Tilgangur og markmið
Seðlabanki Íslands hefur sett sér stefnu í loftslagsmálum að fordæmi stjórnarráðsins fram til ársins 2030. Bankinn skal kappkosta við að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum í starfsemi sinni. Bankinn einsetur sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá árinu 2019 til ársins 2030 miðað við gögn úr grænu bókhaldi og könnun á samgönguvenjum. Frá og með 2021 skal starfsemi bankans vera kolefnishlutlaus og bankinn mun styðja innlend verkefni til kolefnisbindingar sem samsvarar losun hans fyrir árið 2020. Stefnan nær til allrar starfsemi bankans, þ.m.t. húsnæðis sem bankinn á og notar og framkvæmda á vegum bankans. Tilgangur stefnunnar er að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri bankans og sýna þannig gott fordæmi ásamt því að taka virkan þátt í að Ísland geti staðið við loftslagsskuldbindingar sínar á alþjóðarvettvangi.
Megináherslur
Meðfram kolefnishlutleysi frá árinu 2021 mun Seðlabankinn draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fram til ársins 2030 miðað við árið 2019 þar sem áhersla verður lögð á eftirfarandi þætti:
- Flugferðir starfsmanna
- Rekstur bifreiða bankans og notkun leigubíla
- Samgöngur starfmanna til og frá vinnu
- Notkun annarrar jarðefnaolíu
- Notkun rafmagns- og hitaveitu
- Flokkun úrgangs
- Innkaup
- Virka fræðslu og upplýsingagjöf til starfsmanna um umhverfis- og loftslagsmál
Framtíðarsýn fyrir árið 2030
Seðlabankinn hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá árinu 2019. Starfsmenn bankans eru meðvitaðir um mikilvægi loftslags- og umhverfismála og taka virkan þátt í framfylgd loftslagsstefnu bankans. Bankinn er virkur í alþjóðlegu samstarfi um málaflokkinn og miðlar upplýsingum til almennings og annarra hagaðila um stöðu loftslagsmála og áhættu sem tengist loftslagsbreytingum og hvernig er hægt að bregðast við henni. Seðlabankinn hefur verið kolefnishlutlaus í 10 ár og hefur jafnað kolefnislosun sína með vottuðum einingum frá 2021.
Eftirfylgni
Umhverfisnefnd ber ábyrgð á loftslagsstefnu bankans í samráði við seðlabankstjóra. Það er á ábyrgð allra starfsmanna Seðlabankans að framfylgja loftslagsstefnu svo Seðlabankinn geti lagt sitt af mörkum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Grænu bókhaldi skal skilað til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert. Stefnan mun verða rýnd af umhverfisnefnd einu sinni á ári og árangur í aðgerðum og markmiða metinn og gerðar tillögur til úrbóta með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda milli ára.