Meginmál

Sátt fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Fossa fjárfestingarbanka hf.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur haft til meðferðar mál er varðar meint brot Fossa fjárfestingarbanka hf. gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og þágildandi lögum nr. 64/2019 um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna (sbr. nú lög nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna).

Frummat fjármálaeftirlitsins var sent til Fossa fjárfestingarbanka 31. júlí 2024. Með bréfi dags. 21. ágúst 2024 lýsti félagið yfir vilja til að ljúka málinu með sátt við fjármálaeftirlitið. Á fundi fjármálaeftirlitsnefndar 31. mars síðastliðinn var málið talið að fullu upplýst og forsendur til að ljúka því með sátt við félagið. Í samræmi við það og á grundvelli fyrirliggjandi gagna tók fjármálaeftirlitsnefnd ákvörðun um að ljúka málinu með samkomulagi um sátt og greiðslu sektar að fjárhæð 22.000.000 kr. til ríkissjóðs ásamt skuldbindingu um úrbætur.

Brot Fossa fjárfestingarbanka varða áhættumat félagsins á starfsemi vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka, áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum, framkvæmd áreiðanleikakannana, framkvæmd aukinna áreiðanleikakannana og reglubundið eftirlit með viðskiptum og viðskiptamönnum og eftirlit með aðilum á þvingunarlistum.

Háttsemi félagsins felur í sér brot á mikilvægum ákvæðum laga nr. 140/2018 og þágildandi lögum nr. 64/2019 (sbr. nú lög nr. 68/2023). Um var að ræða mörg brot gegn grundvallarþáttum í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Umfang brota félagsins sem lúta að viðskiptamönnum og vörum sem teljast til hárrar áhættu með tilliti til peningaþvættis, s.s. áhættumeiri viðskiptamenn, einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, áhættumeiri greiðslur og aðilar á þvingunarlistum, var töluvert.

Í sáttinni, sem birt er í heild sinni, er málsatvikum og niðurstöðum fjármálaeftirlitsins á brotum Fossa fjárfestingarbanka lýst í samræmi við 9. gr. a laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með undirritun sáttarinnar hefur félagið gengist við því að hafa gerst brotlegt  við nánar tiltekin ákvæði laga og ber að framkvæma úrbætur innan 16 vikna frá undirritun sáttar.