Meginmál

Kröfur um eigið fé fjármálafyrirtækja eru í grundvallaratriðum þær sömu í öllum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og má flokka þær í þrennt.  Í fyrsta lagi er lögbundin lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn sem nemur 8% af áhættugrunni fjármálafyrirtækis. Í öðru lagi er viðbótarkrafa um eiginfjárgrunn sem fjármálaeftirlitið ákveður með tilliti til áhættu hjá hverju og einu fjármálafyrirtæki. Að lokum er samanlögð krafa um eiginfjárauka sem ætlað er að koma til móts við áhættu í efnahags- og fjármálakerfinu. Samanlagt mynda þessar kröfur heildarkröfu um eiginfjárgrunn.

Eiginfjárhlutfall (%) =

Eiginfjárgrunnur / Áhættugrunnur

Um eiginfjárkröfur fjármálafyrirtækja er fjallað í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR). Fjallað er um gildandi eiginfjárkröfur fyrir hvert fjármálafyrirtæki fyrir sig hér að neðan.

Gildandi eiginfjárkröfur

Fjármálafyrirtæki

Viðskiptabankar
Viðskiptabankar

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunnViðbótarkrafa um eiginfjárgrunnSamanlögð krafa um eiginfjárauka[1]Heildarkrafa um eiginfjárgrunn

Arion banki                                     

8,0%

1,8%[2]

9,7%

19,5%

Íslandsbanki

8,0%

1,8%[2]

9,9%

19,7%

Kvika banki

8,0%

3,6%[2]

6,5%

18,1%

Landsbankinn

8,0%

2,5%[2]

9,9%

20,4%

Virk gildi EIGINFJÁRAUKAArion BankiÍslandsbankiLandsbankinnKvika banki

Kerfisáhættuauki[3]

1,9%

1,9%

1,9%

1,6%

Eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki

3,0%

3,0%

3,0%

Sveiflujöfnunarauki[3]

2,4%

2,5%

2,5%

2,4%

Verndunarauki

2,5%

2,5%

2,5%

2,5%

Samanlögð krafa um eiginfjárauka

9,7%

9,9%

9,9%

6,5%

Sparisjóðir
Sparisjóðir

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunnViðbótarkrafa um eiginfjárgrunnSamanlögð krafa um eiginfjárauka[1]Heildarkrafa um eiginfjárgrunn

indó sparisjóður

8,0%

*

7,0%

15,0%

Sparisjóður Austurlands

8,0%

5,5%[4]

7,0%

20,5%

Sparisjóður Höfðhverfinga

8,0%

2,8%[4]

7,0%

17,8%

Sparisjóður Strandamanna

8,0%

3,3%[4]

7,0%

18,3%

Sparisjóður Suður-Þingeyinga

8,0%

4,4%[4]

7,0%

19,4%

Lánafyrirtæki
Lánafyrirtæki

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunnViðbótarkrafa um eiginfjárgrunnSamanlögð krafa um eiginfjárauka[1]Heildarkrafa um eiginfjárgrunn

Byggðastofnun

8,0%

*

**

8,0%

Fossar fjárfestingarbanki

8,0%

9,1%[2]

5,0%

22,1%

Lánasjóður sveitarfélaga

8,0%

*

5,0%

13,0%

Teya Iceland

8,0%

*

5,0%

13,0%

Verðbréfafyrirtæki
Verðbréfafyrirtæki

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn


Verðbréfafyrirtæki[5]

8,0%

Nánar um eiginfjárkröfur

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 92. gr. CRR skal eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækja nema að lágmarki 8% af áhættugrunni (stoð I). Um er að ræða lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn.

Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn skal samsett af eiginfjárþætti 1 (e. tier 1 capital, T1), þ.e. almennu eigin fé þáttar 1 (e. common equity tier 1 capital, CET1) og viðbótar eigin fé þáttar 1 (e. additional tier 1 capital, AT1), eiginfjárþætti 2 (e. tier 2 capital, T2) og frádráttarliðum. Þar af skal almennt eigið fé þáttar 1, eftir frádrátt, nema að lágmarki 4,5% af áhættugrunni og þá skal eiginfjárþáttur 1, eftir frádrátt, nema að lágmarki 6% af áhættugrunni, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 92. gr. CRR. Áhættugrunnur fjármálafyrirtækja er samtala veginna áhættuþátta sem starfsemin felur í sér, sbr. 3. mgr. sömu greinar.

Lágmarkskrafa fjármálaeftirlitsins um eiginfjárgrunn (viðbótarkrafa um eiginfjárgrunn)

Með lágmarkskröfu fjármálaeftirlitsins um eiginfjárgrunn (e. total SREP capital requirement, TSCR) er átt við samtölu af lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn, þ.e. eiginfjárgrunni sem nemur 8% af áhættugrunni samkvæmt c-lið 1. mgr. 92. gr. CRR (stoð I) og viðbótareiginfjárkröfu samkvæmt mati eftirlitsins á eiginfjárþörf (stoð II-R). Matið byggir á heimild í 1. tölul. 3. mgr. 107. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. mgr. sömu greinar, sem kveður á um að fjármálaeftirlitinu sé heimilt að mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn en sem nemur 8% af áhættugrunni.

Eiginfjárgrunnur vegna stoðar II-R skal að lágmarki vera samsettur af 56,25% af almennu eigin fé þáttar 1 og 75% af eiginfjárþætti 1, sbr. 6. mgr. 107. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Taki fjármálaeftirlitið ákvörðun um viðbótarkröfu um eiginfjárgrunn, ber hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki á hverjum tíma að viðhalda eiginfjárgrunni til að mæta þeirri kröfu.

