Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands skráði Barböru ehf. sem rekstraraðila sérhæfðra sjóða hinn 15. ágúst 2025, sbr. 7. gr. laga nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Í skráningunni felst heimild rekstraraðila til að reka sérhæfða sjóði að því gefnu að verðmæti heildareigna í rekstri aðila fari ekki umfram þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/2020.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands afgreiddi jafnframt afskráningarbeiðni Spaks Finance sf. þar sem enginn sjóður um sameiginlega fjárfestingu er í rekstri félagsins. Afskráning Spaks Finance sf. miðast við 15. ágúst 2025.
Samhliða var gerð breyting á rekstraraðila sérhæfða sjóðsins Spaks Invest hf., en sjóðurinn hefur verið í rekstri Spaks Finance sf. en verður framvegis í rekstri Barböru ehf.