Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 7,50%.
Vefútsending
Vefútsending vegna yfirlýsingar peningastefnunefndar og útgáfu Peningamála.
Tengt efni
Gögn fyrir myndir í PM 2025/2
Í hnotskurn
Hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum mældist 1,9% á fjórða fjórðungi síðasta árs og hafði ekki verið meiri í um tvö ár. Í febrúarspá Peningamála var talið að hann myndi aukast í ár en nú er talið að hann verði minni en í fyrra og 0,4 prósentum minni en spáð var í febrúar. Þar vega þyngst skaðleg áhrif viðskiptastríðs Bandaríkjanna við önnur ríki á alþjóðaviðskipti og efnahagsumsvif. Hækkun tolla gerir það einnig að verkum að alþjóðlegar verðbólguhorfur versna frá því í febrúar.
Hagvöxtur hér á landi mældist 0,5% í fyrra sem er meira en búist var við í febrúarspá bankans. Einkum má rekja frávikið til endurskoðunar Hagstofu Íslands á hagvexti á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Innlend eftirspurn jókst er leið á árið, m.a. vegna aukinnar fjárfestingar, en á móti vó neikvætt framlag utanríkisviðskipta. Talið er að landsframleiðsla hafi aukist lítillega milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs og að á árinu í heild verði 1% hagvöxtur sem er 0,6 prósentum minni vöxtur en spáð var í febrúar. Lakari horfur skýrast einkum af grunnáhrifum meiri umsvifa í fyrra og neikvæðum áhrifum viðskiptastríðsins en meiri vöxtur einkaneyslu vegur á móti. Eins og í febrúar er spáð að hagvöxtur aukist á næstu tveimur árum en hann verður þó lítillega minni
en þá var gert ráð fyrir.
Vísbendingar eru um að áfram hægi á innlendum vinnumarkaði. Störfum fækkaði lítillega á fyrsta ársfjórðungi og atvinnuleysi þokast áfram upp. Talið er að atvinnuleysi verði 4,7% að meðaltali í ár en taki að minnka á næsta ári. Endurskoðun Hagstofunnar á hagvaxtartölum síðasta árs gerir það að verkum að meiri framleiðsluspenna mælist nú en áður var talið og slaki í þjóðarbúinu myndast seinna en búist var við í febrúar.
Verðbólga minnkaði á fyrsta ársfjórðungi en jókst á ný í apríl og mældist 4,2%. Undirliggjandi verðbólga jókst einnig í 4%. Verðbólguvæntingar eru enn yfir markmiði þótt langtímaverðbólguvæntingar markaðsaðila hafi lækkað í maíkönnuninni í um 3%. Búist er við að verðbólga minnki í 3,8% á þriðja fjórðungi en verði heldur meiri á næstu fjórðungum en talið var í febrúar, einkum vegna lakari upphafsstöðu. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði einnig heldur meiri á næsta ári sem endurspeglar einkum að slakinn í þjóðarbúskapnum verður lítillega minni. Á móti vega þó horfur á heldur hærra gengi krónunnar en gert var ráð fyrir í febrúar. Talið er að áhrif viðskiptastríðsins á verðbólgu verði lítil og spáð er að hún verði komin í markmið í byrjun árs 2027 sem er heldur seinna en talið var í febrúar.
Óvissa um alþjóðleg efnahagsmál hefur aukist verulega í kjölfar viðskiptastríðsins sem hófst fyrr á þessu ári. Grunnspáin gerir ráð fyrir að viðskiptastríðið leiði til þess að fjárfesting og þjónustuútflutningur vaxi hægar og að hagvöxtur verði því heldur minni en ella á þessu og næsta ári. Mikil óvissa er þó um áhrif þess á innlend efnahagsumsvif og áhrifin á heimsbúskapinn gætu orðið enn meiri en nú er gert ráð fyrir ef viðskiptastríðið stigmagnast enn frekar. Áhrifin á verðbólgu hér á landi munu að miklu leyti ráðast af því hvort eftirspurnar- eða framboðsáhrif vegna tollastríðsins vega þyngra. Löskuð kjölfesta verðbólguvæntinga og viðvarandi kostnaðarhækkanir gætu valdið því að áhrifin á verðbólgu verði meiri og þrálátari en grunnspáin gerir ráð fyrir.
Rammagreinar
Í ritinu Peningamál 2025/2 má finna eftirfarandi þrjár rammagreinar auk þess sem hægt er að skoða yfirlit yfir áður útgefnar rammagreinar.
Rammagrein | Bls. |
---|---|
Fráviksdæmi og óvissuþættir | 50 |
Alþjóðlegt viðskiptastríð og áhrif þess á heimsbúskapinn | 58 |
Hvað skýrir minnkandi áreiðanleika bráðabirgðatalna þjóðhagsreikninga síðustu ár? | 67 |
Spár Seðlabankans um efnahagsþróun PM 2025/2 | 72 |