Meginmál

Markmið yfirsýnar Seðlabankans með fjármálainnviðum er að styðja við fjármálastöðugleika með því að stuðla að öryggi, virkni og hagkvæmni íslenskra fjármálainnviða. Greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfi eru mikilvægir þættir fjármálakerfisins og því skiptir máli að tryggja virka og örugga starfsemi þeirra. Hlutverk Seðlabankans á sviði greiðslumiðlunar eru margþætt.

Fjármálainnviðir

Með hugtakinu fjármálainnviður er átt við kerfi sem gegnir mikilvægu hlutverki við færslu fjármuna í þeim tilgangi að styðja við viðskipti á markaði, færslu fjármuna milli lánastofnana og uppgjör viðskipta. Vegna þessa mikilvæga hlutverks er oft talað um að fjármálainnviðir séu pípulagnir fjármálamarkaða. Líkt og með aðrar pípulagnir þá skiptir máli að kerfin starfi með fyrirframákveðnum hætti, öryggiskröfur séu ríkar og virkt eftirlit haft með þeim.

Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) og Alþjóðlega verðbréfanefndin (IOSCO) hafa lýst hugtakinu þannig:

Með fjármálainnviðum er átt við marghliða kerfi sem skilgreindir aðilar eru þátttakendur í og notuð eru til greiðslujöfnunar, uppgjörs eða skráningar Settar eru reglur og staðlað verklag sem gildir um alla þátttakendur í hlutaðeigandi innviðum, sameiginlegu tækniumhverfi og viðeigandi sérhæfðri áhættustýringu komið á fót. Fjármálainnviðir veita þátttakendum miðlæga greiðslujöfnunar-, uppgjörs- og skráningarþjónustu (…) sem gerir aukna skilvirkni mögulega og dregur úr kostnaði og áhættu. (…) Fjármálainnviðir geta stuðlað að auknu gagnsæi á ákveðnum mörkuðum. Sumir fjármálainnviðir eru mikilvægir til stuðnings framkvæmdar seðlabanka á peningastefnu og því hlutverki þeirra að stuðla að fjármálastöðugleika. - Principles for Financial Market Infrastructures (bis.org)

Kerfislega mikilvægir fjármálainnviðir

Kerfislega mikilvægir fjármálainnviðir eru einkum greiðslukerfi sem geta hrundið af stað kerfislegri röskun eða breitt hana út. Ófullnægjandi öryggi og skilvirkni í rekstri kerfislega mikilvægra fjármálainnviða getur valdið keðjuverkun milli þátttakenda og markaða. Virk og traust áhættustýring slíkra fjármálainnviða er afar mikilvæg enda geta áföll sem tengjast rekstri þeirra haft veruleg neikvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif. Í nútíma hagkerfum og fjármálamörkuðum þykir því viðeigandi að gera ríkar kröfur til kerfislega mikilvægra fjármálainnviða um fagleg vinnubrögð og rekstrarfyrirkomulag, svo og að fela yfirvöldum að veita slíkum rekstri virkt aðhald með það einkum að markmiði að lágmarka mögulega kerfisáhættu.

Tvö kerfi eru kerfislega mikilvæg á Íslandi. Í fyrsta lagi er það millibankagreiðslukerfi Seðlabankans (MBK) og hins vegar verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq CSD SE. Verðbréfamiðstöðvar, sem eiga og reka verðbréfauppgjörs- og verðbréfaskráningarkerfi eru eftirlitsskyldir aðilar.

Hlutverk yfirsýnar gagnvart kerfislega mikilvægum fjármálainnviðum:

  1. Fylgjast með þróun, virkni og rekstraröryggi kerfislega mikilvægra innviða
  2. Meta öryggi og virkni kerfislega mikilvægra innviða á grundvelli alþjóðlegra staðla.
  3. Ef ástæða þykir til að gera tillögur um breytingar á umgjörð fjármálainnviða  þ.m.t. regluverki.

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveður hvaða eftirlitsskyldir aðilar, innviðir og markaðir skulu teljast kerfislega mikilvægir og þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft árif á fjármálastöðugleika.

Kerfislega mikilvægir fjármálainnviðir njóta almennt viðurkenningar og eru tilkynntir sem slíkir til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í samræmi við ákvæði laga nr. 90/1999, um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum. Á vefsíðu framkvæmdastjórnar ESB er að finna lista yfir alla innviði á Evrópska efnahagssvæðinu sem njóta viðurkenningar samkvæmt tilskipun Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni (the Settlement Finality Directive 98/26/EC), sem innleidd er hér á landi með lögum nr. 90/1999.

