Gjaldeyrisviðskipti á Íslandi eru frjáls nema annað leiði af lögum. Hið sama gildir um greiðslur og fjármagnshreyfingar milli landa. Þó er heimilt að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir alvarlega röskun á stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálastöðugleika. Um skipan gjaldeyrismála á Íslandi er fjallað um í lögum nr. 70/2021 um gjaldeyrismál.
Milliganga um gjaldeyrisviðskipti
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um gjaldeyrismál er óheimilt að stunda milligöngu um gjaldeyrisviðskipti nema að hafa til þess heimild samkvæmt lögum. Milliganga um gjaldeyrisviðskipti er annars vegar að stunda gjaldeyrisviðskipti í atvinnuskyni fyrir eigin reikning eða gegn endurgjaldi og hins vegar að koma á gjaldeyrisviðskiptum milli aðila gegn endurgjaldi. Þeir aðilar sem hafa slíka heimild samkvæmt lögum eru, auk Seðlabanka Íslands sem stundar viðskipti með erlendan gjaldeyri og hefur milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. 27. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019 einna helst viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrir greiðsluþjónustuveitendur ásamt mögulegum gjaldeyrisskiptastöðvum. Seðlabankinn getur þó jafnframt veitt heimild til þess að reka gjaldeyrismarkað sem felur í sér heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og er skilyrði slíks leyfis að starfræksla hans sé til þess fallin að auka gagnsæi og skilvirkni í verðmyndun á gjaldeyrismörkuðum.
Ráðstafanir í þágu þjóðhagsvarúðar
Afleiðuviðskipti
Reglur nr. 412/2022, um afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli, tóku gildi 8. apríl 2022. Reglurnar takmarka heildarumfang afleiðuviðskipta viðskiptabanka þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli (afleiðubókum þeirra). Þessum takmörkum er einkum ætlað að koma í veg fyrir umfangsmikla útgáfu á skuldabréfum í krónum erlendis (svokölluðum jöklabréfum) sem gæti ein og sér valdið óstöðugleika en einnig til þess að takmarka óhóflega spákaupmennsku og stöðutöku í gjaldeyrisviðskiptum sem er almennt til þess fallin að stuðla að óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði.
Upplýsingagjöf til Seðlabankans
Upplýsingagjöf skv. 10. gr. laga um gjaldeyrismál
Fjármálafyrirtækjum, greiðslustofnunum, rafeyrisfyrirtækjum og gjaldeyrisskiptastöðvum með starfsemi hér á landi og þeim sem stunda milligöngu um gjaldeyrisviðskipti er skv. 10. gr. laga um gjaldeyrismál skylt að tilkynna gjaldeyrisviðskipti sín, fjármagnshreyfingar á milli landa sem þeir annast eða móttaka og greiðslur á milli landa sem þeir annast eða móttaka til Seðlabanka Íslands á því formi sem Seðlabankinn ákveður. Samkvæmt reglum nr. 861/2022 um almenna tilkynningarskyldu samkvæmt lögum um gjaldeyrismál eru aðrir en innlendir viðskiptabankar undanþegnir þessari tilkynningarskyldu en innlendir viðskiptabankar fullnægja henni með reglulegri skýrslugjöf til Seðlabankans. Innlendum lögaðilum er auk þess skylt að tilkynna Seðlabanka Íslands sérstaklega um tiltekin viðskipti sem eiga sér stað án milligöngu fyrrnefndra tilkynningarskyldra aðila með skilum á eyðublaði í gagnaskilakerfi á þjónustuvef Seðlabankans eða með tölvupósti á ge.gagnaskil@sedlabanki.is.
Skýrslur viðskiptabanka um afleiðuviðskipti
Samkvæmt reglum nr. 412/2022 ber viðskiptabönkum að skila mánaðarlega skýrslum um afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli. Það athugist að framangreind upplýsingagjöf kemur ekki í stað upplýsingagjafar til afleiðuviðskiptaskráa skv. lögum nr. 15/2018, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.
Lög og reglur
- Reglur nr. 861/2022, um almenna tilkynningarskyldu samkvæmt lögum um gjaldeyrismál
- Reglur nr. 412/2022, um afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli
- Reglur nr. 600/2020 um gjaldeyrismarkað
- Reglur nr. 223/2019, um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris
- Reglur nr. 784/2018, um gjaldeyrisjöfnuð