Þetta eru meðal lykilspurninga við mótun peningastefnunnar á hverjum tíma. Þessum farvegum hennar um þjóðarbúið er lýst með því sem kallað er miðlunarferli peningastefnunnar. Í þessari fræðslugrein er þessu ferli lýst í stuttu máli.
Miðlun peningastefnunnar í gegnum fjármálakerfið
Eins og sést á mynd 1. hefur peningastefnan áhrif á efnahagsumsvif og verðbólgu í gegnum marga farvegi.
Mynd 1. Áhrif peningastefnunnar á þjóðarbúskapinn
Vaxtafarvegur peningastefnunnar
Fyrstu áhrif peningastefnunnar koma fram í gegnum fjármálakerfið. Ef meginvextir Seðlabankans eru hækkaðir leiðir það fyrst til hækkunar á öðrum vöxtum á markaði (áhrif vaxtalækkunar eru áþekk en með öfugu formerki).
Væntingafarvegur peningastefnunnar
Áhrifin á aðra vexti eru þó mismikil: skammtímanafnvextir hækka jafnan til samræmis við hækkun vaxta bankans en vextir skuldabréfa til lengri tíma hækka yfirleitt minna enda endurspegla þeir bæði núverandi seðlabankavexti og væntingar um framtíðarþróun þeirra á líftíma skuldabréfsins.
Að því leyti sem vaxtahækkun Seðlabankans leiðir til hækkunar skammtímaraunvaxta ættu verðtryggðir skuldabréfavextir einnig að hækka og að lokum óverðtryggðir og verðtryggðir vextir sem heimilum og fyrirtækjum standa til boða.
Eignaverðsfarvegur peningastefnunnar
Hækkun meginvaxta Seðlabankans og annarra markaðsvaxta leiðir einnig til þess að eignaverð gefur eftir – ýmist lækkar það eða hækkar minna en það hefði ella gert.
Hlutabréfaverð gefur t.d. eftir þar sem framtíðartekjuflæðið sem hlutabréfið verðleggur er núvirt með hærri vöxtum en áður. Hlutabréfaverð gefur einnig eftir þar sem hærri vextir gera skuldabréf álitlegri fjárfestingarkost en hlutabréf. Auk þess hægja hærri vextir almennt á efnahagsumsvifum eins og rakið er hér á eftir sem dregur úr eftirspurn eftir þeim afurðum sem fyrirtækin framleiða sem gerir þau minna virði en ella.
Með sama hætti ætti húsnæðisverð að gefa eftir þar sem fjármögnunarkostnaður nýrra húsnæðislána hækkar sem dregur úr eftirspurn eftir húsnæði.
Útlánafarvegur peningastefnunnar
Hækkun seðlabankavaxta ætti auk þess að draga úr útlánum lánastofnana til heimila og fyrirtækja. Lækkun eignaverðs rýrir hreint virði heimila og fyrirtækja en einnig efnahagsreikninga og eigið fé lánastofnana. Lánastofnanir verða því tregari til að veita ný lán þar sem útlánaáhætta hefur aukist en einnig vegna þess að hagkvæmara verður fyrir þær að byggja upp eiginfjárhlutföll á ný með því að draga úr útlánum og minnka efnahagsreikning sinn.
Gengisfarvegur peningastefnunnar
Vaxtahækkun Seðlabankans hefur jafnframt áhrif á gengi krónunnar þar sem hærri innlendir vextir auka vaxtamun gagnvart útlöndum. Eftirspurn eftir krónum eykst því sem veldur því að gengi krónunnar hækkar.
Áhrif peningastefnunnar á efnahagsumsvif og verðbólgu
Í gegnum ofangreind áhrif peningastefnunnar á aðra vexti og væntingar, á eignaverð og efnahagsreikninga og á gengi krónunnar hefur peningastefnan áhrif á útgjalda-, sparnaðar- og fjárfestingarákvarðanir heimila og fyrirtækja.
