntingum markaðsaðila um verðbólgu og vexti 3. til 5. nóvember 2025 12. nóvember 2025
Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila um verðbólgu og vexti dagana 3. til 5. nóvember sl. Leitað var til 38 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 30 aðilum og var svarhlutfallið því 79%.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila hafi lítið breyst frá síðustu könnun í ágúst sl. Þeir gera ráð fyrir að verðbólga minnki á næstunni og miðað við miðgildi svara vænta markaðsaðilar að verðbólga verði 3,4% eftir eitt ár, 3% eftir tvö ár og að meðaltali 3% á næstu fimm og tíu árum. Þá benda niðurstöðurnar til þess að markaðsaðilar búast við því að gengi krónunnar lækki á næstu misserum og gengi evru gagnvart krónu verði 149,5 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni gera markaðsaðilar ráð fyrir því að meginvextir Seðlabankans verði óbreyttir í 7,5% á núverandi fjórðungi en taki að lækka á ný í byrjun næsta árs. Markaðsaðilar gera ráð fyrir því að meginvextir lækki lítillega hraðar en talið var í ágúst og verði 7% í lok fyrsta fjórðungs næsta árs og 6,25% í lok ársins. Væntingar þeirra um meginvexti eftir tvö ár eru hins vegar óbreyttar milli kannana eða í 5,75%.
Hlutfall svarenda sem taldi taumhald peningastefnunnar vera of þétt hækkaði umtalsvert milli kannana og var 83% samanborið við 43% í síðustu könnun. Um 17% taldi taumhaldið vera hæfilegt samanborið við 43% í ágúst. Enginn svarenda taldi taumhaldið of laust en í ágústkönnuninni taldi 14% svarenda taumhaldið of laust.
Heildardreifing svara um væntingar til verðbólgu á núverandi ársfjórðungi og að meðaltali næstu fimm ár minnkaði milli kannana en var nánast óbreytt með tilliti til annarra tímalengda. Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar þeirra um þróun vaxta á núverandi ársfjórðungi minnkaði milli kannana en jókst hins vegar nokkuð þegar spurt var um væntingar til vaxta eftir eitt og tvö ár.
Markaðsaðilar voru einnig spurðir út í það hver væri að þeirra mati megindrifkraftur hækkunar á gengi krónunnar á árinu. Tveir þriðju svarenda nefndi að lítil eftirspurn lífeyrissjóðanna á gjaldeyrismarkaði hafi átt þátt í hækkuninni. Hluti svarenda nefndi líka sterkan útflutning, einkum í ferðaþjónustu, og aukið innflæði fjármagns vegna fjárfestingar erlendra aðila í innlendum eignum.
Frekari upplýsingar um könnun á væntingum markaðsaðila má finna á meðfylgjandi síðu: