Verðbréfafyrirtæki og fjármálafyrirtæki sem mega veita fjárfestingarþjónustu skulu starfa heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, þegar þau veita neytendum fjárfestingarþjónustu. Þau skulu hafa trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.
Samningar og upplýsingagjöf til viðskiptavina
- Fyrirtæki sem veitir viðskiptavini fjárfestingarþjónustu skal gera skriflegan grunnsamning við viðskiptavininn sem kveður á um helstu réttindi og skyldur fyrirtækisins og viðskiptavinarins.
- Fyrirtækinu ber skylda til að halda skrá yfir alla samninga sem gerðir eru við hvern viðskiptavin.
- Viðskiptavinir skulu fá fullnægjandi upplýsingar um veitta þjónustu m.a. reglubundnar tilkynningar með hliðsjón af þeirri tegund fjármálagerninga sem tengjast þjónustunni, hversu flóknir þeir eru og eðli þeirrar þjónustu sem er veitt.
- Upplýsa skal um kostnað sem tengist viðskiptum og/eða þjónustu sem veitt er.
Flokkun viðskiptamanna
- Fjármálafyrirtækinu ber skylda til að flokka fjárfesta við upphaf viðskiptasambands.
- Tilkynna skal viðskiptavini um í hvaða flokk fjárfesta hann fellur.
- Flokkarnir eru:
- Almennur fjárfestir, nýtur mestrar verndar.
- Fagfjárfestir, nýtur minni verndar.
- Viðurkenndur gagnaðili, nýtur minni verndar.
- Við flokkun er litið til þess hvaða reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu viðskiptavinur býr yfir til að taka sjálfur ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir.
Mat á hæfi eða tilhlýðileika
- Þegar fyrirtæki veitir fjárfestingarráðgjöf eða annast eignastýringu skal það meta hvort vara eða þjónusta hæfi viðskiptavini og afla upplýsinga um:
- Reynslu og þekkingu viðskiptavinar á sviði fjárfestinga sem máli skiptir fyrir viðkomandi tegund vöru eða þjónustu.
- Fjárhagsstöðu viðskiptavinar, þ.m.t. getu hans til að mæta tapi.
- Fjárfestingarmarkmið viðskiptavinar, þ.m.t. áhættuþol hans.
- Þegar fyrirtæki veitir aðra fjárfestingarþjónustu en fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringu, skal meta hvort vara eða þjónusta er tilhlýðileg fyrir viðskiptavininn.
- Afla skal upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar á sviði fjárfestinga sem máli skiptir fyrir viðkomandi tegund vöru eða þjónustu.
Besta framkvæmd viðskipta
- Fyrirtæki ber að tryggja viðskiptavinum sínum bestu framkvæmd viðskipta með því að leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína við framkvæmd viðskiptafyrirmæla.
- Þættir sem líta skal til eru t.d. verð, kostnaður, hraði, líkur á að af viðskiptum og uppgjöri verði, umfang og eðli viðskiptanna eða aðrir þættir sem máli skipta.
Hagsmunaárekstrar
- Fyrirtæki ber að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra í tengslum við fjárfestingarþjónustu sem þau veita.
- Ef fyrirtæki getur ekki afstýrt hættu á hagsmunaárekstrum skal það upplýsa viðskiptavin um almennt eðli og/eða ástæður hagsmunaárekstranna og hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að draga úr hættunni.
- Fyrirtæki skulu skipuleggja starfsemi sína á þann veg að sem minnst hætta sé á hagsmunaárekstrum.
Lykilupplýsingaskjöl
- Lykilupplýsingaskjöl eru skjöl sem skylt er að láta almennum fjárfestum í té, áður en viðskipti eiga sér stað eða samningur kemst á t.d. vegna viðskipta með hlutdeildarskírteini sjóða og annarra pakkaðra fjárfestingarafurða eða vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir.
- Skjölin eiga að geyma samanburðarhæfar upplýsingar sem gera almennum fjárfestum kleift að skilja tiltekna afurð, hvaða áhætta er fólgin í henni og hvaða ávinnings má vænta ásamt upplýsingum um hvaða kostnaður og gjöld verða innheimt og hver lágmarkstími eignarhalds er ef slíkar kvaðir eru til staðar.
- Lykilupplýsingaskjöl mega vera að hámarki þrjár blaðsíður að lengd.