Meginmál

Þegar verð á vörum og þjónustu hækkar almennt nefnist það verðbólga. Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags og er mæld sem tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs. Sú vísitala mælir meðalverð á vörum og þjónustu sem heimili á Íslandi kaupa í hverjum mánuði. Verðbólga felur í sér að verðgildi og kaupmáttur peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu. Hagstofa Íslands mælir vísitölu neysluverðs og byggir það á reglubundnum könnunum á útgjöldum heimilanna í landinu.

Hvað er verðbólga?

Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags yfir tíma og felur í sér að verðgildi og kaupmáttur peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu. Með almennu verðlagi er átt við meðalverð vöru og þjónustu á markaði en ekki verð á einstakri vöru eða tegund þjónustu. Með viðvarandi hækkun verðlags er átt við röð verðhækkana yfir nokkuð langt tímabil en ekki hækkun sem stafar af einstökum breytingum, t.a.m. vegna skattabreytinga eða vegna betri gæða tiltekinna vara. Almennt bregst peningastefnan ekki við einstökum verðbreytingum á tiltekinni vöru eða þjónustu nema þær hafi áhrif á væntingar um verðbólgu í framtíðinni.

Margt getur haft áhrif á verðbólgu. Fyrirtæki geta hækkað verð á vöru og þjónustu til að mæta hækkun framleiðslukostnaðar á borð við launakostnað. Einnig eykst verðbólguþrýstingur ef vöxtur eftirspurnar, þ.e. kaupgeta og kaupvilji heimila og fyrirtækja, er meiri en vöxtur framboðs. Það á sérstaklega við um vörur og þjónustu sem framleiddar eru innanlands.

Væntingar um verðbólgu skipta einnig máli. Ef heimili og fyrirtæki vænta þess að verðbólga aukist getur það kynt undir verðbólgu. Launafólk krefst hærri launa ef búist er við aukinni verðbólgu. Ef laun hækka of mikið þurfa fyrirtæki að hækka verð til að borga launin. Fyrirtæki hækka einnig frekar verð ef þau telja að önnur fyrirtæki munu gera slíkt hið sama. Væntingar um meiri verðbólgu í framtíðinni geta þannig leitt til þess að hún verði meiri í dag.

Algengasti mælikvarðinn á verðlagsbreytingar eru neysluverðsvísitölur og á Íslandi er yfirleitt miðað við vísitölu neysluverðs sem er mæld af Hagstofu Íslands. Sú vísitala er notuð til að mæla verðbólgu og er einnig algengasta viðmið verðtryggingar.

Hvernig er vísitala neysluverðs mæld?

Vísitala neysluverðs mælir breytingar á verðlagi einkaneyslu. Hagstofa Íslands mælir vísitölu neysluverðs mánaðarlega en þá er verð allra vara og þjónustu sem tilheyra skilgreindri neyslukörfu heimila kannað. Neyslukarfan er reist á niðurstöðum útgjaldarannsókna sem Hagstofan framkvæmir reglulega þar sem kannað er hvaða vörur og þjónustu neytendur eru að kaupa og í hvaða magni. Niðurstöður útgjaldarannsóknanna ráða því hvaða vægi einstakar vörur eða þjónustuþættir hafa í vísitölu neysluverðs.