Meginmál

Peningamál 2024/4

Ritið Peningamál 2024/4 var birt á vef Seðlabanka Íslands hinn 20. nóvember 2024. Í Peningamálum gerir Seðlabankinn grein fyrir horfum í efnahags- og peningamálum. Ritið kemur út fjórum sinnum á ári.

Í byrjun maí og byrjun nóvember er þar birt verðbólgu- og þjóðhagsspá ásamt ýtarlegri umfjöllun um þróun og horfur í efnahags- og peningamálum. Í febrúar og ágúst er birt uppfærð verðbólgu- og þjóðhagsspá með styttri umfjöllun um þróun og horfur efnahags- og peningamála. Greiningin og spáin gegnir síðan mikilvægu hlutverki við mótun peningastefnunnar.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5%.

Vefútsending

Vefútsending vegna yfirlýsingar peningastefnunefndar og útgáfu Peningamála

Tengt efni

Í hnotskurn

Hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum hefur þróast í takt við það sem gert var ráð fyrir í ágústspá Peningamála og hagvaxtarhorfur hafa því lítið breyst. Talið er að hagvöxtur aukist smám saman úr 1,4% í ár í 1,7% árið 2026. Sem fyrr vegur kröftugur hagvöxtur í Bandaríkjunum þungt en hagvaxtarhorfur á evrusvæðinu eru áfram tiltölulega daprar. Alþjóðleg verðbólga hefur haldið áfram að minnka. Hún var 2,2% að meðaltali á þriðja fjórðungi þessa árs en líkt og í ágúst er gert ráð fyrir að hún verði komin niður í 2% seint á næsta ári.

Landsframleiðsla hér á landi jókst á ný milli fjórðunga á öðrum fjórðungi þessa árs en vegna mikils samdráttar á fyrsta fjórðungi sem rekja má til neikvæðra áhrifa birgðabreytinga vegna loðnubrests var landsframleiðsla enn 1,9% minni á fyrri helmingi ársins en á sama tíma í fyrra. Það er mikill viðsnúningur í hagvexti sem var 5% í fyrra og um 9% árið áður. Talið er að landsframleiðslan standi í stað milli ára í ár en í ágúst var spáð 0,5% hagvexti. Lakari horfur litast fyrst og fremst af því að samdrátturinn á fyrri hluta ársins reyndist meiri en áður var spáð. Líkt og í ágúst er gert ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér á ný á næsta ári og verði um 2% og um 2½% að meðaltali á seinni hluta spátímans. Eins og í ágúst er hagvöxtur á spátímanum að meginhluta drifinn áfram af innlendri eftirspurn, sérstaklega vexti einkaneyslu

Samkvæmt staðgreiðslugögnum hefur störfum fækkað og atvinnuleysi heldur áfram að þokast upp. Spennan í þjóðarbúinu minnkar því áfram þótt endurskoðun Hagstofunnar á hagvaxtartölum síðasta árs geri það að verkum að meiri framleiðsluspenna mælist nú en áður var talið. Talið er að spennan snúist í slaka undir lok næsta árs sem er aðeins seinna en áður var spáð.

Verðbólga mældist 5,1% í október og hefur því minnkað um tæplega 1 prósentu frá því í ágúst og næstum 3 prósentur frá því í október í fyrra. Verðbólga án húsnæðis hefur minnkað enn meira og undirliggjandi verðbólga þokast áfram niður. Verðbólguvæntingar hafa að sama skapi lækkað á flesta mælikvarða. Verðbólga var heldur minni á þriðja fjórðungi þessa árs en spáð var í ágúst og hagstæðari upphafsstaða gerir það að verkum að verðbólguhorfur út næsta ár hafa batnað. Við bætast áhrif heldur hærra gengis krónunnar en á móti vegur meiri spenna í þjóðarbúinu. Verðbólguhorfur á seinni hluta spátímans eru því svipaðar og í ágúst. Spáð er að verðbólga fari undir 3% á fyrri hluta árs 2026 og verði komin í markmið um mitt það ár.

Hætta á harðri lendingu bandarísks efnahagslífs hefur minnkað en áfram er töluverð óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur. Þar vega þungt áhyggjur af langvinnum stríðsátökum í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs sem hafa stigmagnast. Alþjóðlegt hrávöruverð gæti því hækkað meira en nú er spáð og innfluttur verðbólguþrýstingur hér á landi reynst meiri. Þá gætu áhrif hærra hrávöruverðs og nýlegra launahækkana hér verið vanmetin í spá bankans í ljósi þess að kjölfesta verðbólguvæntinga hefur laskast. Framvinda innlendra efnahagsumsvifa mun einnig lita verðbólguhorfur. Verðbólga gæti t.d. reynst þrálátari en nú er spáð ef heimilin ganga hraðar á þann sparnað sem byggst hefur upp undanfarin ár. Verðbólga gæti hins vegar hjaðnað hraðar t.d. ef umsvif í ferðaþjónustu gefa meira eftir en nú er spáð.

Rammagreinar

Í ritinu Peningamál 2024/4 má finna eftirfarandi sex rammagreinar auk þess sem hægt er að skoða yfirlit yfir áður útgefnar rammagreinar.

RammagreinBls.

Fráviksdæmi og óvissuþættir

50

Efnahagsbati í skugga áfalla undanfarinna ára

57

Breyting á aðferðafræði við útreikning á húsnæðislið vísitölu neysluverðs

63

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025

68

Spár Seðlabankans um efnahagsþróun ársins 2023

73