Meginmál

Til eru mörg hugtök sem notuð eru í daglegu tali um fjárfestingarkosti, s.s. verðbréf, hlutabréf og skuldabréf. Regnhlífarhugtakið er fjármálagerningur, en til eru lög um markaði fyrir fjármálagerninga sem setja ramma utan um viðskipti með þær tegundir fjárfestinga sem falla undir hugtakið. Hér er stiklað á stóru um helstu tegundir fjármálagerninga og þær útskýrðar.

Hlutabréf

  • Hlutabréf er staðfesting hluthafa á eignarhlut í hlutafélagi.
  • Hluthafi nýtur réttinda samkvæmt lögum og samþykktum hlutafélagsins.
  • Hluthafar geta fengið greiddan arð af hlutabréfum, sem oftast er nefnd ávöxtun eigin fjár.
  • Virði hlutabréfa getur hækkað eða lækkað.
  • Við gjaldþrot hlutafélags getur allt hlutafé tapast.
  • Fjárfesting í hlutabréfum getur verið áhættusöm.
  • Verðsveiflur þ.e. sveiflur á gengi hlutabréfa endurspegla áhættu hlutabréfs.
  • Hluthafar eru aftastir í kröfuröð ef hlutafélag verður gjaldþrota, því getur allt hlutafé tapast ef eignir eru ekki nægar til að greiða öllum kröfuhöfum. Hlutabréf geta því orðið verðlaus.
  • Hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði, þ.e. skráð í kauphöll, eru skráð rafrænt í verðbréfamiðstöð.
  • Útgefandi skráðra hlutabréfa (hlutafélagið) þarf að uppfylla ítarlegar kröfur um upplýsingaskyldu.
  • Upplýsingaskylda útgefenda á að tryggja jafnræði fjárfesta þannig að allir fjárfestar búi yfir sömu upplýsingum á sama tíma og geti tekið upplýsta ákvörðun um viðskipti með hlutabréfin.
  • Verðbil, þ.e. munur á kaup- og sölugengi (e. spread) skráðra hlutabréfa gefur til kynna hversu mikil viðskipti eru með hlutabréfin. Mikill munur á kaup- og sölugengi (þ.e. vítt verðbil) gefur til kynna að seljanleiki hlutabréfanna sé lítill og meiri hætta sé á að einstök viðskipti hafi áhrif á verð þeirra.
  • Vítt verðbil gefur vísbendingu um að verðsveiflur geti verið miklar. Skammtímafjárfestar velja því frekar að eiga viðskipti með hlutabréf sem hafa þröngt verðbil.
  • Til þess að auka seljanleika hlutabréfa og stuðla að skilvirkari verðmyndun geta útgefendur gert samning við viðskiptavaka um að kaupa og selja tiltekið magn hlutabréfa á gengi sem hefur fyrirfram ákveðið frávik frá síðasta viðskiptaverði. Í upplýsingaveitum kauphalla er hægt að nálgast upplýsingar um hvort viðskiptavakt er með hlutabréf.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með upplýsingaskyldu útgefenda fjármálagerninga sem hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með starfsemi kauphalla, skipulagðra markaða, markaðstorgum fjármálagerninga og verðbréfamiðstöðvum.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með viðskiptum á markaði.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með því að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við reglur nr. 353/2022 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana. 
  • Seðlabanki Íslands tekur við ábendingum fjárfesta ef starfshættir verðbréfafyrirtækja eru ekki í samræmi við lög og reglur. Hægt er að senda ábendingu eða fyrirspurn hér.
  • Seðlabanki Íslands bendir á upplýsingar á vefnum um úrræði neytenda, en hann leiðbeinir neytendum að öðru leyti um úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum. Hér má nálgast verklagsreglur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurna og ábendinga.
  • Seðlabanki Íslands hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.

Skuldabréf

  • Skuldabréf er viðurkenning útgefanda skuldabréfsins á því að honum beri skylda til að endurgreiða tiltekna fjárhæð, á fyrirframtilgreindum tíma með fyrirframtilgreindum vöxtum til eiganda eða handhafa skuldabréfsins.
  • Til eru ýmsar tegundir skuldabréfa, þau geta t.d. verið verðtryggð eða óverðtryggð með jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum.
  • Ef skuldabréf er verðtryggt þá breytast eftirstöðvar höfuðstólsins til samræmis við fyrirframákveðna vísitölu t.d. vísitölu neysluverðs (VNV).
  • Ef skuldabréf er óverðtryggt lækkar höfuðstóllinn sem nemur afborgun af honum og fylgir því ekki verðbólguþróun.
  • Skuldabréf bera vexti sem geta verið fastir eða breytilegir. Með föstum vöxtum er samið um vexti til lokagjalddaga skuldabréfsins. Með breytilegum vöxtum er samið um að vextir hækki eða lækki til samræmis við vaxtaþróun á fjármálamarkaði sem miðast yfirleitt við stýrivexti seðlabanka.
  • Til eru ótalmargar tegundir skuldabréfa og geta þau til dæmis verið háð undirliggjandi þáttum. Slík skuldabréf teljast til flókinna fjármálagerninga og almennum fjárfestum er ráðlagt að fjárfesta ekki í slíkum skuldabréfum.  
  • Almennir fjárfestar sem hyggjast fjárfesta í skuldabréfum þurfa að huga að því hvert markmið fjárfestingarinnar er, til hversu langs tíma hún er gerð og hversu mikla áhættu viðkomandi er tilbúinn að taka.
  • Ríkisskuldabréf eru talin áhættuminnstu skuldabréfin.
  • Mikilvægt er að átta sig á því að verð skuldabréfa sveiflast eftir markaðsaðstæðum.
  • Gott er að leita ráðgjafar hjá bönkum eða verðbréfafyrirtækjum áður en fjárfest er í skuldabréfum
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með upplýsingaskyldu útgefenda fjármálagerninga sem hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með starfsemi kauphalla, skipulagðra markaða, markaðstorgum fjármálagerninga og verðbréfamiðstöðvum.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með viðskiptum á markaði.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með því að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við reglur nr. 353/2022 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana. 
  • Seðlabanki Íslands tekur við ábendingum fjárfesta ef starfshættir verðbréfafyrirtækja eru ekki í samræmi við lög og reglur. Hægt er að senda ábendingu eða fyrirspurn hér.
  • Seðlabanki Íslands bendir á upplýsingar á vefnum um úrræði neytenda, en hann leiðbeinir neytendum að öðru leyti um úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum. Hér má nálgast verklagsreglur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurna og ábendinga.
  • Seðlabanki Íslands hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.