Meginmál

Grein um fullveldi og peningastefnu birt í nýjustu útgáfu Efnahagsmála

24. júní 2021

Ritið Efnahagsmál nr. 10 með greininni „Fullveldi og peningastefna“ eftir Arnór Sighvatsson hefur verið birt á vef Seðlabanka Íslands. Í greininni er fjallað um peningalegt fullveldi, hvernig hugmyndir um það hafa þróast í gegnum aldirnar og því verið beitt til tekjuöflunar, eflingar viðskipta eða hagstjórnar.

Þá er fjallað um takmörk peningalegs fullveldis, m.a. í ljósi óheftra fjármagnshreyfinga og alþjóðavæðingar viðskiptalífsins, hvernig þróun hagfræðikenninga hefur haft áhrif á skilning stjórnvalda og fræðimanna á hlutverki peningalegs fullveldis, togstreitu sem myndast getur á milli trúverðugleika peningastefnu og þarfar fyrir sveigjanleika í hagstjórn, valið á milli leiða samtryggingar og sjálfstryggingar og samband fullveldis og athafnafrelsis einstaklinga og fyrirtækja.

Nýtt rit um samvirkni peningalegs og fjármálalegs stöðugleika

12. apríl 2017

Efnahagsmál nr. 9 með grein um „Samvirkni peningalegs og fjármálalegs stöðugleika“ eftir Þorstein Þorgeirsson hafa verið birt hér á vef Seðlabanka Íslands. Greinin er ætluð sem innlegg í faglega umræðu um stofnanalegt fyrirkomulag fjármálaeftirlits á Íslandi með áherslu á bættan árangur á sviðum peningalegs og fjármálalegs stöðugleika.

Í greininni er fjallað um hvernig þessi tvö verkefni voru í auknum mæli hugmyndafræðilega aðskilin á nýliðnum áratugum með áhrifum á stofnanagerð fjármálaeftirlits þannig að bankaeftirlit var tekið úr Seðlabanka Íslands og fært inn í sjálfstætt fjármálaeftirlit. Í framhaldinu er rakið hvernig fjármálakreppan leiddi til endurmats á hugmyndafræðinni á alþjóðavettvangi með hugmyndum um þjóðhagsvarúð og áherslu á endursameiningu þessara verkefna.

Sérstaklega er fjallað um rannsóknir sem benda til ávinnings af því að samþætta undirbúningsvinnu fyrir hinar sjálfstæðu stefnunefndir til að samræma betur stefnumótunina og auka árangur þeirra, með jákvæðum áhrifum einnig fyrir þjóðhagslegs stöðugleika. Þá er fjallað um hvernig útfæra má fjármálaeftirlit á vettvangi seðlabanka í tveggja turna líkani og helstu niðurstöður reifaðar.

8. rit: Peningastefnunefnd í sjö ár

02. september 2016

Út eru komin Efnahagsmál nr. 8, „Peningastefnunefnd í sjö ár“, eftir Karen Áslaugu Vignisdóttur. Í greininni er fjallað um ólíkar gerðir peningastefnunefnda, samsetningu þeirra og skipulag. Þá er fjallað nánar um breytingarnar sem gerðar voru á ramma peningastefnunnar á Íslandi árið 2009. Einnig er umfjöllun um atkvæðagreiðslur peningastefnunefndar á árunum 2009-2015 og skoðað hvernig atkvæði einstakra nefndarmanna hafa fallið á tímabilinu auk þess að fjalla um hvort atkvæðamynstrið sé áþekkt því sem gerist í öðrum löndum með sambærilegt fyrirkomulag peningastefnu.

7. rit: Fjármagnsskipan og fjárhagsleg staða 500 veltumestu fyrirtækja landsins

01. apríl 2015
Steinn Friðriksson

Fjármagnsskipan og fjárhagsleg staða 500 veltumestu fyrirtækja landsins(897,33 KB)

Í ritinu er fjallað um fjárhagslega stöðu og fjármagnsskipan stærstu fyrirtækja á Íslandi frá árinu 1997 til 2012. Skuldir innlendra fyrirtækja jukust mikið í aðdraganda og kjölfar fjármálaáfallsins árið 2008 en lækkun íslensku krónunnar og aukin verðbólga hafði þau áhrif að eiginfjárstaða margra fyrirtækja versnaði. Því er velt upp hvort skuldsetning íslenskra fyrirtækja hafi verið of mikil og fjárhagslegt svigrúm þeirra til að mæta áföllum því takmarkað. Bent er á að í ljósi sögulega sveiflukennds efnahagsumhverfis og hárra skuldamargfaldara fyrirtækjanna gæti verið hagkvæmt að draga úr hvötum til skuldsetningar í gegnum skattkerfið.

6. rit: Verðtrygging 101

2. desember 2013
Lúðvík Elíasson

Verðtrygging 101(823,42 KB)

Út eru komin Efnahagsmál nr. 6, „Verðtrygging 101“, eftir Lúðvík Elíasson. Í greininni er fjallað um ýmsar hliðar verðtryggingar og dregnar fram helstu staðreyndir um hana sem tengjast umræðu um framkvæmd hennar og áhrif. Umfjöllunin byggist á áratugalangri reynslu af verðtryggingu hér á landi sem og í öðrum löndum og af víðtækum rannsóknum fræðimanna á áhrifum verðtryggingar.

