Seðlabanki Íslands er í hópi 128 fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga sem hljóta jafnvægisvogina í ár, en jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Verðlaunin í ár eru veitt fyrir að ná því markmiði að jöfn kynjahlutföll eru í framkvæmdastjórn eða efsta lagi stjórnunar.
Jafnvægisvogin var veitt við sérstaka viðurkenningarathöfn sem haldin var í Háskóla Íslands í lok síðustu viku. Í erindi verkefnisstjóra vogarinnar við þetta tækifæri kom fram að þrátt fyrir góðan árangur margra fyrirtækja og stofnana á þessu sviði sé enn langt í lang með að fullu jafnrétti kynjanna verði náð. Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum árum hlotið ýmsa viðurkenningu á þessu sviði, meðal annars varðandi vinnu við að jafna kjör kynjanna.
Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Íris Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sviðs mannauðs og menningar í Seðlabanka Íslands gróðursetti grenitré í Jafnréttislundi í Vífilsstaðahlíð í Heiðmörk af þessu tilefni.