Fréttir og tilkynningar
31. október 2025
Nokkur óvissa hefur skapast á íbúðalánamarkaði í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 55/2024 frá 14. október sl. .
Í ljósi þessa og til að styðja við virkni íbúðalánamarkaðarins hefur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveðið að gera breytingar á lánþegaskilyrðum. Í reglum Seðlabankans um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda er kveðið á um sérstaka undanþáguheimild til að veita lán umfram hámarkshlutfall. Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að undanþáguheimild lánveitenda á hverjum ársfjórðungi skuli hækkuð úr 5% í 10% af heildarfjárhæð veittra fasteignalána. Þá skuli horft til undangengins ársfjórðungs við útreikning hlutfallsins. Þessari breytingu er ætlað að gefa lánveitendum aukið svigrúm til að veita lán á meðan núverandi óvissa ríkir og mæta þörfum lántakenda með viðeigandi hætti.
Nefndin hefur enn fremur ákveðið að gera breytingar á reglum Seðlabankans um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda og hækka hámarkið við kaup á fyrstu fasteign úr 85% í 90%. Þetta er gert vegna framangreindrar óvissu og í ljósi þess að nokkur aðlögun hefur átt sér stað á fasteignamarkaði frá því að reglurnar voru hertar í júní 2022. Hámark veðsetningarhlutfalls fyrir aðra lántaka helst óbreytt í 80%.