Megintilgangur markaðsaðgerða Seðlabanka Íslands er að stuðla að miðlun peningastefnunnar, þar með að stöðugu verðlagi og varðveita fjármálastöðugleika.
Reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann
Seðlabankinn setur reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við bankann. Nú eru í gildi reglur nr. 1200/2019, með síðari breytingum. Reglurnar segja meðal annars til um hverjir geta verið mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann, hvers konar viðskipti unnt er að eiga við bankann og hvaða tryggingar Seðlabankinn metur hæfar í lánafyrirgreiðslu bankans. Reglurnar eru endurskoðaðar eftir þörfum.
Mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann
Mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann eru viðskiptabankar og sparisjóðir. Einnig geta útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem starfa hér á landi verið í viðskiptum við bankann. Þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki geti tekið þátt í viðskiptum við Seðlabankann er það undir hverju og einu fyrirtæki komið hvort þau nýta sér það.
Daglán og viðskiptareikningar
Daglán eru lán til næsta viðskiptadags sem ætlað er að tryggja að staða þátttakenda í millibankagreiðslukerfinu (MBK) sé ávallt jákvæð í lok dags. Þau eru veitt gegn tryggingum sem Seðlabankinn metur hæfar, en listi yfir hæfar tryggingar er birtur á heimasíðunni. Vextir daglána eru hærri en í öðrum lánaviðskiptum og mynda þau þak vaxtagangs Seðlabankans og efri mörk vaxta til einnar nætur á millibankamarkaði með krónur.
Viðskiptabankar og sparisjóðir geta átt viðskiptareikning í Seðlabankanum og greiðast viðskiptareikningsvextir á þær innstæður. Upphæð vaxtaberandi fjárhæðar er þó háð ákveðnum takmörkunum sem fram koma í gildandi reglum nr. 1644/2022 um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga við Seðlabanka Íslands.
A-hluta stofnanir í eigu ríkisins mega eiga viðskiptareikning í Seðlabankanum.
Yfirdráttur á reikningum í Seðlabankanum er óheimill.
Vikulegar markaðsaðgerðir
Á miðvikudögum býður Seðlabankinn mótaðilum að taka þátt í markaðsaðgerðum bankans.
Við miðlun peningastefnunnar ráða aðstæður á markaði því hvort Seðlabankinn býður fjármálafyrirtækjum að taka lán hjá bankanum eða að binda krónur á innlánsreikningi í umsaminn tíma. Seðlabankinn hefur þá meginreglu að bjóða ekki útlán og bundin innlán á sama tíma en býður þó upp á sérstakan lausafjárglugga sem opnaður var í janúar 2022 þar sem unnt er að taka 14 daga veðlán í fjármálastöðugleikaskyni. Í undantekningartilvikum getur Seðlabankinn vikið frá þeirri reglu telji hann þörf á.
Lausafjárstaða fjármálafyrirtækja getur breyst mikið milli daga og eru hreyfingar á reikningum ríkissjóðs ein aðalástæða þess. Launagreiðslur um mánaðamót fjölga krónum í umferð og greiðsla skatta og gjalda til ríkissjóðs fækkar krónum sem eru í umferð í bankakerfinu svo dæmi séu tekin.
Stjórntæki
Seðlabankinn getur átt viðskipti við mótaðila í viðskiptum eða á mörkuðum. Mismunandi aðstæður geta kallað á mismunandi viðskipti og notkun mismunandi stjórntækja. Stundum eru einstök stjórntæki í formi viðskipta ekki notuð svo árum skiptir en eru engu að síður til taks ef á þarf að halda.
Seðlabankinn og ríkissjóður
Í lögum um Seðlabankann kemur fram að Seðlabankinn er viðskiptabanki ríkissjóðs. Ríkissjóður og ýmsar ríkisstofnanir geta átt viðskiptareikninga hjá Seðlabankanum. Vextir á viðskiptareikningum ríkisstofnana eru þeir sömu og á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja hjá Seðlabankanum. Ríkissjóði er óheimilt að vera með yfirdrátt í Seðlabankanum.
Skilmálar
Hér má finna skilmála vegna bundinna innlána milli Seðlabankans og mótaðila hans.
Seðlabankinn sem lánveitandi til þrautarvara
Seðlabankinn getur veitt tilteknum lánastofnunum lausafé með daglánum, veðlánum eða endurhverfum viðskiptum gegn tryggingum sem Seðlabankinn metur hæfar og birtir á heimasíðu.
Við álagsaðstæður getur sú staða komið upp að fjármálafyrirtæki er ófært um að nýta sér hefðbundna fyrirgreiðslu Seðlabankans.
Til að varðveita stöðugleika fjármálakerfis landsins getur Seðlabankinn veitt lausafjárfyrirgreiðslu til lánastofnana gegn öðrum tryggingum eða með öðrum skilyrðum sem bankinn setur, s.s. auknum upplýsingakröfum um tryggingar, hærri vaxtakjörum og strangari skilmálum.
Seðlabankinn getur einnig lagt einstaka lánastofnun til lausafé þegar aðrar fjármögnunarleiðir hafa verið tæmdar. Slíka fyrirgreiðslu getur Seðlabankinn eingöngu veitt ef lausafjárþörf lánastofnunar er til skamms tíma.
Lánveitingar í formi þrautarvaralána teljast til verkefna Seðlabankans m.a. vegna sérstakrar stöðu bankans til að geta búið til lausafé í formi seðlabankafjár fræðilega séð í ótakmörkuðu magni. Þá samræmist þrautarvaralánveitingar hlutverki Seðlabankans að varðveita fjármálastöðugleika og því aðgengi sem bankinn hefur að upplýsingum um fjármálakerfið og einstaka þátttakendur í krafti eftirlitshlutverks.
Í öllum tilvikum getur Seðlabankinn eingöngu veitt lán gegn tryggingum sem bankinn metur hæfar.