Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur haft til meðferðar mál sem varða brot Fossa fjárfestingarbanka hf. gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga í tengslum við söluferli á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. sem fór fram hinn 22. mars 2022.
Með tölvupósti dags. 16. október 2024 lýsti félagið yfir vilja til að ljúka málinu með sátt við fjármálaeftirlitið. Hinn 30. júlí 2025 taldi fjármálaeftirlitsnefnd málið að fullu upplýst og forsendur til að ljúka málinu með sátt við félagið. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna tók fjármálaeftirlitsnefnd ákvörðun um að ljúka málinu með sátt og greiðslu sektar að fjárhæð 9.500.000 króna til ríkissjóðs.
Brot félagsins varða skráningu og varðveislu gagna, flokkun viðskiptavina og meginreglur um viðskiptahætti. Háttsemi félagsins fól í sér brot gegn mikilvægum ákvæðum laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Í sáttinni, sem birt er í heild sinni, er málsatvikum og niðurstöðum fjármálaeftirlitsins á brotunum lýst í samræmi við 9. gr. a laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með undirritun sáttarinnar hefur félagið gengist við því að hafa gerst brotlegt við nánar tiltekin ákvæði laga og fellst á að framkvæma fullnægjandi úrbætur.