Meginmál

Sérrit nr. 17: Seðlabankarafeyrir

Seðlabanki Íslands hefur birt umræðuskýrslu um seðlabankarafeyri (e. central bank digital currency). Seðlabankarafeyrir er rafræn útgáfa seðlabanka á gjaldmiðli viðkomandi ríkis en á undanförnum árum hefur áhugi á útgáfu seðlabankarafeyris aukist mikið um allan heim. Seðlabankarafeyrir sem gefinn yrði út af Seðlabanka Íslands hefur fengið vinnuheitið rafkróna.

Vinna innan Seðlabanka Íslands í tengslum við hugsanlega útgáfu seðlabankarafeyris hefur hingað til einkum beinst að því að afla þekkingar á viðfangsefninu, fylgjast með og kortleggja tilraunir annarra seðlabanka og alþjóðastofnana. Er sú vinna mikilvægur þáttur í því að undirbúa ákvörðun um útgáfu seðlabankarafeyris hér á landi og hvernig skuli standa að henni ef af yrði. Undirbúningurinn felst jafnframt í því að eiga samtal um kosti og galla útgáfu við stjórnvöld, hagaðila og almenning.

Seðlabankinn hefur enn ekki tekið formlega afstöðu til útgáfu seðlabankarafeyris og ekki eru heldur gerðar tillögur um útgáfu í umræðuskýrslunni. Í skýrslunni eru ýmis álitamál sem tengjast mögulegri útgáfu hins vegar reifuð og fjallað um alþjóðlega þróun.

Umræðuskýrslunni er ætlað að miðla þekkingu á málinu, undirbúa samtal bankans við hagsmunaaðila og almenning og stuðla að almennri umræðu um kosti þess og galla að gefa út rafkrónu hér á landi. Í umræðukafla skýrslunnar eru settar fram spurningar sem beint er til þeirra sem vilja láta sig málið varða, t.d. um hver markmið útgáfunnar skuli helst vera, hvort rafkróna skuli bera vexti og um ýmsa aðra tæknilega og hagræna eiginleika rafkrónu sem taka þarf til greina. Svörin sem berast verða notuð til að byggja undir stefnumörkun Seðlabankans.

Formáli

Haustið 2018 gaf Seðlabanki Íslands út Sérrit nr. 12: Rafkróna? Í formála ritsins segir seðlabankastjóri því ætlað að „ ... upplýsa um þá umræðu sem fram fer erlendis um rafrænt reiðufé [þ.e. seðlabankarafeyri] og skapa umræðu um þau fjölmörgu álitaefni sem tengjast mögulegri rafkrónu. Engar tillögur eru gerðar í ritinu um að innleiða hana og því síður hafa einhverjar ákvarðanir verið teknar um þetta.“ Seðlabankinn hefur enn ekki tekið formlega afstöðu til útgáfu seðlabankarafeyris. Í þessari umræðuskýrslu eru ekki heldur gerðar tillögur um útgáfu seðlabankarafeyris en ýmis álitamál er tengjast mögulegri útgáfu eru reifuð nánar og greint frá alþjóðlegri þróun. Endanleg ákvörðun um útgáfu verður ekki tekin nema með aðkomu stjórnvalda og að undangengnu samtali við helstu hagsmunaaðila og almenning.

Frá því skýrsla Seðlabankans kom út árið 2018 hefur alþjóðleg umræða um seðlabankarafeyri þróast umtalsvert og rannsóknar- og þróunarstarfi seðlabanka, fræðafólks og alþjóðastofnana á sviði seðlabankarafeyris hefur vaxið fiskur um hrygg.

Stjórnvöld og seðlabankar í Evrópu og víða um heim setja nú sífellt meiri þunga í rannsóknar- og þróunarstarf vegna seðlabankarafeyris og unnið er að fjölmörgum alþjóðlegum samstarfsverkefnum á sviði greiðslumiðlunar yfir landamæri, einkum á vegum þróunarseturs Alþjóðagreiðslubankans, þar sem gerðar eru tilraunir með notkun seðlabankarafeyris í alþjóðlegri greiðslumiðlun. Seðlabankinn fylgist grannt með þessari þróun og mun meta reglulega mögulegan ávinning þess að taka upp seðlabankarafeyri.

Vinna innan Seðlabanka Íslands í tengslum við hugsanlega útgáfu seðlabankarafeyris hefur hingað til einkum lotið að því að afla þekkingar á viðfangsefninu, fylgjast með og kortleggja tilraunir annarra seðlabanka og alþjóðastofnana. Það er mikilvægur þáttur í því að undirbúa ákvörðun um útgáfu seðlabankarafeyris hér á landi og hvernig skuli standa að henni, enda ólíklegt að Seðlabankinn verði leiðandi á þessu sviði. Hluti undirbúningsins felst í því að eiga samtal við stjórnvöld, hagaðila og almenning. Umræðuskýrslu þessari er ætlað að miðla þekkingu um málefnið og undirbúa þannig samtal bankans við hagsmunaaðila og almenning og stuðla að almennri umræðu um kosti þess og galla að gefa út seðlabankarafeyri hér á landi.

Ákvörðun um útgáfu seðlabankarafeyris verður aðeins tekin að undangenginni stefnumótunarvinnu um markmið útgáfunnar, þ.e. skýrri sýn á hvernig hún geti þjónað þeim markmiðum sem Seðlabankanum er falið að vinna að. Markmið útgáfunnar þurfa að liggja fyrir áður en farið er að útfæra tæknilega og hagræna eiginleika seðlabankarafeyris. Þá þarf að haga útgáfunni þannig að hún hafi ekki óæskileg áhrif á peningastefnuna, fjármálakerfið eða fjármálastöðugleika. Umræðuskýrslan fjallar aðeins lauslega um ýmsa þætti sem taka þarf afstöðu til við útgáfu seðlabankarafeyris en ítarlegri greining á einstökum þáttum mun fara fram eftir því sem tilefni verður til.