Meginmál

Fyrst settur í umferð árið 1986. Í nóvember 2003 setti Seðlabankinn í umferð nýja gerð 5.000 króna seðils. Stærð seðilsins er 70 x 155 mm. Aðallitur er dökkblár á fjöllitum grunni.

Á framhlið er Ragnheiður Jónsdóttir biskupsfrú á Hólum og Gísli Þorláksson biskup ásamt tveimur fyrri konum sínum, Gróu Þorleifsdóttur og Ingibjörgu Benediktsdóttur.

Á bakhlið er Ragnheiður Jónsdóttir ásamt tveimur stúlkum við hannyrðir og til hliðar er fangamark úr sjónabók Ragnheiðar.

Borðar og grunnmynstur á báðum hliðum ásamt útsaumsletri á framhlið er gert eftir altarisklæði úr Laufáskirkju í Þjóðminjasafni.

Blindramerki er þrjú lóðrétt og upphleypt strik á framhlið.

Skoða seðil

Yfirlit yfir öryggisþætti

Öryggisþættir hafa verið til staðar í seðlum í mörg hundruð ár. Einn fyrsti öryggisþátturinn í seðlum var handskrifuð undirskrift, en margir þættir hafa bæst við, svo sem sérunninn pappír, vatnsmerki, öryggisþráður og upphleypt prentun. Síðustu ár hafa seðlabankar sett í umferð nýja seðla með fleiri og fullkomnari öryggisþáttum. Einnig hafa nokkrir seðlabankar uppfært eldri seðla sína í sama tilgangi. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir öryggisþætti fimm þúsund króna seðilsins.

Örletur í tölustöfum

Talan 5000 stendur lárétt með skyggðu letri í bláum lit efst til vinstri á framhlið og er tvítekin á bakhlið seðilsins. Á dökkum flötum í tölustöfunum er örletur sem unnt er að greina með stækkunargleri. Letrið myndar í sífellu skammstöfunina SÍ.

Blindramerki

Á framhlið seðilsins er sérstakt merki, þrjú lóðrétt strik sem eru upphleypt til glöggvunar fyrir blinda og sjónskerta.

Gyllt málmþynna

Stækkað munstur úr grunni seðilsins birtist sem gyllt málmþynna ofarlega á miðri framhlið. Þynnuna er ekki unnt að ljósrita. Nafn Ragnheiðar Jónsdóttur og ártölin 1646–1715 eru prentuð yfir málmþynnuna.

Bjart vatnsmerki

Við hliðina á andlitsmynd Jóns Sigurðssonar er bjart vatnsmerki – talan 5000.

Örletur

Í línu undir andlitsmynd Ragnheiðar Jónsdóttur biskupsfrúar er örletur sem unnt er að greina með stækkunargleri. Letrið myndar í sífellu orðin SEÐLABANKI ÍSLANDS.

Smáletur

Til hægri á framhlið seðilsins er við efri og neðri brún bylgjudregið smáletur í grunni. Letrið myndar í sífellu orðin SEÐLABANKI ÍSLANDS.

Upphleypt prentun

Á báðum hliðum seðilsins er dökkblá upphleypt prentun sem nema má með fingurgómi.

Pappírsgerð

Pappír er úr hrábómull og hefur viðkomu ólíka venjulegum pappír.

Vatnsmerki

Í vatnsmerki er andlitsmynd Jóns Sigurðssonar forseta. Merkið sést vel ef seðli er haldið móti birtu. Myndin sést á báðum hliðum seðilsins.

Öryggisþráður

Öryggisþráður í gljáandi málmlitbrigðum er yfir þveran seðilinn, 1,2 mm á breidd, til skiptis sjáanlegur eða hulinn á framhlið. Sé seðlinum haldið móti ljósi sést þráðurinn óslitinn. Á þræðinum stendur 5000KR.

Númer með rauðu letri á framhlið

Númer seðilsins er prentað í rauðum lit á framhlið. Undir útfjólubláu ljósi verður letrið gult.

Lýsandi reitur

Þegar útfjólubláu ljósi er varpað á framhlið seðilsins birtist ofarlega til hægri lýsandi grænn reitur með tölunni 5000.