Seðlabanki Íslands framkvæmir ársfjórðungslega útlánakönnun á meðal viðskiptabankanna fjögurra. Spurt er um mat þeirra á þróun framboðs og eftirspurnar eftir lánsfé og auk þess hvaða þættir þeir telji að hafi haft ráðandi áhrif á framboð á síðustu þremur mánuðum. Einnig er spurt um væntingar viðskiptabankanna um horfur næstu sex mánuði. Könnunin var síðast framkvæmd 1. júlí til 14. ágúst sl. og eru niðurstöðurnar hér byggðar á meðaltali svara viðskiptabankanna.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að framboð viðskiptabankanna á íbúðalánum til heimila hafi aukist á síðustu þremur mánuðum og er gert ráð fyrir að framboðið haldi áfram að aukast lítillega næstu sex mánuði.* Bankarnir greindu lítils háttar aukningu í eftirspurn heimila eftir íbúðalánum og bílalánum á síðustu þremur mánuðum. Gert er ráð fyrir að eftirspurnin aukist áfram lítillega næstu sex mánuði, en að aukningin verði þó minni hvað varðar bílalán.
Útlánareglur á íbúðalánum til heimila hafa verið rýmkaðar á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum viðskiptabankanna. Helsti áhrifaþáttur er sagður vera samkeppni frá öðrum bönkum en einnig samkeppni frá öðrum lánveitendum en bönkum, kostnaður vegna eiginfjárstöðu bankanna og lausafjárstaða þeirra. Bankarnir gera ráð fyrir að útlánareglur þeirra verði óbreyttar á næstu sex mánuðum. Þá er talið að samkeppni um útlán til heimila við aðra banka muni aukast lítillega á næstu sex mánuðum.
Vextir á verðtryggðum og óverðtryggðum útlánum til heimila hafa lækkað á síðustu þremur mánuðum og þá hefur vaxtaálag á óverðtryggðum lánum einnig lækkað samkvæmt svörum bankanna. Helstu áhrifaþættir vaxtalækkana eru lækkun meginvaxta Seðlabankans og lægri fjármögnunarkostnaður bankanna, en regluverk hafði einnig áhrif til lækkunar á vöxtum óverðtryggðra lána. Gert er ráð fyrir að vextir og vaxtaálag á óverðtryggðum útlánum haldi áfram að lækka á næstu sex mánuðum samhliða væntingum um lækkun meginvaxta, lægri fjármögnunarkostnað og breyttu regluverki.
Bankarnir greina frá því að framboð lánsfjár til fyrirtækja hafi aukist lítillega á síðustu þremur mánuðum og gera þeir ráð fyrir svipaðri þróun á næstu sex mánuðum. Samkvæmt svörum bankanna hefur eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfjármögnun einnig aukist lítillega á síðustu þremur mánuðum, sér í lagi meðal stærri fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að eftirspurn stærri fyrirtækja aukist einnig lítillega á næstu sex mánuðum á meðan eftirspurn minni fyrirtækja verði óbreytt. Bankarnir greina frá lítilsháttar aukningu í framboði og eftirspurn lána í erlendum gjaldmiðlum, bæði síðustu þrjá mánuði og næstu sex mánuði.
Reglur bankanna um lánveitingar til fyrirtækja voru þrengdar lítillega á síðustu þremur mánuðum samkvæmt könnuninni og er helsti áhrifaþáttur sagður vera kostnaður vegna eiginfjárstöðu bankanna. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á reglum um lánveitingar á næstu sex mánuðum. Þá vænta bankarnir þess að samkeppni um fyrirtækjaútlán eigi eftir að aukast milli banka á næstu sex mánuðum og samkeppni um lán til stærri fyrirtækja eigi einnig eftir að aukast við aðra aðila á lánamarkaði og vegna markaðsfjármögnunar.
Vextir á verðtryggðum og óverðtryggðum útlánum til fyrirtækja hafa lækkað á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum bankanna, þá sér í lagi óverðtryggðir vextir. Helstu áhrifaþættir eru sagðir vera lækkun meginvaxta Seðlabankans, fjármögnunarkostnaður bankanna og regluverk. Ekki er gert ráð fyrir að vextir á verðtryggðum útlánum til fyrirtækja breytist á næstu sex mánuðum þar sem regluverk og samkeppni hafa víxlverkandi áhrif. Þó er talið að vaxtaálag á verðtryggðum útlánum til stærri fyrirtækja aukist lítillega. Bankarnir gera ráð fyrir að óverðtryggðir vextir til fyrirtækja haldi áfram að lækka þar sem lækkunin er talin verða meiri hjá minni fyrirtækjum en þeim stærri. Þó er gert ráð fyrir að vaxtaálag aukist á sama tíma. Helsti áhrifaþáttur vaxtalækkunar eru væntingar um lækkun meginvaxta Seðlabankans en einnig fjármögnunarkostnaður bankanna. Þá hafa vextir á útlánum í erlendum gjaldmiðlum til minni og stærri fyrirtækja verið óbreyttir á síðustu þremur mánuðum samkvæmt svörum bankanna og er gert ráð fyrir því að þeir verði áfram óbreyttir á næstu sex mánuðum en að vaxtaálagið eigið eftir að aukast lítillega.
*Í könnuninni er lánum til heimila skipt upp í húsnæðislán, bílalán og önnur lán. Lánum til fyrirtækja er skipt upp í langtíma- og skammtímalán. Jafnframt er spurt sérstaklega um lán í erlendum gjaldmiðlum bæði fyrir heimili og fyrirtæki.