Meginmál

Til að mæta óvæntum útgjöldum er mikilvægt að eiga varasjóð. Öruggasta sparnaðarleiðin er að leggja fjármuni inn á bankareikninga en þeir hafa alla jafna lægri ávöxtun en aðrar sparnaðarleiðir s.s. verðbréfasjóðir eða verðbréf. Verðbréfaviðskiptum getur fylgt áhætta sem mikilvægt er að þekkja. Bönkum, verðbréfafyrirtækjum og rekstraraðilum sjóða, sem veita fjárfestingarráðgjöf og sinna eignastýringu, ber skylda til að meta fjárfesta t.d. kanna fjárhagsstöðu, þekkingu og reynslu viðskiptavinar af verðbréfaviðskiptum áður en þjónustan er veitt.

Verðbréfasjóðir

  • Verðbréfasjóður veitir viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar. 
  • Verðbréfasjóður fjárfestir í fjármálagerningum t.d. hlutabréfum og skuldabréfum og öðrum seljanlegum eignum.  
  • Fjárfestingar verðbréfasjóðs verða að vera í samræmi við samþykkta fjárfestingastefnu og fjárfestingaheimildir sjóðsins.
  • Hlutdeildarskírteini er skírteini sem sannar eignarhald viðkomandi í sjóðnum. 
  • Helstu tegundir verðbréfasjóða eru skuldabréfasjóðir, hlutabréfasjóðir og blandaðir sjóðir.  
  • Mikilvægt er að kynna sér lykilupplýsingaskjal verðbréfasjóðs sem veitir m.a. upplýsingar um fjárfestingarheimildir, eignasamsetningu, áhættuvísi og áhættuþætti, ráðlagðan fjárfestingartíma og kostnað sem fellur á viðskiptavininn vegna viðskipta með hlutdeildarskírteini í sjóðnum.  
  • Gagnlegt er að kynna sér útboðslýsingu sjóðs sem veitir ítarlegar upplýsingar um sjóðinn og rekstraraðila hans. Þar má einnig finna reglur sjóðsins. 
  • Áhættumælikvarði sjóðs er gefinn upp á bilinu 1 – 7 og gefur til kynna hversu mikið verð/gengi hlutdeildarskírteina sjóðsins sveiflast yfir ákveðið tímabil. Eftir því sem áhættutalan er hærri því meiri sveiflur eru á gengi sjóðsins og hann því talinn áhættusamari. 
  • Hver og einn fjárfestir þarf að meta áhættuvilja og áhættuþol, þ.e. hversu mikilvægt er að vernda höfuðstól fjárfestingarinnar og hversu lengi er hægt að binda fjármunina til að auka áhættuþol. 
  • Kostnaður, þóknanir og gjöld eru mismunandi eftir sjóðum og er mjög mikilvægt að kynna sér þau vel. Háar þóknanir og gjöld geta haft mikil áhrif á ávöxtun sjóðs. Dæmi um þóknanir og gjöld eru umsýsluþóknun, viðskiptakostnaður og árangursþóknun.
  • Seðlabanki Íslands veitir rekstrarfélögum verðbréfasjóða starfsleyfi og hefur eftirlit með að starfsemi þeirra sé í samræmi við gildandi lög og reglur.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með því að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við reglur nr. 353/2022 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana.
  • Seðlabanki Íslands tekur við ábendingum neytenda ef starfshættir eftirlitsskyldra aðila eru ekki í samræmi við lög og reglur. Hér er hægt er að senda ábendingu eða fyrirspurn.
  • Seðlabanki Íslands bendir á upplýsingar á vefnum um úrræði neytenda, en hann leiðbeinir neytendum að öðru leyti um úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum. Hér má nálgast verklagsreglur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurna og ábendinga.
  • Seðlabanki Íslands hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika. 

Sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta

  • Sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta er hlutdeildarsjóður sem lýtur fjárfestingarheimildum á grundvelli X. kafla laga nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og hefur hlotið staðfestingu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.  
  • Sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta veitir viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar. 
  • Sérhæfður sjóður fjárfestir í fjármálagerningum og öðrum seljanlegum eignum  
  • Fjárfestingar sérhæfðs sjóðs verða að vera í samræmi við samþykkta fjárfestingastefnu og fjárfestingaheimildir. 
  • Hlutdeildarskírteini er skírteini sem sannar eignarhald viðkomandi í sjóðnum. 
  • Sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta hafa mun rýmri fjárfestingarheimildir en verðbréfasjóðir, því geta þeir verið áhættusamari. 
  • Sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta búa við rýmri innlausnarskyldu, slíkir sjóðir hafa allt að þrjá mánuði til þess að innleysa (kaupa) hlutdeildarskírteini af sjóðsfélaga. Í reglum hvers sjóðs er innlausnartími tilgreindur og skal rekstraraðili vekja sérstaka athygli á reglum um innlausnarskyldu sérhæfðs sjóðs fyrir almenna fjárfesta. 
  • Mikilvægt er að kynna sér lykilupplýsingaskjal sem veitir m.a. upplýsingar um fjárfestingaheimildir, eignasamsetningu, áhættuvísi og áhættuþætti, ráðlagðan fjárfestingartíma og kostnað sem fellur á viðskiptavininn vegna kaupa í sjóðnum.  
  • Mikilvægt er að kynna sér útboðslýsingu sjóðs en þar eru veittar ítarlegar upplýsingar um sjóðinn og rekstraraðila hans. Þar má einnig finna reglur sjóðsins.  
  • Áhættumælikvarði eða áhættuvísir sjóðs er gefinn upp á bilinu 1 – 7 og gefur til kynna hversu mikið verð/gengi hlutdeildarskírteina sjóðsins sveiflast yfir ákveðið tímabil. Eftir því sem áhættutalan er hærri því meiri sveiflur eru á gengi sjóðsins og hann því talinn áhættusamari. 
  • Hver og einn fjárfestir þarf að meta eigin áhættuvilja og áhættuþol, þ.e. hversu mikilvægt er að vernda höfuðstól fjárfestingarinnar og hversu lengi fjárfestir er tilbúinn að binda fjármunina.
  • Kostnaður, þóknanir og gjöld eru mismunandi eftir sjóðum og er mjög mikilvægt að kynna sér þau vel. Háar þóknanir og gjöld geta haft mikil áhrif á ávöxtun sjóðs. Dæmi um þóknanir og gjöld eru umsýsluþóknun, viðskiptakostnaður og árangursþóknun.
  • Seðlabanki Íslands veitir rekstraraðilum sérhæfðra sjóða starfsleyfi, staðfestir sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta og hefur eftirlit með að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um hana.
  • Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með því að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við reglur nr. 353/2022 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana.
  • Seðlabanki Íslands tekur við ábendingum neytenda ef starfshættir eftirlitsskyldra aðila eru ekki í samræmi við lög og reglur. Hér er hægt er að senda ábendingu eða fyrirspurn.
  • Seðlabanki Íslands bendir á upplýsingar á vefnum um úrræði neytenda, en hann leiðbeinir neytendum að öðru leyti um úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum. Hér má nálgast verklagsreglur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurna og ábendinga.
  • Seðlabanki Íslands hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.