Seðlabanki Íslands dregur úr reglubundnum gjaldeyriskaupum 14. nóvember 2025
Seðlabanki Íslands hóf reglubundin gjaldeyriskaup á millibankamarkaði hinn 15. apríl sl. fyrir samtals 6 milljónir evra á viku. Kaupin voru aukin í 12 milljónir evra á viku með tilkynningu 12. júní. Seðlabankinn hefur nú ákveðið að minnka kaupin í 6 milljónir evra í hverri viku frá og með 17. nóvember. Meginmarkmiðið með gjaldeyriskaupunum er sem fyrr að efla þann hluta gjaldeyrisforða Seðlabankans sem fjármagnaður er innanlands og að mæta gjaldeyrisþörf ríkissjóðs.
Seðlabankinn hefur frá 15. apríl keypt jafnvirði 46 ma.kr. í reglulegum kaupum á millibankamarkaði. Á sama tíma hafa önnur kaup bankans samkvæmt inngripastefnu bankans numið 13 ma.kr. Á tímabilinu hefur bankinn því keypt gjaldeyri fyrir 59 milljarða króna. Á þeim tíma hefur gengi krónunnar lækkað um 0,5%. Gjaldeyrisforðinn telur nú um 970 milljarða króna.
Við mat á æskilegri stærð gjaldeyrisforða horfir Seðlabankinn fyrst og fremst til forðaviðmiðs Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða svokallaðs RAM-hlutfalls.[1] Nánar tiltekið telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að æskilegt sé að hlutfallið sé á bilinu 100-150% miðað við einkenni og stöðu þjóðarbúskaparins. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands mælist nú yfir 120% af forðaviðmiði sjóðsins en bankinn hefur stefnt að því að forðinn sé að jafnaði a.m.k. 120% af viðmiðinu.
Í ljósi þess að gjaldeyrisforðinn hefur nú náð viðmiði Seðlabankans um æskilega forðastærð hefur bankinn því ákveðið að draga úr reglulegum gjaldeyriskaupum. Kaupin munu líkt og áður fara fram skömmu eftir opnun markaðarins á þriðjudögum og fimmtudögum.
Seðlabankinn mun eftir sem áður framfylgja gjaldeyrisinngripastefnu sinni til þess að draga úr skammtímasveiflum í gengi krónunnar eins og hann telur tilefni til.
Frétt nr. 17/2025
14. nóvember 2025
[1] RAM er mælikvarði á nægjanlega forðastærð og skilgreind sem:
RAM = 5%*útflutningur+ 5%*peningamagn (M3) + 30%*skammtímaskuldir + 15%*langtímaskuldir (án skulda sem tengjast beinni erlendri fjárfestingu).