Markmiðið er að kerfislega mikilvæg greiðslu- og uppgjörskerfi standist bæði alþjóðlegar og innlendar kröfur. Þær helstu eru kjarnareglur BIS/IOSCO fyrir kerfislega mikilvæg greiðslukerfi, lög og tilskipanir Evrópusambandsins á sviði greiðslumiðlunar og verðbréfauppgjörs, auk íslenskra laga og reglna. Umrædd kerfi skulu vera gagnsæ, skilvirk og örugg og skal uppbygging kerfanna taka mið af því að þeim er ætlað að stuðla að fjármálastöðugleika. Í samræmi við erlendar fyrirmyndir hefur Seðlabanki Íslands mikilvægu hlutverki að gegna við að stuðla að þessu:

  • Mótun stefnu varðandi þróun kerfanna (e. policy-making role)
  • Setningu reglna fyrir kerfin (e. regulatory role)
  • Stuðning við markaðslausnir og frumkvæði á þessu sviði (e. catalyst role)
  • Rekstur stórgreiðslukerfisins sem og uppgjör í jöfnunarkerfinu og verðbréfauppgjörskerfinu (e. operational role)
  • Eftirlit með kerfunum í samræmi við alþjóðlega staðla (e. oversight role)

Kjarnareglur

Seðlabankinn hefur ákveðið að viðmið kjarnareglna greiðslu- og markaðsinnviðanefndar Alþjóðagreiðslubankans (CPMI/BIS) og Alþjóðlegu verðbréfanefndarinnar (IOSCO) skuli lögð til grundvallar við rekstur á og yfirsýn með millibankagreiðslukerfi (MBK) Seðlabankans. Þá skulu leiðbeiningar CPMI/IOSCO um það hvernig efla megi viðnámsþrótt fjármálainnviða gegn netárásum gilda að því er MBK varðar. Með þessu er leitast við að stuðla sem allra frekast að rekstraröryggi MBK og þar með fjármálastöðugleika.

Kjarnareglurnar njóta alþjóðlegrar viðurkenningar sem viðmið um bestu mögulegu framkvæmd á þessu sviði og fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að MBK skuli teljast kerfislega mikilvægur fjármálainnviður. Samkvæmt kjarnareglunum eiga millibanka- og verðbréfauppgjörskerfi að falla í flokk kerfislega mikilvægra fjármálainnviða. Kerfin uppfylla almenn skilyrði um kerfislegt mikilvægi og er þá vísað til íslenskra laga, veltu, færslufjölda, staðgengimöguleika o.fl.

Nánar um kjarnareglur má lesa Principles for Financial Market Infrastructures (PFMI) (bis.org)

Kjarnareglurnar eru metnar af rekstraraðila kerfislega mikilvægs kerfis og yfirsýn fjármálainnviða fer yfir það mat og hlítni millibankakerfanna við þær kjarnareglur sem eiga við hverju sinni. Reglurnar eru samtals 24 en eiga ekki allar við t.d. úttekt á MBK. Hversu vel regla uppfyllir matið hverju sinni getur verið mismunandi og þó uppfylling sé ekki að öllu leyti getur það átt sér eðlilegar ástæður.

Regla getur verið:

  • Uppfyllt að öllu leyti (e. observed)
  • Uppfyllt að meginhluta (e. broadly observed)
  • Uppfyllt að hluta (e. partly observed)
  • Ekki uppfyllt (e. not observed)
  • Á ekki við (e. not applicable)

Millibankagreiðslukerfi - MBK

MBK kerfið er sjálfstætt kerfi í eigu Seðlabankans. Um kerfið gilda reglur nr. 1030 frá 22. október 2020 um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands. Kerfið skiptist í tvo hluta, stórgreiðslukerfi (RTGS) og smágreiðslukerfi (EXP). Stórgreiðslur eru greiðslufyrirmæli að fjárhæð 10 m.kr. eða hærri milli viðskiptavina tveggja fjármálafyrirtækja og í því eru m.a. gerð upp viðskipti Seðlabankans við innlánsstofnanir og viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri. Allt endanlegt uppgjör í íslenskum krónum fer fram í MBK þar með talin peningahluti verðbréfauppgjörs.

Nánari upplýsingar um rekstur greiðslukerfi Seðlabanka Íslands.

Verðbréfauppgjörskerfi

Á Íslandi hafa tvær verðbréfamiðstöðvar leyfi til að starfa sem slíkar, Nasdaq CSD SE sem útibú (NCSDI) á grundvelli starfsleyfis fjármálaeftirlits Lettlands og Verðbréfamiðstöð Íslands hf. (VBM) með leyfi fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Báðar eru verðbréfamiðstöðvarnar einkareknar og Nasdaq í eigu erlendra aðila.

Hlutverk verðbréfamiðstöðva er að annast rafræna útgáfu fjármálagerninga og skráningu eignarréttinda yfir þeim, þ.e. hlutabréfa, skuldabréfa, sjóða, réttinda, áskriftarréttinda og valrétta á verðbréfareikningum og uppgjör á verðbréfaviðskiptum gegn greiðslu. Endanlegt uppgjör verðbréfaviðskipta fer fram í  millibankakerfi (MBK) Seðlabankans.

Nasdaq

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað í desember 2020 að verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq CSD SE teldist vera kerfislega mikilvægur innviður en kerfið nýtur einnig viðurkenningar samkvæmt lögum nr. 90/1999 og hefur verið tilkynnt sem slíkt til ESA og ESMA, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna.

VBM

Verðbréfamiðstöð Íslands (VBM) fékk fyrst starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins árið 2017 sem var endurútgefið árið 2022 vegna tilkomu laga nr. 7/2020. Þrátt fyrir að VBM hafi s.s. haft starfsleyfi í rúm 6 ár þá hefur starfsemi félagsins fram til þessa verið óveruleg.