Framsýn peningastefna er grundvöllur fyrir því að Seðlabankinn nái markmiði sínu um stöðugt verðlag. Til þess að peningastefnan sé framsýn og geti brugðist við atburðum sem eru líklegir til að eiga sér stað í náinni framtíð þarf Seðlabankinn að geta metið efnahagshorfur til skamms og langs tíma, auk helstu óvissu- og áhættuþátta sem gætu haft áhrif á þá þróun. Í því skyni gerir Seðlabankinn þjóðhags- og verðbólguspár fjórum sinnum á ári til þriggja ára í senn. Þær byggjast á ítarlegri greiningu á stöðu þjóðarbúsins og efnahagshorfum hverju sinni og eru birtar í ritinu Peningamál.
Verðbólguspá
Verðbólguspá Seðlabankans gegnir mikilvægu hlutverki við framkvæmd peningastefnunnar. Við mat á verðbólguhorfum notast bankinn einkum við ársfjórðungslegt þjóðhagslíkan bankans, QMM (e. Quarterly Macroeconomic Model). Samkvæmt líkaninu ráðast verðbólguhorfur af þróun innfluttrar verðbólgu, launakostnaðar á framleidda einingu, framleiðsluspennu í þjóðarbúinu og væntri framtíðarverðbólgu. Einnig er stuðst við einföld tímaraðalíkön og mat sérfræðinga á verðbólguhorfum til skamms tíma.
Meðfylgjandi mynd sýnir nýjustu verðbólguspá Seðlabankans ásamt óvissumati.
Þjóðhagsspá
Seðlabankinn birtir einnig spár um þróun fjölda annarra hagstærða. Þjóðhagsreikningar eru helsti grundvöllur matsins á stöðu þjóðarbúsins. Til viðbótar leggja sérfræðingar bankans sjálfstætt mat á stöðuna með tölfræðilegri greiningu á þróun lykilstærða með hliðsjón af hátíðnivísbendingum, spurningakönnunum og samtölum við forsvarsmenn fyrirtækja, stofnana og aðila á vinnumarkaði. Þjóðhagslíkan Seðlabankans, QMM, er það tæki sem er notað til að halda utan um þessar upplýsingar.
Meðfylgjandi mynd sýnir nýjustu hagvaxtarspá Seðlabankans.
Þjóðhagslíkanið QMM
Til þess að peningastefnan geti verið framsýn þarf Seðlabankinn að ráða yfir líkönum sem gera honum kleift að meta efnahags- og verðbólguhorfur. Töluverður hluti rannsókna innan bankans er helgaður þessu viðfangsefni. Ársfjórðungslegt þjóðhagslíkan Seðlabankans var tekið í notkun í byrjun árs 2006 og hlaut nafnið QMM (e. Quarterly Macroeconomic Model eða ársfjórðungslegt þjóðhagslíkan). Þar áður var einkum stuðst við líkan sem var á ársgrunni og hentaði því ekki nægilega vel við að greina skammtímaþróun hagstærða. Einnig notar bankinn heildarjafnvægislíkanið DYNIMO samhliða QMM en slík jafnvægislíkön eru talin henta betur þegar metin eru áhrif hagstjórnaraðgerða á efnahagsþróun.
Ítarefni
QMM 4.0 Handbók desember 2019 (pdf)
QMM Gagnagrunnur (.xlsx) 5. febrúar 2025
QMM 3.0 Handbók desember 2015 (pdf)
QMM 2.2 Handbók nóvember 2011 (pdf)
QMM 2.1 Handbók júní 2011 (pdf)
QMM 2.0 Handbók 9. febrúar 2009 (pdf)
Tengt efni
Rammagrein í Peningamálum 2015/4 um uppfærslu á þjóðhagslíkani Seðlabankans
Rammagrein í Peningamálum 2015/4 um launaforsendur í spám Seðlabankans
Málstofa um endurbætur á QMM 10. febrúar 2009
Málstofa um nýtt ársfjórðungslegt þjóðhagslíkan 14. nóvember 2006
Rammagrein í Peningamálum 2006/1 um aðferðir Seðlabanka Íslands við verðbólguspár