Áhrif á útgjaldaákvarðanir heimila
Hækkun vaxta verður til þess að ábatasamara er að fresta útgjaldaákvörðunum þar sem betri ávöxtun fæst af sparnaði. Útlánavextir hækka einnig og því verður dýrara að fjármagna útgjöld með nýjum lántökum. Þessu til viðbótar eykst greiðslubyrði eldri lána – sérstaklega af lánum með breytilegum vöxtum – sem gerir það að verkum að minna laust fé er til ráðstöfunar eftir að hafa greitt af útistandandi lánum. Lækkun eignaverðs í kjölfar hækkunar vaxta minnkar einnig veðrými heimila sem gerir þeim erfiðara um vik að taka ný lán. Hækkun seðlabankavaxta ætti því að leiða til minnkandi ráðstöfunartekna heimila og draga úr einkaneyslu miðað við það sem ella hefði verið.
Áhrif á útgjaldaákvarðanir fyrirtækja
Almennt ætti lausafjárstaða fyrirtækja að versna og fjármagnskostnaður þeirra að aukast þegar seðlabankavextir hækka. Lækkun hlutabréfaverðs gerir það einnig að verkum að markaðsvirði fyrirtækja lækkar í hlutfalli við endurfjármögnunarkostnað (þ.e. svokallað Q-hlutfall lækkar) sem gerir það óhagstæðara að gefa út nýtt hlutafé til að fjármagna nýjar fjárfestingar. Lækkun hlutabréfaverðs dregur einnig úr aðgengi fyrirtækja að nýju lánsfé. Þá dregur hærra gengi krónunnar úr samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja og fyrirtækja sem eru í samkeppni við innflutning.
Bein áhrif á heildareftirspurn
Hækkun seðlabankavaxta ætti því almennt að leiða til þess að heimili og fyrirtæki draga úr neyslu og fjárfestingarútgjöldum sínum sem verður til þess að heildareftirspurn í þjóðarbúinu dregst saman eða vex hægar en ella. Hækkun á gengi krónunnar gerir það einnig að verkum að eftirspurnin beinist í meira mæli út úr innlendum þjóðarbúskap þar sem verð á innfluttri vöru og þjónustu lækkar.
Annarrar umferðar áhrif
Til viðbótar við bein áhrif á heimili og fyrirtæki koma einnig óbein annarrar umferðar áhrif – sem skipta ekki síður máli – jafnvel á þau heimili og fyrirtæki sem ekki urðu fyrir beinum áhrifum vaxtahækkunarinnar. Þau áhrif gætu t.d. birst í því að minnkandi eftirspurn heimila verði til þess að fyrirtæki sem ekki urðu fyrir beinum áhrifum þurfa að draga saman umsvif og það getur orðið til þess að þau þurfa að draga úr ráðningum eða hætta við fyrirhugaðar launahækkanir sem aftur getur haft áhrif á heimili sem ekki urðu fyrir beinum áhrifum vaxtahækkunarinnar.
Áhrif á hagvöxt og atvinnustig
Þessi beinu og óbeinu áhrif peningastefnunnar á innlenda eftirspurn og utanríkisviðskipti gera það að verkum að landsframleiðslan minnkar eða vex hægar, þ.e. hagvöxtur verður minni en ella, og atvinnustig lægra.
Áhrif á verðbólgu
Minni eftirspurn eftir innlendri vöru og þjónustu léttir að lokum á innlendum verðbólguþrýstingi og tryggir að verðbólga haldist við markmið eða leiti aftur í það ef hún hefur risið of mikið. Hærri vextir geta einnig haft áhrif á verðbólgu með því að hafa áhrif á verðbólguvæntingar í gegnum væntingafarveginn og í gegnum áhrif hærra gengis krónunnar á innflutta verðbólgu.
Stærð áhrifa og tímatafir þeirra
Áhrif peningastefnunnar á efnahagsumsvif og verðbólgu taka jafnan nokkurn tíma að koma fram og geta verið breytileg frá einum tíma til annars.
Innlendar rannsóknir benda til þess að hámarksáhrif 1 prósentu hækkunar meginvaxta Seðlabankans á efnahagsumsvif komi jafnan fram eftir liðlega eitt ár þegar landsframleiðslan er orðin um 0,6% minni en hún hefði ella verið.
Hámarksáhrifin á verðbólgu taka jafnvel enn lengri tíma að koma fram en samkvæmt innlendum rannsóknum ná þau jafnan hámarki eftir liðlega tvö ár þegar verðbólga er um 0,6 prósentum minni en ella.
Þrátt fyrir ýmis sérkenni íslensks þjóðarbúskapar virðist stærðargráða áhrifa vaxtabreytinga Seðlabankans og tímatafir áhrifanna mjög svipaðar því sem þekkist í öðrum löndum.