Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands leggur mat á áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja í könnunar- og matsferli (e. Supervisory Review and Evaluation Process, SREP) og með hvaða hætti fjármálafyrirtæki meðhöndlar þá í starfseminni, sbr. lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Niðurstaða liggur nú fyrir er varðar mat á viðbótareiginfjárþörf hjá viðskiptabönkunum fjórum. Ákvörðun um viðbótarkröfu um eiginfjárgrunn hjá Arion banka hf. nemur 1,9% af áhættugrunni og hækkar krafan því um 0,1 prósentu milli ára. Viðbótarkrafan nemur 1,4% af áhættugrunni hjá Íslandsbanka hf. og lækkar hún því um 0,4 prósentur á milli ára. Krafan hjá Kviku banka hf. lækkar um 0,1 prósentu milli ára og nemur 3,5% af áhættugrunni og hjá Landsbankanum hf. er krafan óbreytt milli ára og nemur 2,5% af áhættugrunni.
Nánari upplýsingar má finna í eftirfarandi gagnsæistilkynningum, þ.m.t. upplýsingar um heildarkröfu um eiginfjárgrunn en hún samanstendur af lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn, áðurnefndri viðbótarkröfu um eiginfjárgrunn og samanlagðri kröfu um eiginfjárauka. Að öðru leyti má nálgast upplýsingar um eiginfjárkröfur fyrir fjármálafyrirtæki hér fyrir neðan.