Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans 2025
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sótti vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengda fundi 21. til 26. apríl 2025 í Washington ásamt Þórarni G. Péturssyni, varaseðlabankastjóra peningastefnu, og öðrum fulltrúum Seðlabankans. Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar Seðlabankans áttu fundi með yfirmönnum og sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og auk þess með fulltrúum fjármálafyrirtækja, matsfyrirtækja, og annarra ríkja.
Í tengslum við vor- og ársfundi sína gefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn út skýrslur um efnahagsmál, fjármálastöðugleika og ríkisfjármál, auk svæðisbundinna úttekta.
Vegna ágreinings, m.a. um orðalag um innrás Rússa í Úkraínu, náðist ekki full samstaða um yfirlýsingu fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. IMFC Communiqué) nú fremur en á fundum nefndarinnar sem haldnir hafa verið frá vori 2022. Formaður nefndarinnar, Mohammed Aljadaan, fjármálaráðherra Sádí-Arabíu, gaf því út yfirlýsingu í eigin nafni (e. IMFC Chair’s Statement), eins og á síðustu fundum, og endurspeglar hún afstöðu fulltrúanna í nefndinni til helstu mála sem voru til umfjöllunar á fundinum. Þar kom m.a. fram að almennt væru líkur á hægari hagvexti til skemmri tíma en áður var talið en að draga myndi úr verðbólgu. Horfur einkennast því af veikum hagvexti og miklum opinberum skuldum og útlitið gæti versnað enn frekar. Ýmsar áskoranir og mikilvæg tækifæri eru talin felast í umbreytingum í stafrænni þróun, gervigreind, loftslagsaðlögun og mannfjöldaþróun. Nefndarmenn lýstu ánægju með viðleitni til þess að binda enda á vopnuð átök enda væri friður forsenda stöðugleika og sjálfbærs hagvaxtar.
Helstu stefnumál Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru kynnt í stefnuyfirlýsingu Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra sjóðsins (e. Global Policy Agenda, GPA). Þar kom m.a. fram að við aukna óvissu sé mikilvægt fyrir aðildarlönd að standa vörð um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og styrkja viðnámsþrótt til framtíðar. Seðlabankar þurfi að tryggja litla og stöðuga verðbólgu og sjálfstæði þeirra verði að vera tryggt. Fjármálaeftirlit og reglusetning þurfi að vera styrk og fylgjast þurfi með mögulegum veikleikum í fjármálastofnunum öðrum en bönkum (Non-Bank Financial Institutions, NBFI). Stjórnvöld þurfi að tryggja sjálfbærni ríkisskulda og umbætur sem styðja við hagvöxt.
Ida Wolden Bache, seðlabankastjóri Noregs, var að þessu sinni fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMFC. Í yfirlýsingu Wolden Bache kom m.a. fram að hræringar í alþjóðaviðskiptum valdi mikilli óvissu um stöðu og horfur í alþjóðahagkerfinu og hafi áhrif á þjóðhagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Kjördæmið lagði áherslu á mikilvægi alþjóðlegar samvinnu og þau gildi sem lögð eru til grundvallar í stofnsáttmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Sjá fleiri gögn tengd fundinum á síðu um meðfylgjandi tengil:
Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2025 (ýmislegt efni)
Meðfylgjandi myndir voru teknar af starfsmönnum Seðlabankans á tveimur fundum.