Fara beint í Meginmál

Seðlabanki Íslands birtir reiknaða vexti út frá ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa 7. nóvember 2025

Seðlabanki Íslands hefur haft til skoðunar um nokkurt skeið að reikna og birta vexti byggða á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Á grundvelli þeirrar vinnu hefur Seðlabankinn ákveðið að hefja birtingu á föstum lánstímavöxtum frá og með deginum í dag. Seðlabankinn mun framvegis birta vextina alla viðskiptadaga fyrir kl. 11:00.

Fastir lánstímavextir sýna reiknaða vexti verðtryggðra og óverðtryggðra íslenskra ríkisskuldabréfa miðað við fastan lánstíma til 3, 5 og 10 ára. Tvenns konar fastir lánstímavextir verða birtir á ársgrundvelli:

  1. Par-vextir sem sýna á hverjum degi hvaða vexti og ávöxtunarkröfu ný vaxtagreiðslubréf ríkissjóðs til 3, 5 og 10 ára myndu bera ef þau væru gefin út þann daginn á pari, þ.e. á verðinu 100. Þessir vextir sýna í raun hvaða fjármögnunarkostnaði ríkissjóður stendur frammi fyrir til valinna lokagjalddaga á hverjum degi, og nefnast einnig fastir lánstímavextir ríkisskuldabréfa. Á ensku er þetta þekkt sem „Constant Maturity Treasury (CMT)“.
  2. Eingreiðsluvextir sem sýna hver ávöxtunarkrafa nýrra ríkisskuldabréfa með engar vaxtagreiðslur væri ef þau væru gefin út þann daginn til fasts lánstíma til 3, 5 og 10 ára. Unnt er að nota þessa vexti m.a. til að núvirða framtíðargreiðsluflæði.

Ofangreindir vextir eru ekki vextir eiginlegra útgefinna ríkisskuldabréfa heldur sýna þeir reiknaða vexti ríkisskuldabréfa, þ.e. vaxtagreiðslubréfa annars vegar og eingreiðslubréfa hins vegar, miðað við ákveðinn fastan lánstíma, byggða á útgefnum íslenskum ríkisskuldabréfum sem skráð eru í Kauphöllinni (Nasdaq Iceland). Opinber birting þessara vaxta kann m.a. að nýtast aðilum á fjármálamarkaði, greiningaraðilum og ríkissjóði og stuðlar á hlutlausan og staðlaðan hátt að gagnsæi, ásamt betri samanburði og verðlagningu íslenskra fjármálaafurða.

Ýmsar leiðir eru færar til að reikna fasta lánstímavexti þar sem byggja þarf á brúun milli ávöxtunarkröfu útgefinna skuldabréfa sem eru með óreglulega lokagjalddaga. Hér er notast við nýja aðferðafræði en hún er sambærileg útreikningum á sams konar vöxtum sem birtir eru erlendis. Nánari upplýsingar um fasta lánstímavexti og forsendur útreiknings vaxtanna má finna á vefsíðu Seðlabankans á eftirfarandi vefsvæði undir fastir lánstímavextir: Vextir

Gögn um vextina nokkur ár aftur í tímann verða birt fljótlega.

Fyrirspurnir má senda á netfangið fjolmidlar@sedlabanki.is.

Frétt nr. 16/2025
7. nóvember 2025