Seðlabanka Íslands ber lögum samkvæmt að stuðla að fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá skal bankinn sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.
Markmið yfirsýnar Seðlabankans með fjármálainnviðum eru að stuðla að öryggi, virkni og hagkvæmni kjarnainnviða íslensks fjármálakerfis. Með kjarnainnviðum eða kerfislega mikilvægum fjármálainnviðum er átt við innviði sem geta hrundið af stað og/eða breitt út kerfislega röskun til að mynda í greiðslu- eða verðbréfauppgjörskerfum.
Seðlabanki Íslands skal stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Í því samhengi er mikilvægt er að standa vörð um samfellda þjónustu fjármálafyrirtækja og tryggja rekstraröryggi fjármálainnviða eins og kostur er.
Seðlabankinn heldur utan um samstarfsvettvang um rekstraröryggi fjármálainnviða (SURF) og umgjörð um netárásaprófanir fyrir stofnanir og fyrirtæki sem eru mikilvæg fyrir íslenskt fjármálakerfi.
Millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands (MBK) er sjálfstætt kerfi í eigu Seðlabankans. Kerfið skiptist í tvo hluta stórgreiðslukerfi (RTGS) og smágreiðslukerfi (EXP). Stórgreiðslur eru greiðslufyrirmæli að fjárhæð 10 m.kr. eða hærri milli viðskiptavina tveggja fjármálafyrirtækja. Greiðslur milli fjármálafyrirtækja sem eru lægri en 10 m.kr. fara í gegnum smágreiðsluhluta MBK.
Eitt af verkefnum Seðlabankans er að stuðla að framþróun, m.a. á sviði gæða og öryggis á fjármálamarkaði með hvatningu og beinum aðgerðum. Bankinn getur veitt stuðning við nýsköpun og endurnýjun fjármálainnviða og stuðlað að samvinnu, samræmi, og samhæfingu í fjármálakerfinu. Í því skyni hefur Seðlabankinn m.a. komið á fót og rekur samstarfsvettvanga fyrir fjármálakerfið. Má þar t.d. nefna greiðsluráð sem er vettvangur fyrir upplýsingaskipti hagaðila greiðslumiðlunar, reglubókaráð sem annast útgáfu og meðferð reglubóka fyrir fjármálainnviði, framtíðarvettvang sem er vettvangur fyrir nýsköpun og stefnumótun fjármálainnviða og SURF samstarfsvettvang um rekstraröryggi fjármálainnviða.
Seðlabanki Íslands hefur einkarétt á að gefa út seðla og mynt á Íslandi, líkt og seðlabankar í flestum löndum. Lögð er áhersla á trúverðugleika íslenskra peninga, m.a. með ýmsum öryggisþáttum í seðlum. Seðlabankinn tekur saman og birtir upplýsingar um skiptingu seðla og myntar í umferð utan Seðlabanka Íslands.