Meginmál
  • Neytendur geta notað greiðslureikning til að leggja inn eða taka út reiðufé, framkvæma greiðslur og taka við þeim, þ.m.t. millifæra fjármuni til og frá þriðja aðila.  
  • Viðskiptabönkum og sparisjóðum er skylt að bjóða neytendum sem hafa lögmæta búsetu á Evrópska efnahagssvæðinu að stofna og nota almennan greiðslureikning.  
  • Tengja skal almenna greiðslureikninga við netbanka. 
  • Gefa skal út debetkort sem tengt er almennum greiðslureikningi sem hægt er að nota til að framkvæma greiðslur eða taka út reiðufé í bönkum eða sparisjóðum og hraðbönkum. 
  • Ef þörf er á skammtímaláni til að mæta óvæntum útgjöldum er hægt að óska eftir yfirdráttarláni á greiðslureikning. 
  • Viðskiptabönkum og sparisjóðum ber að framkvæma áreiðanleikakönnun á grundvelli laga um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þar sem m.a. er aflað upplýsinga um uppruna fjármagns og pólitísk tengsl þess sem óskar eftir stofnun almenns greiðslureiknings. Hafna má beiðni um stofnun almenns greiðslureiknings á grundvelli upplýsinga sem veittar eru í áreiðanleikakönnun. 
  • Sparnaðarreikningar eru margs konar og tilgangur þeirra er að varðveita sparifé. 
  • Fjölbreytt úrval sparnaðarreikninga er í boði hjá bönkum og sparisjóðum, því er gott að kanna vel úrvalið og velja sparnaðarreikning sem hentar.  
  • Sparnaðarreikningar eru ýmist bundnir eða óbundnir, t.d. eru til sparnaðarreikningar sem eru ætlaðir fyrir börn og eru bundnir til 18 ára aldurs. Einnig er boðið upp á bindingu til skamms tíma þ.e. til nokkra mánaða. Vextir á bundnum sparnaðarreikningum eru yfirleitt hærri en af óbundnum sparnaðarreikningum. 
  • Sparnaðarreikningar geta verið ýmist verðtryggðir eða óverðtryggðir. Vextir á verðtryggðum sparnaðarreikningum eru lægri en á óverðtryggðum, en verðbætur reiknast á innstæðu og vexti verðtryggðra innlána og verður því að hafa það í huga við samanburð á vaxtakjörum.  
  • Vextir ákvarðast af binditíma, fjárhæð á reikningi og hvort um verðtryggðan eða óverðtryggðan reikning er að ræða.  
  • Ekki er hægt að tengja debetkort við sparnaðarreikninga.  
  • Kannaðu vel skilmála innlánsreikninga hjá bönkum og sparisjóðum.   
  • Gæta þarf öryggis við notkun debetkorta sem tengd eru greiðslureikningi. 
  • Góð regla er að geyma ekki háar fjárhæðir á greiðslureikningum til þess að lágmarka tjón ef korti eða kortaupplýsingum er stolið.  
  • Kannaðu vel skilmála útgefanda kortsins. Útgefendur korta eru viðskiptabankar og sparisjóðir.  
  • Kannaðu vel verðskrá banka og sparisjóða t.d. færslugjöld, kortagjöld, þjónustugjöld, vaxtakjör o.fl.  
  • Gerðu samanburð á skilmálum t.d. gjöldum og vaxtakjörum. 
  • Veldu sparnaðarreikning sem hentar til að ná markmiðum í sparnaði t.d. hversu lengi á að binda sparnað. 
  • Fjármagnstekjuskattur er greiddur af vöxtum og verðbótum.  
  • Innstæður eru tryggðar upp að andvirði 100.000 evra í íslenskum krónum, sjá nánar á tvf.is
  • Seðlabanki Íslands veitir lánastofnunum starfsleyfi og hefur eftirlit með að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um hana.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með því að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við reglur nr. 353/2022 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana.
  • Seðlabanki Íslands tekur við ábendingum neytenda ef starfshættir eftirlitsskyldra aðila eru ekki í samræmi við lög og reglur. Hér er hægt að senda ábendingu eða fyrirspurn.
  • Seðlabanki Íslands bendir á upplýsingar á vefnum um úrræði neytenda, en hann leiðbeinir neytendum að öðru leyti um úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum. Hér má nálgast verklagsreglur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurna og ábendinga.
  • Seðlabanki Íslands hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.