Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 5. til 7. maí sl. Leitað var til 39 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 25 aðilum og var svarhlutfallið því 64%.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti lítillega meiri verðbólgu á þessu ári en í síðustu könnun í janúar sl. Væntingar þeirra um verðbólgu eftir eitt ár og til lengri tíma lækkuðu hins vegar milli kannana. Miðað við miðgildi svara vænta markaðsaðilar nú að verðbólga verði 3,3% eftir eitt ár, 3% eftir tvö ár og að meðaltali um 3% á næstu fimm og tíu árum. Það er 0,3-0,4 prósentum minna en í síðustu könnun. Þá benda niðurstöðurnar til þess að markaðsaðilar búast við því að gengi krónunnar lækki á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 149 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni gera markaðsaðilar ráð fyrir því að meginvextir Seðlabankans verði 7,5% í lok núverandi ársfjórðungs, sem er 0,25 prósentum hærri vextir en þeir gerðu ráð fyrir í síðustu könnun. Þá gera þeir ráð fyrir að meginvextir verði 6% eftir eitt ár og 5,75% eftir tvö ár sem er svipað og þeir væntu í síðustu könnun.
Hlutfall svarenda sem taldi taumhald peningastefnunnar vera of þétt minnkaði nokkuð milli kannana og var 64%, samanborið við 80% í síðustu könnun. Um 36% telja taumhaldið vera hæfilegt samanborið við 20% í janúar en enginn svaraði því að taumhaldið væri of laust.
Dreifing svara um væntingar til verðbólgu var minni en í janúarkönnuninni til nær allra tímalengda. Dreifing svara markaðsaðila um væntingar þeirra um þróun vaxta minnkaði einnig fyrir núverandi ársfjórðung og næsta ársfjórðung. Dreifing svara um væntingar um þróun vaxta eftir fjóra ársfjórðunga jókst hins vegar en til annarra tímalengda hélst dreifingin nær óbreytt milli kannana.
Markaðsaðilar voru einnig spurðir um áhrif vaxandi verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum og hækkun tolla á væntingar þeirra um innlenda verðbólguþróun á næstu tveimur árum. Um 60% svarenda töldu að tollar muni leiða til aukinnar verðbólgu, m.a. í gegnum hærra aðfangaverð. Þá tók hluti svarenda fram að þeir búast við hægari efnahagsumsvifum bæði á heimsvísu og hér á landi sem gætu, að öðru óbreyttu, leitt til minni verðbólguþrýstings. Flestir markaðsaðilar eru þó sammála um að mikil óvissa sé um þróunina.
Frekari upplýsingar um könnun á væntingum markaðsaðila má finna hér: Markaðskönnun