Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,0%. Allir nefndarmenn studdu þessa ákvörðun.
Verðbólga hefur haldið áfram að hjaðna og var 4,6% í janúar. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað og hefur ekki verið minni í þrjú ár. Útlit er fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum.
Hægt hefur á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og spennan í þjóðarbúinu er í rénun. Dregið hefur úr umsvifum á húsnæðismarkaði og hægt á hækkun húsnæðisverðs. Vísbendingar eru þó um að krafturinn í þjóðarbúinu sé meiri en bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga gefa til kynna og áfram mælist nokkur hækkun launakostnaðar.
Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað er enn verðbólguþrýstingur til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist aukin óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Frétt nr. 2/2025
5. febrúar 2025
Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán 9,75%
2. Lán gegn veði til 7 daga 8,75%
3. Innlán bundin í 7 daga 8,00%
4. Viðskiptareikningar 7,75%