Nánari umfjöllun um mat fjármálaeftirlitsins á viðbótareiginfjárþörf má finna í Almennum viðmiðum og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum sem byggja á viðmiðunarreglum EBA um könnunar- og matsferli og álagspróf (EBA/GL/2022/03).

Samanlögð krafa um eiginfjárauka

Samkvæmt X. kafla laga um fjármálafyrirtæki skal fjármálafyrirtæki til viðbótar við lágmarkskröfur fjármálaeftirlitsins um eiginfjárgrunn viðhalda samanlagðri kröfu um eiginfjárauka (e. combined buffer requirement). Af hinni samanlögðu kröfu um eiginfjárauka ber fyrst að fullnægja kröfu um kerfisáhættuauka, síðan kröfu um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, því næst kröfu um sveiflujöfnunarauka og loks kröfu um verndunarauka, sbr. 83. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Til eiginfjárauka er einungis heimilt að telja eiginfjárliði sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1, sbr. 83. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

Þeir eiginfjáraukar sem fjármálastöðugleikanefnd hefur samþykkt og eru í gildi hér á landi eru 2% kerfisáhættuauki, sbr. reglur nr. 1414/2024, 3% eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, sbr. reglur nr. 1415/2024, og 2,5% sveiflujöfnunarauki, sbr. reglur nr. 256/2023, auk hins lögbundna 2,5% verndunarauka, sbr. 84. gr. og 84. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

Heildarkrafa um eiginfjárgrunn

Með heildarkröfu um eiginfjárgrunn (e. overall capital requirement, OCR) er átt við samtölu hinnar 8% lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn samkvæmt CRR, ef við á viðbótarkröfu fjármálaeftirlitsins um eiginfjárgrunn og samanlagða kröfu um eiginfjárauka.

Aðgerðir vegna ónógs eigin fjár

Fullnægi fjármálafyrirtæki ekki varfærniskröfum, eða ef líklegt er að þeim verði ekki fullnægt á næstu tólf mánuðum, ber því að tilkynna fjármálaeftirlitinu um það í samræmi við 52. gr. e laga um fjármálafyrirtæki og greina frá því til hvaða ráðstafana það hyggst grípa til að koma starfseminni í lögmætt horf.

Af heildarkröfu um eiginfjárgrunn ber fyrst að viðhalda samanlagðri kröfu um eiginfjárgrunn. Þar ber, eins og áður sagði, fyrst að fullnægja kröfu um kerfisáhættuauka, síðan kröfu um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, því næst kröfu um sveiflujöfnunarauka og loks kröfu um verndunarauka. Röðun eiginfjáraukanna endurspeglar hversu alvarlegum augum er litið á það ef fjármálafyrirtæki viðheldur þeim ekki. Má því segja að kerfisáhættuaukinn sé harðasti eiginfjáraukinn og verndunaraukinn sá mýksti. Þrátt fyrir það kveða lög um fjármálafyrirtæki á um að sé samanlagðri kröfu um eiginfjárauka ekki viðhaldið af hálfu fjármálafyrirtækis beri því að vernda eigin fé sitt. Takmarkast þá eftir atvikum meðal annars ráðstöfun hagnaðar, útgreiðsla arðs, endurkaup eigin hluta og kaupaukagreiðslur, sbr. 86. gr. m – 86. gr. o laga um fjármálafyrirtæki. Auk þess skal stjórn hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis senda fjármálaeftirlitinu áætlun um verndun eigin fjár samkvæmt 86. gr. s sömu laga. Fjármálafyrirtæki sem ekki viðheldur kerfisáhættuauka og áðurnefndar takmarkanir um varðveitingu eigin fjár eru ekki taldar hafa skilað tilætluðum árangri getur það átt á hættu að starfsleyfi þess verði afturkallað, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Ef lágmarkskröfu fjármálaeftirlitsins um eiginfjárgrunn er ekki fullnægt af hálfu fjármálafyrirtækis, þ.e. eiginfjárgrunni sem nemur 8% af áhættugrunni og viðbótareiginfjárkröfu samkvæmt mati fjármálaeftirlitsins, eða ef líkur eru á kröfunni verði ekki fullnægt vegna versnandi fjárhagslegrar stöðu, getur fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um tímanleg inngrip, sbr. 107. gr. c – 107. gr. e laga um fjármálafyrirtæki.

Teljist fjármálafyrirtæki á fallanda fæti leiðir það til skilameðferðar samkvæmt lögum nr. 70/2020, um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, eða eftir atvikum að gripið sé til slitameðferðar samkvæmt XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki.


[1] Við útreikning á hinni samanlögðu kröfu um eiginfjárauka er tekið tillit til vegins meðaltals kerfisáhættu- og sveiflujöfnunarauka vegna erlendra áhættuskuldbindinga miðað við árslok 2023. Upplýsingarnar eru uppfærðar árlega á vefnum en oftar sé tilefni til.

[2] M.v. niðurstöðu könnunar- og matsferlis 2024.

[3] Að teknu tilliti til vegins meðaltals kerfisáhættu- og sveiflujöfnunarauka vegna erlendra áhættuskuldbindinga m.v. árslok 2023.

[4] M.v. niðurstöðu könnunar- og matsferlis 2022.

[5] Hér á landi eru starfandi sjö verðbréfafyrirtæki og eru þau öll undanþegin kröfu um að viðhalda eiginfjáraukum, sbr. 83. gr. e laga um fjármálafyrirtæki. Við innleiðingu reglugerðar (ESB) 2019/2033 (IFR) og tilskipunar (ESB) 2019/2034 (IFD) verða talsverðar breytingar á eiginfjárkröfum til verðbréfafyrirtækja.

* Að svo stöddu hefur ekki verið tekin ákvörðun um viðbótarkröfu um eiginfjárgrunn.

** Undanþegin samanlagðri kröfu um eiginfjárauka samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.