Seðlabankinn hefur eftirlit með starfsemi þeirra aðila sem það hefur veitt innheimtuleyfi samkvæmt innheimtulögum, nr. 95/2008, svo og opinberra aðila, viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja og verðbréfafyrirtækja, að lögmönnum undanskildum. Um framkvæmd eftirlitsins fer m.a. samkvæmt reglum nr. 981/2016.
Innheimtulög gilda um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Þau gilda þó ekki um innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og löginnheimtu.
Með fruminnheimtu er átt við innheimtuviðvörun samkvæmt. 7. gr. Með milliinnheimtu er átt við innheimtuaðgerðir sem hefjast eftir að skuldari hefur fengið innheimtuviðvörun og áður en löginnheimta hefst. Með löginnheimtu er átt við innheimtumeðferð á grundvelli 24. gr. a laga nr. 77/1998, um lögmenn.
Með innheimtuaðila er átt við einstakling eða lögaðila sem annast innheimtu, þ.m.t. vörslusviptingu.
Innheimtuaðilar mega aðeins stunda innheimtu fyrir aðra að fullnægðum ákveðnum skilyrðum sem eru:
- að þeir hafi fengið innheimtuleyfi samkvæmt 15. gr., sbr. 4. gr., laganna
- að innheimtan sé stunduð frá fastri starfsstöð hér á landi nema annað leiði af alþjóðasamningum sem binda Ísland
- að starfsábyrgðartrygging samkvæmt 14. gr. sé í gildi
Lögmenn, lögmannsstofur og lögaðilar sem eru að öllu leyti í eigu eins eða fleiri lögmanna eða lögmannsstofa, svo og opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, lánafyrirtæki og verðbréfafyrirtæki, mega þó stunda innheimtu án innheimtuleyfis.
Seðlabankinn fer með leyfisveitingu samkvæmt innheimtulögum, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 4. og 5. gr. laganna.[1]
Lög, reglur og eyðublöð
[1] Vakin er athygli á því að gagnvart lögmönnum, lögmannsstofum og lögaðilum í eigu lögmanna eða lögmannsstofa samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna fer Lögmannafélag Íslands með eftirlit samkvæmt lögunum og lögum um lögmenn.