Fara beint í Meginmál

Rannsóknarritgerð um íbúðamarkaðinn og notkun verðmatslíkans við mótun þjóðhagsvarúðarstefnu 30. júní 2025

Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerðina „A Hedonic Housing Model for Macroprudential Policy“ eftir Önund Pál Ragnarsson, hagfræðing á sviði fjármálastöðugleika.

Í ritgerðinni er ítarlegt gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem inniheldur kaupsamninga og leigusamninga auk upplýsinga úr fasteignaskrá og fasteignamatsgrunni, tekið til skoðunar. Birt er lýsandi tölfræði um eiginleika húsnæðis á kaup- og sölumarkaði annars vegar og á leigumarkaði hins vegar og hvernig þeir eiginleikar hafa þróast yfir tíma. Verðmatslíkan fyrir íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu er sett fram og metið. Helstu niðurstöður eru: (1) Á árunum 2011-2022 var gæðamunur á íbúðum sem gengu kaupum og sölum annars vegar og íbúðum sem voru leigðar út hins vegar.  Keyptar og seldar íbúðir voru að jafnaði 8,8% gæðameiri en leigðar íbúðir. Þetta gefur til kynna bjaga í ógæðaleiðréttu hlutfalli verðs á móti leigu. Ólík þróun eiginleika húsnæðis á kaup- og sölumarkaði annars vegar og leigumarkaði hins vegar yfir tímabilið gefur jafnframt til kynna að sá bjagi sé breytilegur yfir tíma. (2) Uppsafnaður munur á þróun ógæðaleiðréttrar vísitölu raunverðs fyrir fjölbýlismarkað höfuðborgarsvæðisins og gæðaleiðréttrar vísitölu frá 2007 til 2024 er 3,7%. (3) Metið verðálag íbúða í nýbyggingum og þróun þess yfir tíma veitir innsýn í markaðsaðstæður hverju sinni og getur stutt við greiningu á bólumyndun á markaðnum. (4) Gæðaleiðrétt hlutfall íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu á móti byggingarkostnaði hreyfist með ólíkum hætti til skemmri tíma, samanborið við ógæðaleiðrétt hlutfall.

Sjá ritið hér: