Eitt af hlutverkum Seðlabanka Íslands er að veita almennar leiðbeiningar og lýsa almennri afstöðu stofnunarinnar til túlkunar og fyllingar lagareglna sem gilda um starfsemi eftirlitsskyldra aðila og um fjármálamarkaðinn.
Seðlabankinn gefur út spurningar og svör til að auka gagnsæi um framkvæmd eftirlits og jafnframt veita eftirlitsskyldum aðilum og öðrum sem efnið varðar meira öryggi við beitingu laga og reglna. Svör við fyrirspurnum sem Seðlabankanum berast eru birt hér ef svörin eru talin hafa almenna skírskotun og þannig eiga erindi við fleiri en fyrirspyrjanda. Einnig birtir Seðlabankinn spurningar og svör verði hann þess áskynja að leiðbeininga eða túlkana er þörf um starfsemi eftirlitsskyldra aðila eða um fjármálamarkaðinn.
Þegar um er að ræða löggjöf ESB sem hefur verið innleidd í íslenskan rétt lítur Seðlabankinn til leiðbeininga og túlkana Evrópsku eftirlitsstofnananna (ESAs: EBA, ESMA og EIOPA), þ.e. viðmiðunarreglna (e. guidelines), tilmæla (e. recommendations) álita (e. opinions) og til Q&A sem eru birt á vefsíðum ESAs. Seðlabankinn hyggst ekki fjalla um sömu efnisatriði og fjallað er um í viðmiðunarreglum, tilmælum eða Q&A útgefnum af ESAs nema sérstök þörf verði talin á því að gera inntak þeirra aðgengilegt á íslensku. Spurningar og svör Seðlabankans verða endurskoðuð reglulega.