Fara beint í Meginmál

Fjármálastöðugleiki í hnotskurn

Alþjóðleg pólitísk áhætta hefur aukist og friðarumleitanir vegna stríðsátaka í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs hafa ekki skilað árangri. Þá hafa áhyggjur aukist af sjálfbærni opinberra fjármála í mörgum iðnríkjum. Hækkun langtímavaxta ber þessa skýr merki. Verndarstefna í alþjóðaviðskiptum hefur einnig aukið óvissu. Hætt er við að hún valdi kostnaði og dragi úr efnahagsumsvifum. Þrátt fyrir þetta eru eignir víða hátt verðlagðar á fjármálamörkuðum og áhættuálög lág. Við slíkar aðstæður getur snörp aðlögun haft verulegar afleiðingar á alþjóðamörkuðum og fyrir heimsbúskapinn. Íslenskt efnahagslíf og fjármálakerfi færu ekki varhluta af því.

Viðskiptahalli hefur aukist og spáð er viðvarandi halla næstu árin. Hann stafar aðallega af auknum innflutningi fjárfestingarvara fyrir gagnaver sem fjármagnaður er af erlendum aðilum og orsakar því ekki samsvarandi flæði á gjaldeyrismarkaði. Gengi krónunnar hefur enda hækkað nokkuð undanfarið og þótt sú hækkun hafi að einhverju leyti farið saman við hækkun jafnvægisraungengis getur hátt raungengi skapað áskoranir fyrir útflutningsatvinnuvegi. Á sama tíma er erlend staða þjóðarbúsins sterk og þjóðhagslegur sparnaður yfir sögulegu meðaltali. Ríflegur gjaldeyrisforði dregur úr líkum á að fjármagnshreyfingar til og frá landinu raski fjármálastöðugleika og eykur traust á efnahag landsins. Mikilvægi ríflegs gjaldeyrisforða og traustrar erlendrar eignastöðu hefur aukist í kjölfar aukins óróa á alþjóðlegum mörkuðum og aukinnar pólitískrar óvissu víða um heim.

Heimili og fyrirtæki hér á landi búa yfir mikilli seiglu og hafa tiltölulega auðveldlega staðið af sér þráláta verðbólgu og háa raunvexti síðustu misseri. Lítil skuldsetning einkageirans í sögulegum og alþjóðlegum samanburði og hóflegur skuldavöxtur, ásamt kaupmáttarvexti, eiga þátt í því að vanskil eru lítil. Vaxtabyrði heimila í hlutfalli við ráðstöfunartekjur er svipuð og á árunum fyrir faraldurinn. Hrein eign heimila hefur aukist umfram ráðstöfunartekjur, sem þó hafa vaxið mikið.

Dregið hefur úr hækkun íbúðaverðs síðustu mánuði og hefur það lækkað að raunvirði á milli ára. Misvægi íbúðaverðs og launa og leigu hefur minnkað og frávik raunverðs frá langtímaleitni sömuleiðis. Samhliða þessari þróun hefur velta á íbúðamarkaði verið talsverð. Kaupendum fyrstu fasteignar hefur fjölgað og hlutfall þeirra af heildarfjölda kaupenda verið lítillega yfir meðaltali síðustu tíu ára. Margar nýbyggðar íbúðir eru til sölu og seljast þær hægt um þessar mundir. Verðálag nýbygginga virðist enn nokkuð hátt þrátt fyrir hægari sölu. Fyrstu merki hafa komið fram um að umsvif á byggingarmarkaði kunni að hafa náð hámarki eftir miklar framkvæmdir síðustu ár.

Kerfislega mikilvægir bankar (KMB) standa vel, arðsemi þeirra er góð, grunnrekstur hefur styrkst og kostnaðarhlutföll lækkað. Eigið fé þeirra er talsvert umfram kröfur Seðlabanka Íslands og lausafjárstaða þeirra er traust. Vaxtaálag á erlenda skuldabréfaútgáfu KMB er lágt og njóta þeir greiðs aðgangs að erlendum fjármagnsmörkuðum. Niðurstöður árlegs álagsprófs Seðlabankans gefa til kynna að KMB séu vel í stakk búnir til að mæta áhættu sem gæti raungerst á næstunni.

Vaxandi netógn er m.a. fylgifiskur átaka og aukinnar óvissu í alþjóðastjórnmálum. Mikilvægt er að efla enn frekar viðnámsþrótt fjármálainnviða hér á landi og auka rekstraröryggi til að takmarka áhrif mögulegra alvarlegra atvika á fjármálakerfið.

Fjármálastöðugleikaritið má lesa í heild hér: