Fara beint í Meginmál

Greiðslujöfnuður í hnotskurn

Heimsbúskapurinn hefur á undanförnum árum orðið fyrir röð áfalla, svo sem heimsfaraldrinum, mikilli hækkun orku- og matvælaverðs í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og aukinni pólitískri óvissu. Meðal afleiðinga þessa var mesta verðbólga í þróuðum ríkjum í áratugi og háir vextir. Þá bættust víðtækar tollahækkanir Bandaríkjanna við og aukin óvissa um alþjóðaviðskipti sem hafa haft neikvæð áhrif á væntingar um alþjóðlegan hagvöxt. Þótt skammtímavextir hafi lækkað á ný hafa langtímavextir hækkað, ekki síst vegna áhyggna af stöðu opinberra fjármála margra ríkja.

Gengi krónunnar hefur hækkað þrátt fyrir óróleika á alþjóðlegum mörkuðum og gengisflökt hefur verið hóflegt í alþjóðlegum samanburði. Tollaaðgerðir Bandaríkjastjórnar virðast hafa haft takmörkuð áhrif á gengi krónunnar, enda var Ísland upphaflega sett í lægra tollaþrep en flest viðskiptalönd okkar og meirihluti viðskipta við Bandaríkin hefur verið í formi þjónustuviðskipta. Áhrif aukins viðskiptahalla á gengi krónunnar hafa verið minni en ætla mætti þar sem hallinn skýrist að mestu af fjárfestingum sem fjármagnaðar eru með erlendu fé. Þá var innflæði vegna fjárfestinga erlendra aðila í innlendum skuldabréfum og skráðum hlutabréfum með mesta móti á árinu 2024 en dregið hefur úr því á árinu 2025. Í apríl sl. hóf Seðlabanki Íslands regluleg gjaldeyriskaup á millibankamarkaði til að efla þann hluta gjaldeyrisforðans sem fjármagnaður er innanlands og að mæta gjaldeyrisþörf ríkissjóðs.

Viðskiptahallinn hefur mælst á bilinu 1-2½% af landsframleiðslu (VLF) allt frá árinu 2021. Hann hefur heldur vaxið samhliða aukinni innlendri fjárfestingu og er fjárfestingarhlutfall á Íslandi nú hærra en í flestum helstu viðskiptalöndum. Til viðbótar hefur útflutningur orðið fyrir áhrifum ytri áfalla. Með vexti nýrra greina á borð við lyfjaiðnað og fiskeldi hefur fjölbreytni útflutnings aukist en ferðaþjónusta er þó sú grein sem skapaði mestar útflutningstekjur á árinu 2024. Hækkun raungengis krónunnar, vaxandi launakostnaður og óvissa í alþjóðamálum getur haft neikvæð áhrif á útflutning þegar fram líða stundir.

Hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur sjaldan verið betri en í ár og var jákvæð um 44% af VLF í lok annars ársfjórðungs, studd af miklum erlendum eignum lífeyrissjóða sem nema um 62% af VLF. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 893 ma.kr., eða 19% af VLF, og er rúmur miðað við alþjóðleg viðmið. Þrátt fyrir umrót á alþjóðlegum mörkuðum hafa fjármálaskilyrði innlendra aðila almennt batnað. Vaxtaálag á erlend skuldabréf íslenskra viðskiptabanka hefur lækkað og lánshæfismat þeirra batnað. Áhættuálag á erlendar skuldbindingar ríkissjóðs hefur þróast með áþekkum hætti. Erlendar skuldir þjóðarbúsins námu 98% af VLF og leita þarf aftur til síðustu aldamóta eftir jafn lágri skuldastöðu. Samsetning hennar hefur einnig breyst. Hlutur beinnar erlendrar fjárfestingar hefur aukist á meðan hlutur erlendra lána og skammtímaskulda hefur minnkað.

Í litlu opnu hagkerfi eins og því íslenska er mikilvægt að viðhalda sterkri ytri stöðu til að standast sveiflur í greiðslujöfnuði. Reynslan af farsóttinni sýndi glöggt mikilvægi stórs gjaldeyrisforða og hóflegrar erlendrar skuldsetningar. Í sviðsmynd greiðslujafnaðar sem dregin er upp í þessu riti er gert ráð fyrir að viðskiptahalli við útlönd aukist á þessu ári en taki svo að minnka árið 2026. Gjaldeyrisforðinn er áætlaður um 930 ma.kr. í lok 2025, eða um 118% af viðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (RAM). Búist er við að hann minnki lítillega árið 2026. Hrein erlend staða minnkar lítillega á þessu ári og því næsta, en verður áfram mjög sterk í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Þjóðarbúið er því vel í stakk búið til að mæta óvæntum áföllum. Nokkur óvissa er ávallt um þróun gjaldeyrisflæðis og ytri stöðu þjóðarbúsins og ræðst framvindan að miklu leyti af alþjóðlegri efnahagsþróun og fjármálalegum skilyrðum á hverjum tíma.

Greinin birtist fyrst í ritinu Greiðslujöfnuður.