Hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum hafa heldur batnað frá því í maíspá Peningamála. Hagvöxtur var lítillega meiri á fyrsta ársfjórðungi en gert var ráð fyrir í maí og mældist ríflega 1,8% að meðaltali. Einnig er búist við meiri hagvexti á öðrum fjórðungi. Áfram er þó talið að hann gefi eftir er líður á árið vegna áhrifa viðskiptastríðsins og áframhaldandi óvissu um alþjóðaviðskipti. Alþjóðlegar verðbólguhorfur eru jafnframt heldur betri þótt áfram sé talið að verðbólga aukist á næstunni vegna áhrifa viðskiptadeilunnar, einkum í Bandaríkjunum. Seðlabankar helstu iðnríkja hafa áfram lækkað vexti í takt við minni verðbólgu og verri efnahagshorfur.
Samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofu Íslands dróst landsframleiðsla hér á landi saman um 0,7% í fyrra en fyrri tölur Hagstofunnar höfðu bent til 0,5% hagvaxtar. Þessi breyting á nokkurn hlut í því að hagvöxtur reyndist meiri á fyrsta ársfjórðungi en gert hafði verið ráð fyrir í maí. Vísbendingar eru um áframhaldandi ágætan hagvöxt á öðrum fjórðungi ársins og að hann verði nokkru meiri í ár en spáð var í maí eða 2,3% í stað 1%. Skýrist frávikið einkum af grunnáhrifum minni umsvifa í fyrra og auknum vexti í innlendri eftirspurn þar sem aukinn vöxtur fjármunamyndunar miðað við það sem áður var talið vegur þyngst. Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa hins vegar lítið breyst.
Vísbendingar af vinnumarkaði gefa til kynna að áfram hafi dregið úr spennu á öðrum ársfjórðungi. Atvinnuleysi hefur hins vegar lítið breyst undanfarið og er talið að það verði að meðaltali 4,4% á þessu ári en taki að minnka á næsta ári. Lausum störfum fækkar áfram og hægt hefur á fólksfjölgun. Spennan í þjóðarbúinu heldur því áfram að minnka en lítillega hægar en spáð var í maí.
Verðbólga var að meðaltali 4% á öðrum ársfjórðungi en í maí var spáð að hún yrði 3,9%. Hún mældist 4% í júlí og hafði hjaðnað frá júnímánuði. Undirliggjandi verðbólga mældist 3,9% og hefur líkt og mæld verðbólga lítið breyst undanfarið. Verðbólguvæntingar eru að sama skapi nær óbreyttar. Gert er ráð fyrir að verðbólga aukist á ný eins og spáð var í maí og verði 4,5% á síðasta fjórðungi þessa árs sem er heldur meira en þá var gert ráð fyrir en það skýrist einkum af lakari upphafsstöðu. Verðbólga verður því heldur meiri á fyrri hluta spátímans en gert var ráð fyrir í maí. Áfram er þó búist við að hún verði 3% í lok næsta árs og verði komin í markmið á fyrri hluta árs 2027.
Þótt óvissa um alþjóðaviðskipti og efnahagsumsvif hafi heldur minnkað síðan í maí er hún enn mikil og mun efnahagsframvindan einkum ráðast af umfangi og útfærslu tollahækkana stjórnvalda í Bandaríkjunum sem hafa reynst óútreiknanlegar. Hér á landi hefur óvissa hins vegar aukist um áhrifin af völdum nýrra tolla á útflutning íslenskra afurða til Bandaríkjanna og mögulegra verndartolla Evrópusambandsins á innflutning járnblendis og kísiljárns til sambandsins. Þá ríkir enn óvissa um framvindu og áhrif stríðsátaka í heiminum. Vaxandi áhyggjur eru af því hversu hægt verðbólga hér á landi hefur hjaðnað undanfarin misseri og ljóst að löskuð kjölfesta verðbólguvæntinga hefur gert erfiðara viðfangs en ella að ná tökum á verðbólgu.
Greinin birtist fyrst í Peningamálum 2025/3.