Fara beint í Meginmál

Sýndareignir

Frumvarp til laga til að innleiða MiCA (e. Markets in crypto assets) reglugerð Evrópusambandsins var lagt fram á Alþingi 29. mars 2025. Ekki náðist að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok og verður það því lagt fram að nýju á næsta þingi. Markmið reglugerðarinnar eru eftirfarandi:

  • Stuðla að réttarvissu með það fyrir augum að þróa megi sýndareignir og hagnýta möguleika dreifðrar færsluskrártækni í fjármálaþjónustu í fyrirsjáanlegu umhverfi og með öruggum hætti
  • Stuðla að nýsköpun með sýndareignir - því er mikilvægt að til staðar sé örugg og heildstæð umgjörð um slík viðskipti sem styður einnig við heilbrigða samkeppni innan Evrópska efnahagssvæðisins
  • Tryggja fullnægjandi neytenda- og fjárfestavernd og heilleika markaða fyrir sýndareignir
  • Bregðast við áhættum sem aukin notkun sýndareigna, sérstaklega stöðugleikamynta (e. stablecoins), kann að hafa í för með sér fyrir fjármálastöðugleika og framkvæmd peningastefnu

Sýndareignir (e. crypto-assets) eru verðmæti á stafrænu formi sem hægt er að nota sem greiðslu fyrir vöru og þjónustu eða sem fjárfestingu.

  • Dæmi um sýndareignir eru Bitcoin og Ethereum

Dreifð færsluskrártækni (e. Distributed Ledger Technology, DLT) er notuð til að framkvæma viðskipti og færslur með sýndareignir. Bálkakeðja (e. Blockchain) er dæmi um dreifða færsluskrártækni.

Eignatengdir tókar eru skilgreindir í MiCA reglugerðinni sem tegund sýndareignar sem er ekki rafeyristóki og felur í sér skuldbindingu um að viðhalda stöðugu virði miðað við annað virði, annan rétt eða sambland af hvoru tveggja, þ.m.t. einn eða fleiri opinbera gjaldmiðla.

Dæmi um annað virði í framangreindri umfjöllun eru:

  • Gjaldmiðlar (eða gjaldmiðlakarfa) eins og evru, dollara eða fleiri gjaldmiðla í hlutföllum
  • Eðalmálmar (t.d. gull eða silfur)
  • Aðrar eignir sem stuðla að stöðugu virði viðkomandi tóka

Rafeyristókar (e. E-money tokens, EMTs) eru önnur tegund sýndareigna sem endurspegla gjaldmiðil (t.d. evru) og er notaður í viðskiptum..

Þeir fela í sér skuldbindingu um að viðhalda stöðugu virði miðað við virði eins opinbers gjaldmiðils. 

Rafeyristókar eru aðgreindir frá öðrum tegundum tóka, s.s. eignatengdum tókum. Aðgreiningin felst í eftirfarandi:

  • Þeir eru bundnir einum gjaldmiðli (ekki gjaldmiðlakörfu eða öðrum eignum)
  • Þeim er ætlað að vera rafrænt form peninga (ígildi rafeyris)
  • Þeir eru gefnir út gegn greiðslu og eru innleysanlegir á nafnverði.

Dæmi um rafeyristóka er EURe sem er rafeyristóki bundinn við evru.

Já, samkvæmt MiCA reglugerðinni eru til aðrir tókar en eignatengdir tókar og rafeyristókar og eru þeir oftast nefndir aðrar sýndareignir.

Þessi flokkur sýndareigna, aðrar sýndareignir, hefur töluvert sveigjanlegri skilgreiningu en eignatengdir tókar og rafeyristókar og nær hann yfir alla starfræna tóka sem falla ekki undir framangreindar skilgreiningar á tókum. Flokkurinn er ekki sérstaklega tengdur verðmæti undirliggjandi eigna né ætlaður sem rafeyrir eða greiðslutæki, heldur hefur hann fjölbreytt notagildi.

