Meginmál

Seðlabankinn hefur eftirlit með að starfsemi gjaldeyrisskiptaþjónustu, sem telst til tilkynningarskyldra aðila, sé í samræmi við lög nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sbr. X. kafla laganna.

Með gjaldeyrisskiptaþjónustu er átt við starfsemi þar sem í atvinnuskyni fara fram kaup og sala innlends og erlends gjaldeyris, sbr. 8. tölul. 3. gr. laganna.

Í áhættumati ríkislögreglustjóra, sem gefið var út í mars 2021, kemur fram að áhættan af gjaldeyrisskiptum sé metin veruleg. Við mat á ógnum eru taldar vísbendingar um að nokkuð algengt sé að brotamenn noti gjaldeyrisskipti til að þvætta peninga. Hlutfall reiðufjárviðskipta í gjaldeyrisskiptum sé hátt en reiðufjárviðskipti bjóði upp á að uppruni fjármagns sé dulinn og að einhverju leyti nafnlaus viðskipti sem geti verið ítrekuð hjá sama viðskiptamanni. Í áhættumati ríkislögreglustjóra kemur jafnframt fram að vísbendingar séu um að viðskipti af þessu tagi eigi sér stað með skipulögðum hætti.

Gjaldeyrisskiptaþjónusta er skráningarskyld, sbr. 35. gr. laganna og reglur nr. 151/2023 og nr. 152/2023, undanskildir eru þeir aðilar sem veita slíka þjónustu og fullnægja öllum eftirfarandi skilyrðum, sbr. i-lið 1. mgr. 2. gr. sömu laga:

  1. Gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans
  2. Heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 milljónum kr. á ári
  3. Gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100 þúsund kr., hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri
Frekari upplýsingar um skráningu gjaldeyrisskiptaþjónustu

Lög, reglur og eyðublöð