Meginmál

Seðlabanki Íslands hefur einkarétt á að láta slá og gefa út mynt. Alls eru fimm fjárhæðir myntar í gildi sem lögeyrir á Íslandi.

100 kr.

Sett í umferð árið 1995. Þvermál er 25,5 mm, þykkt 2,25 mm og þyngd 8,5 grömm. Málmblandan er úr gulleitri eirblöndu (70% kopar, 24,5% sink og 5,5% nikkel). Röndin er til skiptis riffluð og slétt. Á framhlið eru landvættir Íslands, stílfærð mynd. Á bakhlið er mynd af hrognkelsi.

50 kr.

Sett í umferð árið 1987. Þvermál 23 mm, þykkt 2,6 mm og þyngd 8,25 grömm. Málmblandan er gulleit eirblanda (70% kopar, 24,5% sink og 5,5% nikkel). Röndin er riffluð. Á framhlið er mynd af landvættum Íslands, stílfærð mynd. Á bakhlið er mynd af bogkrabba.

10 kr.

Sett í umferð árið 1984. Þvermál 27,5 mm, þykkt 1,78 mm og þyngd 8,0 grömm. Málmblandan er úr kopar, 75%, og nikkel, 25%. Röndin er riffluð. Á framhlið er stílfærð mynd af landvættum eins og á öðrum myntum, en á bakhlið er mynd af loðnu. Árið 1996 var sett í umferð 10 króna mynt gerð úr annarri málmblöndu. Málmurinn í henni er nikkelhúðað stál og þyngdin er 6,9 grömm. Gerðin er að öðru leyti eins.

5 kr.

Sett fyrst í umferð árið 1981. Þvermál er 24,5 mm. Þyngdin á þessari mynt er 6,5 grömm. Málmblandan er úr kopar, 75%, og nikkel, 25%. Röndin er riffluð. Á framhliðinni eru vættir landsins, en á bakhlið höfrungar. Árið 1996 var sett í umferð fimm krónu mynt með breyttu málminnihaldi, þ.e. úr nikkelhúðuðu stáli, en hún er einnig léttari, þ.e. 5,6 grömm.

1 kr.

Þessi króna var fyrst sett í umferð árið 1981. Þvermálið er 21,5 mm. Þyngdin var 4,5 grömm. Málmblandan er úr kopar, 75%, og nikkel, 25%. Röndin er riffluð. Á framhliðinni mynd af bergrisa úr landvættamerkinu, en á bakhlið er þorskur. Árið 1989 var sett í umferð einnar krónu mynt með breyttu málminnihaldi, þ.e. úr nikkelhúðuðu stáli, en hún er einnig léttari, þ.e. 4,0 grömm.