Meginmál

Útlánakönnun Seðlabanka Íslands

28. apríl 2025

Útlánakönnun Seðlabanka Íslands

Seðlabankinn framkvæmir ársfjórðungslega útlánakönnun á meðal viðskiptabankanna fjögurra. Spurt er um mat þeirra á þróun framboðs og eftirspurnar eftir lánsfé og auk þess hvaða þætti þeir telji að hafi haft ráðandi áhrif á framboð á síðustu þremur mánuðum. Einnig er spurt um væntingar viðskiptabankanna um horfur næstu sex mánuði. Könnunin var síðast framkvæmd 1. til 14. apríl sl. og eru niðurstöðurnar hér byggðar á meðaltali svara viðskiptabankanna.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að framboð viðskiptabankanna á lánum til heimila hafi verið óbreytt á síðustu þremur mánuðum en gert er ráð fyrir að framboð húsnæðislána aukist lítillega næstu sex mánuði. [1] Bankarnir greindu lítils háttar samdrátt í eftirspurn heimila eftir íbúðalánum á síðustu þremur mánuðum en gera ráð fyrir að hún aukist lítillega á næstu sex mánuðum.

Samkvæmt svörum viðskiptabankanna hafa útlánareglur á lánum til heimila verið óbreyttar á síðustu þremur mánuðum og er gert ráð fyrir að þær verði áfram óbreyttar næstu sex mánuði. Bankarnir telja að samkeppni um útlán til heimila við aðra aðila á lánamarkaði muni aukast á næstu sex mánuðum.

Vextir á verðtryggðum útlánum til heimila hafa hækkað lítillega á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum bankanna. Bankarnir gera ráð fyrir að vextir verðtryggðra lána til heimila lækki á næstu sex mánuðum vegna lægri fjármögnunarkostnaður en að vaxtaálag þeirra lána aukist á sama tíma. Vextir á óverðtryggðum útlánum til heimila hafa lækkað á síðustu þremur mánuðum samkvæmt könnuninni og gera allir þátttakendur ráð fyrir áframhaldandi lækkun á næstu sex mánuðum. Helstu áhrifaþættir eru lækkun meginvaxta Seðlabankans og lægri fjármögnunarkostnaður bankanna en einnig er gert ráð fyrir að regluverk hafi áhrif til lækkunar á næstu sex mánuðum.

Bankarnir greina frá því að framboð lánsfjár til fyrirtækja hafi aukist lítillega á síðustu þremur mánuðum og gera þeir ráð fyrir áframhaldandi aukningu framboðs útlána á næstu sex mánuðum. Lánsfjáreftirspurn minni fyrirtækja var óbreytt á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum bankanna. Eftirspurn stærri fyrirtækja eftir skammtímalánum minnkaði en eftirspurn eftir lánum í erlendum gjaldmiðlum jókst. Bankarnir búast áfram við aukinni eftirspurn stærri fyrirtækja eftir lánum í erlendum gjaldmiðlum en annars óbreyttri lánsfjáreftirspurn fyrirtækja á næstu sex mánuðum.

Reglur bankanna um lánveitingar til fyrirtækja voru óbreyttar á síðustu þremur mánuðum samkvæmt könnuninni og er ekki gert ráð fyrir breytingum á næstu sex mánuðum. Þá vænta bankarnir þess að samkeppni um fyrirtækjaútlán aukist milli banka, við aðra aðila á lánamarkaði og vegna markaðsfjármögnunar á næstu sex mánuðum.

Vextir á verðtryggðum útlánum til stærri fyrirtækja hafa lækkað lítillega á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum bankanna og eru helstu áhrifaþættir sagðir vera lækkun meginvaxta. Vextir á verðtryggðum útlánum til minni fyrirtækja hafa hins vegar verið óbreyttir á sama tíma. Bankarnir gera ráð fyrir því að vextir á verðtryggðum útlánum til minni og stærri fyrirtækja lækki lítillega á næstu sex mánuðum vegna lægri meginvaxta og fjármögnunarkostnaðar bankanna en regluverk vegur þó á móti til hækkunar. Vextir á óverðtryggðum útlánum til minni og stærri fyrirtækja hafa lækkað á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum bankanna, einkum vegna lægri meginvaxta Seðlabankans en einnig vegna fjármögnunarkostnaðar þeirra. Bankarnir gera ráð fyrir svipaðri þróun á næstu sex mánuðum þó að regluverk vegi lítillega á móti til hækkunar. Þá hafa vextir á útlánum í erlendum gjaldmiðlum til minni og stærri fyrirtækja verið óbreyttir á síðustu þremur mánuðum og gera bankarnir ráð fyrir að þeir verði áfram óbreyttir á næstu sex mánuðum.

Sjá nánar: 
Útlánakönnun (sérstök síða fyrir efnið)

[1] Í könnuninni er lánum til heimila skipt upp í húsnæðislán, bílalán og önnur lán. Lánum til fyrirtækja er skipt upp í langtíma- og skammtímalán. Jafnframt er spurt sérstaklega um lán í erlendum gjaldmiðlum bæði fyrir heimili og fyrirtæki.