5. rit: Ljón í vegi minnkandi atvinnuleysis

1. október 2013
Bjarni Geir Einarsson og Jósef Sigurðsson

Ljón í vegi minnkandi atvinnuleysis(641,46 KB)

Út eru komin Efnahagsmál nr. 5, „Ljón í vegi minnkandi atvinnuleysis. Mikilvægi ráðdeildar í ríkisfjármálum, forsjálni í kjarasamningum og varfærni við stjórn peningamála“, eftir Bjarna G. Einarsson og Jósef Sigurðsson. Í greininni er fjallað um þýðingu niðurstöðu nýlegrar rannsóknarritgerðar höfunda um jafnvægisatvinnuleysi á Íslandi fyrir peningastefnuna, stefnuna í ríkisfjármálum, kjarasamningagerð og launaþróun.

4. rit: Hvað skuldar þjóðin?

1. febrúar 2011
Arnór Sighvatsson, Ásgeir Daníelsson, Daníel Svavarsson, Freyr Hermannsson, Gunnar Gunnarsson, Hrönn Helgadóttir, Regína Bjarnadóttir og Ríkarður Bergstað Ríkarðsson

Hvað skuldar þjóðin?(1,25 MB)

Í greininni er rýnt í gegnum moldviðrið sem þyrlaðist upp við fall fjármálakerfisins og veldur því að niðurstöður uppgjörs skulda og eigna samkvæmt opinberum stöðlum gefur villandi mynd af þeirri skuldastöðu sem ráða mun mestu um velferð þjóðarinnar til næstu ára. Í greininni leggja höfundar mat á verðmæti eigna og skulda sem líklegt er að muni koma í ljós þegar rykið hefur sest. Þá skuldastöðu má kalla „dulda“ skuldastöðu þjóðarbúsins, en stundum hefur hugtakið undirliggjandi skuldastaða verið notað. Þótt mikil óvissa ríki enn um þessar niðurstöður virðist næsta víst að þegar þrotabú hinna föllnu fjármálafyrirtækja hafa verið gerð upp og tekið hefur verið til annarra þátta sem skekkja myndina muni koma í ljós að hreinar skuldir þjóðarbúsins hafa ekki verið minni í áratugi. Hreinar erlendar skuldir hins opinbera verða hins vegar töluvert hærri. Þá er í greininni lagt mat á dulinn viðskiptajöfnuð landsins, sem af sömu ástæðum er mun hagstæðari en hinar opinberu tökur gefa til kynna, m.a. vegna þess að áfallnir vextir þrotabúa bankanna verða aldrei greiddir.

Myndagögn(57,66 KB)

3. rit: Forspárgildi fyrirtækjakönnunar Capacent Gallup

3. janúar 2011
Guðjón Emilsson

Forspárgildi fyrirtækjakönnunar Capacent Gallup(974,35 KB)

Í greininni fjallar höfundur um könnun Capacent Gallup um stöðu og framtíðarhorfur 400 stærstu fyrirtækja Íslands. Með myndrænni greiningu og fylgnimælingum er sýnt fram á að svör forsvarsmanna fyrirtækja geta haft forspárgildi fyrir ýmsar íslenskar hagstærðir og geta þ.a.l. nýst við spágerð. Svipaðar kannanir hafa verið gerðar víða um heim og hefur reyndin verið sú að upplýsingar úr þeim hafa haft forspárgildi fyrir valdar hagstærðir. Að auki er fjallað um hvernig bæta megi tímaraðalíkön með því að bæta við upplýsingum úr könnunum.

2. rit: Vextir og gengi þegar peningastefna er á verðbólgumarkmiði

1. desember 2010
Ásgeir Daníelsson

Vextir og gengi þegar peningastefna er á verðbólgumarkmiði(960,89 KB)

Í grein þessari fjallar höfundur um tiltekna þætti í peningastefnu Seðlabanka Íslands á þenslutímum. Meðal annars er fjallað um fullyrðingar ýmissa hagfræðinga um að vextir hafi verið hér of háir og aukið þenslu í gegnum auðsáhrif frá háu gengi. Höfundur leiðir fram röksemdir sem benda til að draga megi í efa fullyrðingar af þessu tagi.

1. rit: Verðtrygging og peningastefna

2. febrúar 2009
Ásgeir Daníelsson

Verðtrygging og peningastefna(135,26 KB)

Verðtrygging, fastir vextir og jafngreiðslur einkenna langtímalán á Íslandi. Spurt er hvort það valdi minni virkni peningastefnunnar. Þessi atriði draga ekki úr áhrifum stýrivaxta á langtímavexti en valda því að endurfjármögnun er minni og ný lán því lægra hlutfall af lánum einkum ef verðbólga vex. Ef áhrif peningastefnunnar eru í gegnum umfang nýrra lána þá er virknin meiri þar sem eru nafnvextir og jafnar afborganir.