Meginmál

Sýndareignir

  • Sýndareignir (e. crypto-assets) eru verðmæti á stafrænu formi sem hægt er að nota sem greiðslu fyrir vöru og þjónustu eða sem fjárfestingu.
    • Dæmi um sýndareignir eru Bitcoin og Ethereum.
  • Sýndareignir eru ekki gefnar út eða stýrt af opinberum aðila eins og seðlabanka.
  • Dreifð færsluskrártækni (e. Distributed Ledger Technology, DLT) er notuð til að framkvæma viðskipti og færslur með sýndareignir. Bálkakeðja (e. Blockchain) er dæmi um dreifða færsluskrártækni.
  • Viðskipti með sýndareignir geta verið mjög áhættusöm.
    • Þú getur tapað öllu því sem þú fjárfestir.
    • Verð getur sveiflast hratt á stuttum tíma.
    • Þú getur orðið fórnarlamb svika, svindls, rekstrarstöðvunar eða tölvuárása.
  • Það er ólíklegt að þú njótir nokkurra réttinda eða bóta, líkt og gildir um fjáreignir í bönkum, fari hlutirnir á versta veg. Eftirlit með sýndareignum er lítið sem ekkert, þar til sett hafa verið lög um markaði fyrir sýndareignir.
  • Eftirlit með þjónustuveitendum sýndareigna takmarkast við eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í samræmi við lög nr. 140/2018.
  • Ekkert eftirlit er með neytendavernd vegna viðskipta með sýndareignir.

Hópfjármögnun

  • Hópfjármögnun er fjármögnunarleið sem lítil sprotafyrirtæki og einstaklingar nota oft til að afla fjármagns til ákveðinna verkefna.
  • Margir aðilar leggja fram litla fjárhæð, ýmist sem styrk, í skiptum fyrir vöru eða þjónustu, eignarhlut í fyrirtæki eða í formi láns.
  • Fjármögnunin fer fram annað hvort á vefsíðum hópfjármögnunarfyrirtækja eða samfélagsmiðlum.
  • Þjónustuaðilar taka þóknun af þeirri fjármögnun sem aflað er, mismunandi er hversu há sú þóknun er en yfirleitt hlutfall af fjárhæð sem safnast.
  • Algengast er að skuldfært sé af greiðslukortum. Því er mikilvægt að ganga úr skugga um að um öruggar greiðslusíður sé að ræða.
  • Engar reglur gilda um hópfjármögnun.
  • Fyrirhugað er að innleiða reglugerð um evrópska hópfjármögnunarþjónustuveitendur fyrir fyrirtæki.
  • Seðlabanki Íslands fer ekki með eftirlit með hópfjármögnun.