Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 7,50%. Allir nefndarmenn studdu þessa ákvörðun.
Verðbólga var 4,1% í september og jókst um 0,3 prósentur frá mánuðinum á undan. Aukningin var fyrirsjáanleg og endurspeglar að töluverðu leyti óhagstæð grunnáhrif.
Greinilegur viðsnúningur hefur orðið í þróun efnahagsumsvifa undanfarið og spennan í þjóðarbúinu hefur hjaðnað í takt við þétt taumhald peningastefnunnar. Seiglan í þjóðarbúskapnum er þó áfram nokkur, launahækkanir mælast töluverðar og þótt verðbólguvæntingar hafi lækkað síðustu misseri mælast þær enn yfir markmiði.
Margt hefur þokast í rétta átt en þær aðstæður hafa ekki enn skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2½% markmiði bankans.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Frétt nr. 14/2025
8. október 2025
Vextir verða því sem hér segir:
Daglán 9,25%
Lán gegn veði til 7 daga 8,25%
Innlán bundin í 7 daga 7,50%
Viðskiptareikningar 7,25%
Sjá nánar: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands