Meginmál

Megintilgangur markaðsaðgerða Seðlabanka Íslands er að stuðla að miðlun peningastefnunnar, þar með að stöðugu verðlagi og varðveita fjármálastöðugleika.

Tilgangur markaðsaðgerða í þágu peningastefnu er að stýra magni lauss fjár í umferð á hverjum tíma hjá mótaðilum bankans, hafa áhrif á vexti á millibankamarkaði með krónur og stuðla þannig að miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið í því skyni að ná markmiðinu um stöðugt verðlag.

Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd, sbr. 9. gr. Seðlabankalaga.

Tilgangur markaðsaðgerða í fjármálastöðugleikaskyni er að veita mótaðilum aðgang að lausu fé til að bregðast við óvæntri og tímabundinni lausafjárþörf sem haft gæti áhrif á skilvirkni markaða, greiðslumiðlun eða annað sem gæti valdið óstöðugleika.

Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans varðandi fjármálastöðugleika eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd, sbr. 12. gr. Seðlabankalaga.

Reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann

Seðlabankinn setur reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við bankann. Nú eru í gildi reglur nr. 1200/2019, með síðari breytingum. Reglurnar segja meðal annars til um hverjir geta verið mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann, hvers konar viðskipti unnt er að eiga við bankann og hvaða tryggingar Seðlabankinn metur hæfar í lánafyrirgreiðslu bankans. Reglurnar eru endurskoðaðar eftir þörfum.

Mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann

Mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann eru viðskiptabankar og sparisjóðir. Einnig geta útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem starfa hér á landi verið í viðskiptum við bankann. Þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki geti tekið þátt í viðskiptum við Seðlabankann er það undir hverju og einu fyrirtæki komið hvort þau nýta sér það.

Daglán og viðskiptareikningar

Daglán eru lán til næsta viðskiptadags sem ætlað er að tryggja að staða þátttakenda í millibankagreiðslukerfinu (MBK) sé ávallt jákvæð í lok dags. Þau eru veitt gegn tryggingum sem Seðlabankinn metur hæfar, en listi yfir hæfar tryggingar er birtur á heimasíðunni. Vextir daglána eru hærri en í öðrum lánaviðskiptum og mynda þau þak vaxtagangs Seðlabankans og efri mörk vaxta til einnar nætur á millibankamarkaði með krónur.

Viðskiptabankar og sparisjóðir geta átt viðskiptareikning í Seðlabankanum og greiðast viðskiptareikningsvextir á þær innstæður. Upphæð vaxtaberandi fjárhæðar er þó háð ákveðnum takmörkunum sem fram koma í gildandi reglum nr. 1644/2022 um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga við Seðlabanka Íslands.

A-hluta stofnanir í eigu ríkisins mega eiga viðskiptareikning í Seðlabankanum.

Yfirdráttur á reikningum í Seðlabankanum er óheimill.

Vikulegar markaðsaðgerðir

Á miðvikudögum býður Seðlabankinn mótaðilum að taka þátt í markaðsaðgerðum bankans.

Við miðlun peningastefnunnar ráða aðstæður á markaði því hvort Seðlabankinn býður fjármálafyrirtækjum að taka lán hjá bankanum eða að binda krónur á innlánsreikningi í umsaminn tíma. Seðlabankinn hefur þá meginreglu að bjóða ekki útlán og bundin innlán á sama tíma en býður þó upp á sérstakan lausafjárglugga sem opnaður var í janúar 2022 þar sem unnt er að taka 14 daga veðlán í fjármálastöðugleikaskyni. Í undantekningartilvikum getur Seðlabankinn vikið frá þeirri reglu telji hann þörf á.

Lausafjárstaða fjármálafyrirtækja getur breyst mikið milli daga og eru hreyfingar á reikningum ríkissjóðs ein aðalástæða þess. Launagreiðslur um mánaðamót fjölga krónum í umferð og greiðsla skatta og gjalda til ríkissjóðs fækkar krónum sem eru í umferð í bankakerfinu svo dæmi séu tekin.

Stjórntæki

Seðlabankinn getur átt viðskipti við mótaðila í viðskiptum eða á mörkuðum. Mismunandi aðstæður geta kallað á mismunandi viðskipti og notkun mismunandi stjórntækja. Stundum eru einstök stjórntæki í formi viðskipta ekki notuð svo árum skiptir en eru engu að síður til taks ef á þarf að halda.

Á miðvikudögum býður Seðlabankinn upp á bundin innlán til 7 daga. Vextir á innlánunum eru meginvextir Seðlabankans og eru 0,25 prósentum hærri en vextir á viðskiptareikningum. Heimilt er að innleysa bundin innlán innan 7 daga binditímans gegn innlausnargjaldi. Seðlabankinn tilkynnir eftir lokun markaða á þriðjudögum hvaða fjárhæð er í boði næsta dag. Mótaðilar sem vilja taka þátt í útboðinu bjóða í fjárhæð en hámarkstilboð er 60% af heildarfjárhæð. Ef samanlögð tilboð eru hærri en heildarfjárhæð sem er í boði er skorið niður í sama hlutfalli hjá öllum mótaðilum. Bundin innlán til 7 daga hafa verið boðin út vikulega frá því í maí 2014.

Á miðvikudögum stendur mótaðilum Seðlabankans til boða að sækja um veðlán til 14 daga í sérstökum lausafjárglugga á vöxtum sem eru 0,5 prósentum hærri en vextir Seðlabankans á veðlánum til 7 daga, sbr. tilkynningu bankans 14. janúar 2022. Vextir á lánum í lausafjárglugganum eru breytilegir og taka mið af vaxtastigi Seðlabankans hverju sinni. Mótaðilar Seðlabankans geta sótt um lán fyrir allt að 5 ma.kr. hver gegn hæfri tryggingu sbr. veðlista bankans. Mótaðilum er óheimilt að taka lán á sama tíma og þeir eiga bundin innlán í Seðlabankanum. Seðlabankinn hefur boðið upp á 14 daga veðlán vikulega frá því í janúar 2022.

Seðlabankinn leggur bindiskyldu á bindiskylda aðila. Bindiskyldir aðilar eru aðallega innlánsstofnanir. Bindiskyldan reiknast sem hlutfall af bindigrunni og samanstendur af innstæðum og eigin skuldabréfaútgáfu með eftirstöðvatíma til tveggja ára eða skemur, og er útreikningur miðaður við meðaltal bindigrunns tveggja síðustu mánaða. Bindifjárhæðin er sú bindiskylda sem bindiskyldur aðili skal uppfylla daglega yfir viðmiðunartímabil sem er frá 21. degi hvers mánaðar til 20. dags þess næsta. Bindiskylda er uppfyllt á bindiskyldureikningi fjármálafyrirtækis hjá Seðlabankanum. Um bindiskyldu gilda reglur nr. 585 frá 4. júní 2018, með síðari breytingum.

Bindiskyldu er skipt upp í fasta bindiskyldu og meðaltals bindiskyldu. Föst bindiskylda er uppfyllt með því að leggja bindifjárhæð inn á sérstakan bindireikning í Seðlabankanum sem er læstur innan hvers binditímabils. Meðaltals bindiskylda er uppfyllt á almennum bindireikningi (viðskiptareikningi bindiskylds aðila hjá Seðlabankanum) og þarf innstæða á reikningnum að meðaltali að ná tilkynntri bindifjárhæð á hverju binditímabili.

Frá og með 21. mars 2020 er aðeins lögð á föst bindiskylda og er hún nú 3%.

Seðlabankinn getur átt viðskipti við viðskiptavaka á millibankamarkaði með gjaldeyri í því skyni að draga úr gengissveiflum eftir því sem hann telur tilefni til, auka dýpt eða bæta virkni. Seðlabankinn hefur ýmist beitt inngripum eða stundað reglubundin viðskipti. Samkvæmt 8. lið Stefnu í peningamálum geta inngrip bætt skilvirkni peningastefnunnar í litlum opnum hagkerfum með það að markmiði að draga úr skammtímasveiflum í gengi krónunnar sökum grunns markaðar. Telji peningastefnunefnd að gengi krónunnar hafi vikið of langt frá undirliggjandi hagþróun getur hún jafnframt ákveðið að Seðlabankinn beiti inngripum til að reyna að hafa áhrif á gengið. Reglubundin gjaldeyrisviðskipti eru viðskipti sem Seðlabankinn tilkynnir um fyrir fram. Kaupi Seðlabankinn erlendan gjaldeyri fjölgar krónum hjá viðskiptavökum en krónum fækkar ef Seðlabankinn selur þeim gjaldeyri. Gjaldeyrisviðskipti bankans hafa því áhrif á laust fé í umferð í bankakerfinu, sé ekki gripið til mótvægisaðgerða. Seðlabankinn birtir upplýsingar um veltu á millibankamarkaði með gjaldeyri í Gagnabanka Seðlabankans.

Kalkofnsgrein um gjaldeyrismarkaði á Íslandi

Samkvæmt 20. gr. laga um Seðlabankann 92/2019 getur Seðlabankinn keypt eða selt ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf á eftirmarkaði til að ná markmiðum sínum í peningamálum. Viðskipti Seðlabankans á skuldabréfamarkaði hafa áhrif á stöðu lauss fjár í bankakerfinu; kaupi Seðlabankinn ríkisbréf á markaði fjölgar krónum í umferð en þeim fækkar ef Seðlabankinn selur ríkisbréf. Seðlabankinn hefur ekki verið virkur þátttakandi á skuldabréfamarkaði en hóf viðskipti í maí 2020, sjá yfirlýsingu peningastefnunefndar. Í ágúst 2021 ákvað peningastefnunefnd að gera hlé á tilboðum að svo stöddu.

Seðlabankinn getur nýtt sér fleiri stjórntæki en nefnd hafa verið hér að framan og má helst nefna:

  • Seðlabankinn getur veitt lán bæði til skemmri og lengri tíma en öll lán sem Seðlabankinn veitir eru veðlán enda má bankinn ekki lána nema gegn tryggingum sem bankinn metur hæfar. Vextir veðlána til 7 daga eru í miðju vaxtagangsins.
  • Endurhverf viðskipti (e. repurchase agreements, repo) eru samningar á milli tveggja aðila um kaup eða sölu verðbréfa sem bankinn metur hæf í þessum viðskiptum. Samningurinn er með gjalddaga að umsömdum tíma liðnum og gengur þá til baka. Seðlabankinn hefur ekki átt slík viðskipti.
  • Seðlabankinn getur gefið út markaðsbréf í formi skuldabréfa, víxla og innstæðubréfa og selt til mótaðila. Bréfin eru rafrænt skráð í verðbréfamiðstöð og kjör þeirra eru ákvörðuð hverju sinni.
  • Seðlabankinn getur boðið bundin innlán bæði til skemmri og lengri tíma. Bundin innlán hafa sömu lausafjáráhrif og skuldabréf, víxlar og innstæðubréf, þ.e. Seðlabankinn dregur til sín laust fé.

Seðlabankinn og ríkissjóður

Í lögum um Seðlabankann kemur fram að Seðlabankinn er viðskiptabanki ríkissjóðs. Ríkissjóður og ýmsar ríkisstofnanir geta átt viðskiptareikninga hjá Seðlabankanum. Vextir á viðskiptareikningum ríkisstofnana eru þeir sömu og á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja hjá Seðlabankanum. Ríkissjóði er óheimilt að vera með yfirdrátt í Seðlabankanum.

Skilmálar

Hér má finna skilmála vegna bundinna innlána milli Seðlabankans og mótaðila hans.

Skilmálar vegna bundinni innlána(52,75 KB)

Seðlabankinn sem lánveitandi til þrautarvara

Seðlabankinn getur veitt tilteknum lánastofnunum lausafé með daglánum, veðlánum eða endurhverfum viðskiptum gegn tryggingum sem Seðlabankinn metur hæfar og birtir á heimasíðu.

Við álagsaðstæður getur sú staða komið upp að fjármálafyrirtæki er ófært um að nýta sér hefðbundna fyrirgreiðslu Seðlabankans.

Til að varðveita stöðugleika fjármálakerfis landsins getur Seðlabankinn veitt lausafjárfyrirgreiðslu til lánastofnana gegn öðrum tryggingum eða með öðrum skilyrðum sem bankinn setur, s.s. auknum upplýsingakröfum um tryggingar, hærri vaxtakjörum og strangari skilmálum.

Seðlabankinn getur einnig lagt einstaka lánastofnun til lausafé þegar aðrar fjármögnunarleiðir hafa verið tæmdar. Slíka fyrirgreiðslu getur Seðlabankinn eingöngu veitt ef lausafjárþörf lánastofnunar er til skamms tíma.

Lánveitingar í formi þrautarvaralána teljast til verkefna Seðlabankans m.a. vegna sérstakrar stöðu bankans til að geta búið til lausafé í formi seðlabankafjár fræðilega séð í ótakmörkuðu magni. Þá samræmist þrautarvaralánveitingar hlutverki Seðlabankans að varðveita fjármálastöðugleika og því aðgengi sem bankinn hefur að upplýsingum um fjármálakerfið og einstaka þátttakendur í krafti eftirlitshlutverks.

Í öllum tilvikum getur Seðlabankinn eingöngu veitt lán gegn tryggingum sem bankinn metur hæfar.