Dæmi um aðra tóka sem falla undir þennan flokk eru:

  • Nytjatókar (e. utility tokens) en það er tegund sýndareigna sem er einungis ætlað að veita aðgang að vöru eða þjónustu sem útgefandi hans veitir.

Samkvæmt MiCA reglugerðinni ber útgefendum sýndareigna að gefa út svokallaða hvítbók sem þarf að skila til eftirlitsyfirvalda og birta áður en tókar eru boðnir almenningi eða þeir teknir til viðskipta á viðskiptavettvangi. Hvítbókin gegnir svipuðu hlutverki og lýsingar í hefðbundnum verðbréfaviðskiptum.

Tilgangur hvítbókar er aðallega að:

  • Upplýsa fjárfesta og notendur um eðli, áhættur og notkunarmöguleika tókans
  • Auka gagnsæi og traust á sýndareignum
  • Veita eftirlitsaðilum upplýsingar til að meta hvort útgáfa sýndareignanna sé í samræmi við lög

Helstu upplýsingar sem koma eiga fram í hvítbók eru:

  • Upplýsingar um útgefanda sýndareignarinnar
  • Upplýsingar um útboð á sýndareigninni á almennum markaði eða töku hans til viðskipta
  • Upplýsingar um sýndareignina
  • Upplýsingar um réttindi og skyldur sem fylgja sýndareigninni
  • Upplýsingar um tæknina sem liggur að baki
  • Upplýsingar um áhættuna 
  • Fjárfesting í sýndareignum getur verið áhættusöm
  • Markaðsáhætta og verðsveiflur
    • Verð sýndareigna getur hækkað eða lækkað mjög hratt – oft án augljósra markaðsforsenda
    • Sýndareignir lúta margar hverjar lögmálum spákaupmennsku og eru áhættusamar fjárfestingar þar sem verð þeirra getur tekið snörpum og skyndilegum breytingum, jafnvel yfir nótt
  • Tæknileg áhætta fylgir sýndareignum

Viðvörun ESMA við áhættum tengdum fjárfestingu í sýndareignum

  • Er útgefandinn skráður eða undir eftirliti?
    • Athuga ber að ekki allar sýndareignir hafa útgefanda. Bitcoin er dæmi um slíka sýndareign.
  • Er viðskiptavettvangurinn sem ég nota til að kaupa sýndareignina með starfsleyfi og undir eftirliti?
  • Hver er tilgangur og notagildi tókans?
  • Hvernig virkar tókinn tæknilega?
  • Er hvítbók trúverðug og gagnsæ?
  • Hverjir standa að verkefninu?
  • Hvernig er eignin geymd og hvað gerist ef ég týni lykli?
  • Er auðvelt að selja tókann?
  • Hvaða skattalegar skyldur fylgja eigninni?
    • Upplýsingar um skattaskyldu og aðrar reglur má finna á vef Skattsins.
  • Hvaða áhættur eru til staðar?
  • Hversu mikið tapþol hefur þú?

Hópfjármögnun

  • Hópfjármögnun er fjármögnunarleið sem lítil sprotafyrirtæki og einstaklingar nota oft til að afla fjármagns til ákveðinna verkefna.
  • Margir aðilar leggja fram litla fjárhæð, ýmist sem styrk, í skiptum fyrir vöru eða þjónustu, eignarhlut í fyrirtæki eða í formi láns.
  • Fjármögnunin fer fram annað hvort á vefsíðum hópfjármögnunarfyrirtækja eða samfélagsmiðlum.
  • Þjónustuaðilar taka þóknun af þeirri fjármögnun sem aflað er, mismunandi er hversu há sú þóknun er en yfirleitt hlutfall af fjárhæð sem safnast.
  • Algengast er að skuldfært sé af greiðslukortum. Því er mikilvægt að ganga úr skugga um að um öruggar greiðslusíður sé að ræða.
  • Engar reglur gilda um hópfjármögnun.
  • Fyrirhugað er að innleiða reglugerð um evrópska hópfjármögnunarþjónustuveitendur fyrir fyrirtæki.
  • Seðlabanki Íslands fer ekki með eftirlit með hópfjármögnun.