Meginmál

Fjármálaeftirlitið hefur gefið út leiðbeinandi tilmæli um útvistun hjá eftirlitsskyldum aðilum, sem gilda um alla eftirlitsskylda aðila. Hugtakið útvistun er þar skilgreint sem samningur á milli eftirlitsskylds aðila og þriðja aðila (þjónustuveitenda) um að þjónustuveitandi/útvistunaraðili taki að sér verkefni eða þjónustu sem almennt falla innan verksviðs hins eftirlitsskylda aðila. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA) hefur gefið út viðmiðunarreglur um útvistun (EBA/GL/2019/02), sem ná til lánastofnana, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja. Eins hefur Evrópska vátrygginga- og lífeyrisjóðaeftirlitsstofnunin (EIOPA) sem og Evrópska verðbréfaeftirlitsstofnunin (ESMA) gefið út viðmiðunarreglur um útvistun og skýjaþjónustu (EIOPA-BoS-20-002), (ESMA-50-164-4285). Í þessum viðmiðunarreglum er að finna samsvarandi skilgreiningu á hugtakinu útvistun.

Rétt er að athuga að eftirlitsskyldum aðilum er ekki heimilt að útvista starfsemi sem háð er starfsleyfi frá fjármálaeftirlitinu nema þjónustuveitandi hafi sjálfur sambærilega heimild til að veita þjónustuna eða sinna viðkomandi verkefni.

Eftirlitsskyldur aðili þarf almennt ekki leyfi frá fjármálaeftirlitinu til að útvista starfsemi en þarf að tilkynna eftirlitinu um útvistun, eins og fjallað er um hér síðar. Í sérlögum sem gilda um starfsemi hvers og eins eftirlitsskylds aðila er þó að finna ýmsar takmarkanir á heimildum eftirlitsskyldra aðila til að gera samninga um útvistun á tilteknum verkefnum eða þjónustu, sem aðilar þurfa að kynna sér áður en gerður er samningur um útvistun á þjónustu.

Í lögum nr. 116/2021 um verðbréfasjóði og lögum nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða er að finna ákvæði sem setja skorður við útvistun. Þessum aðilum er þannig ekki heimilt að útvista bæði eignastýringu og áhættustýringu sama sjóðs. Fleiri takmarkanir á útvistun er að finna í umræddum lögum sem aðilar þurfa að kynna sér vel áður en gerður er samningur um útvistun.

Þá er í lögum nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi settar skorður við útvistun á lykilstarfssviðum.

Athuga ber að tilkynna þarf um útvistun til Seðlabankans áður en efnt er til hennar, svo og um breytingar sem verða á fyrirkomulagi útvistunar.

Áður en útvistun hefst þarf að tryggja að uppfylltar séu kröfur í lögum, leiðbeinandi tilmælum og viðmiðunarreglum vegna útvistunarinnar.

Í öllum tilvikum ber stjórn eftirlitsskylda aðilans ábyrgð á verkefnum hvort sem þeim er útvistað eða ekki. Því er brýnt að úthluta tíma og mannauði fyrirtækisins til árvekni og eftirlits með hinu útvistaða verkefni.

Þá þarf að tryggja að útvistun hamli ekki virku eftirliti eða komi í veg fyrir að eftirlitsskyldur aðili starfi með hagsmuni sjóðfélaga og viðskiptavina að leiðarljósi.

Í umsókn um starfsleyfi þarf ávallt að veita upplýsingar um fyrirkomulag útvistunar og leggur fjármálaeftirlitið mat á það hvort fyrirkomulag útvistunar uppfylli kröfur og hvort útvistun kunni að hamla eftirliti o.s.frv. Ábyrgð verkefnanna liggur þó ávallt hjá hinum eftirlitsskylda aðila.

Eftirlitsskyldum aðilum ber að viðhafa skrá yfir þá starfsemi sem er útvistað líkt og kemur fram í ýmsum þeim réttarheimildum og leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út um útvistun hjá eftirlitsskyldum aðilum. Slík skrá þarf að vera uppfærð og yfirfarin jafn oft og tilefni er til.

Tilkynna ber einnig útvistun í ský 30 dögum fyrir fyrirhugaða notkun og skila þarf gátlista um slíka útvistun. Sjá hér í eyðublaðaleit vefsins.