Vísbendingar eru um að áfram hægi á innlendum vinnumarkaði. Störfum fækkaði lítillega á fyrsta ársfjórðungi og atvinnuleysi þokast áfram upp. Talið er að atvinnuleysi verði 4,7% að meðaltali í ár en taki að minnka á næsta ári. Endurskoðun Hagstofunnar á hagvaxtartölum síðasta árs gerir það að verkum að meiri framleiðsluspenna mælist nú en áður var talið og slaki í þjóðarbúinu myndast seinna en búist var við í febrúar.
Verðbólga minnkaði á fyrsta ársfjórðungi en jókst á ný í apríl og mældist 4,2%. Undirliggjandi verðbólga jókst einnig í 4%. Verðbólguvæntingar eru enn yfir markmiði þótt langtímaverðbólguvæntingar markaðsaðila hafi lækkað í maíkönnuninni í um 3%. Búist er við að verðbólga minnki í 3,8% á þriðja fjórðungi en verði heldur meiri á næstu fjórðungum en talið var í febrúar, einkum vegna lakari upphafsstöðu. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði einnig heldur meiri á næsta ári sem endurspeglar einkum að slakinn í þjóðarbúskapnum verður lítillega minni. Á móti vega þó horfur á heldur hærra gengi krónunnar en gert var ráð fyrir í febrúar. Talið er að áhrif viðskiptastríðsins á verðbólgu verði lítil og spáð er að hún verði komin í markmið í byrjun árs 2027 sem er heldur seinna en talið var í febrúar.
Óvissa um alþjóðleg efnahagsmál hefur aukist verulega í kjölfar viðskiptastríðsins sem hófst fyrr á þessu ári. Grunnspáin gerir ráð fyrir að viðskiptastríðið leiði til þess að fjárfesting og þjónustuútflutningur vaxi hægar og að hagvöxtur verði því heldur minni en ella á þessu og næsta ári. Mikil óvissa er þó um áhrif þess á innlend efnahagsumsvif og áhrifin á heimsbúskapinn gætu orðið enn meiri en nú er gert ráð fyrir ef viðskiptastríðið stigmagnast enn frekar. Áhrifin á verðbólgu hér á landi munu að miklu leyti ráðast af því hvort eftirspurnar- eða framboðsáhrif vegna tollastríðsins vega þyngra. Löskuð kjölfesta verðbólguvæntinga og viðvarandi kostnaðarhækkanir gætu valdið því að áhrifin á verðbólgu verði meiri og þrálátari en grunnspáin gerir ráð fyrir.
Greinin birtist fyrst í Peningamálum 2025/2: