Meginmál

Hvað er peningaþvætti?

Í einföldu máli er talað um að þvætta peninga þegar illa fengið fé er látið líta út fyrir að vera löglega fengið. Tilgangur peningaþvættis er að fela slóð illa fengins fjár til þess að brotamenn geti nýtt þá í einkaneyslu eða fjárfestingar.

Peningaþvætti er skilgreint í lögum með eftirfarandi hætti:

1. Yfirfærsla

Fyrsta skrefið í ferlinu kallast yfirfærsla og felur í sér yfirfærslu hinna óhreinu fjármuna inn í fjármálakerfið. Það getur verið gert beint, s.s. með innlögnum á bankareikninga en einnig með því að nota fyrirtæki sem stunda löglegan rekstur. Þá gefur fyrirtækið út falska reikninga, t.d. fyrir tiltekinni þjónustu sem er aldrei veitt eða vöru sem aldrei er afhent. Í því sambandi má nefna að þegar um er að ræða ólögmætan ávinning, s.s. í fíkniefnaviðskiptum, er greiðslumiðillinn gjarnan reiðufé. Því eru fyrirtæki sem eiga mikil viðskipti með reiðufé gjarnan misnotuð þannig að ólögmætum fjármunum er blandað við aðrar tekjur fyrirtækisins, sem mögulega eru löglega fengnar.

2. Endurröðun

Næsta skref í ferlinu felst í að endurraða fjármununum til þess að aðskilja þá frá ólöglegum uppruna sínum og hylja slóð þeirra. Það er gert á ýmsan hátt, t.d. með flóknum viðskiptum, ítrekuðum millifærslum, innanlands og utan, fjárfestingum og lánum. Tilgangurinn er að gera bönkum og lögreglu erfiðara um vik að rekja slóð hinna ólögmætu fjármuna. Endurröðun er gjarnan framkvæmd í fjölda ríkja, t.d. þar sem reglur um bankaleynd eru strangar auk þess sem margir aðilar geta komið að ferlinu.

3. Hagnýting

Þriðja og síðasta skrefið í ferlinu felst í því að hinir ólögmætu fjármunir hafa verið samþættir öðrum fjármunum sem aflað hefur verið á löglegan hátt. Tilgangur samþættingarinnar er að gera bönkum og lögreglu erfiðara um vik að átta sig á því hvaða fjármunir eru illa fengnir. Þannig geta aðilar nýtt ólögmætu fjármunina, t.d. með því að fjárfesta í fjármálagerningum, bifreiðum eða fasteignum.

Aðgerðir gegn peningaþvætti

Til þess að sporna við peningaþvætti hefur verið sett viðamikil löggjöf sem aðilar sem kunna að vera misnotaðir til peningaþvættis þurfa að hlíta. Löggjöfin kveður á um aðgerðir gegn peningaþvætti og eiga að gera brotamönnum sem hagnast með ólögmætum hætti erfiðara um vik að stunda brotastarfsemi sína.

Höfundur: Helga Rut Eysteinsdóttir, lögfræðingur á sviði lagalegs eftirlits og vettvangsathugana hjá Seðlabanka Íslands.