Alþjóðlegar hagvaxtarhorfur hafa lítið breyst frá því í nóvember en þróunin verið ólík milli landa þar sem hagvöxtur hefur verið mikill í Bandaríkjunum en töluvert minni á evrusvæðinu. Talið er að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum þokist lítillega upp frá því í fyrra og verði að meðaltali 1,7% í ár. Alþjóðlegar verðbólguhorfur eru einnig svipaðar og áður var talið og búist er við að verðbólga minnki áfram. Seðlabankar helstu iðnríkja hafa því haldið áfram að lækka vexti í takt við betri verðbólguhorfur en vextir eru þó enn töluvert hærri en á árunum fyrir farsóttina.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands mældist 1% samdráttur landsframleiðslu á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs. Það er heldur meiri samdráttur en gert var ráð fyrir í nóvemberspánni og skýrist helst af neikvæðara framlagi birgðabreytinga og utanríkisviðskipta. Talið er að landsframleiðsla hafi aukist á ný milli ára á síðasta fjórðungi ársins en að á árinu í heild hafi mælst 0,4% samdráttur. Í nóvember var hins vegar spáð að landsframleiðsla stæði í stað milli ára. Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði heldur minni en áður var talið eða 1,6%. Lakari horfur skýrast einkum af minni vexti einkaneyslu og neikvæðara framlagi utanríkisviðskipta þótt á móti vegi kröftugri fjárfesting. Eins og í nóvember er spáð að hagvöxtur aukist áfram á næstu tveimur árum.
Störfum fjölgar í takt við sögulegt meðaltal og atvinnuleysi hefur aukist hægum skrefum undanfarin misseri. Vísbendingar eru um betra jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli. Grunnspáin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi þokist áfram upp og verði 4,5% að meðaltali í ár samhliða því að slaki myndist í þjóðarbúskapnum um mitt þetta ár sem er heldur fyrr en áður var talið.
Verðbólga minnkaði á fjórða ársfjórðungi og var að meðaltali 4,9% sem var lítillega meira en spáð var í Peningamálum í nóvember. Hún hjaðnaði áfram í janúar og mældist 4,6%. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað og var 4,1% í janúar. Þá hafa verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja lækkað en langtímaverðbólguvæntingar markaðsaðila hækkuðu á ný í janúar frá nóvemberkönnuninni. Búist er við að verðbólga minnki áfram en verði lítillega meiri á næstu fjórðungum en spáð var í nóvember. Verðbólguhorfur á seinni hluta spátímans eru hins vegar svipaðar og í nóvember og áfram er spáð að verðbólga verði komin í markmið um mitt næsta ár.
Töluverð óvissa er um alþjóðlegar efnahagshorfur þar sem stríðsátök og óvissa í alþjóðastjórnmálum vega þungt. Áhyggjur af vaxandi verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum hafa stigmagnast og hætta er á að hagvöxtur í viðskiptalöndum verði minni en spáð er og verðbólga meiri. Hvernig úr spilast mun einnig lita horfurnar hér á landi. Í grunnspánni er gert ráð fyrir samdrætti landsframleiðslu í fyrra auk þess sem horfur um hagvöxt í ár eru ívið lakari en áður var spáð. Efnahagsumsvif gætu þó verið vanmetin ef eldri tölur um útflutning og fjárfestingu verða endurskoðaðar upp á við. Þá er óvissa um hversu hratt verðbólga hjaðnar.
Greinin birtist fyrst í Peningamálum 2025/1.